136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

lánveitingar bankanna til eigenda, málþóf o.fl.

[13:58]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þeim fer nú að fækka dögum mínum á þessum virðulega stað en ég hélt að ég mundi ekki upplifa það að sjálfstæðismenn færu í málþóf. En það gerðist. Þetta var málþóf samkvæmt nýja kerfinu þannig að nú hafa sjálfstæðismenn kennt hv. þingmönnum og þingheimi hvernig fara á í málþóf samkvæmt nýja kerfinu. Það er sem sagt þannig að hv. þingmenn í sama stjórnmálaflokki fara bara í andsvör hver við annan. Það er nýja fyrirkomulagið.

Þetta eru mikil vonbrigði vegna þess að við framsóknarmenn stóðum að því með flestum öðrum flokkum, reyndar voru Vinstri grænir ekki með í þeirri ákvörðun, að setja hér tímamörk á allar ræður í öllum umræðum og héldum að það mundi þá þýða að hér færu fram málefnalegar umræður.

En nú er búið að finna leið til þess að komast hjá því með því að raða bara samflokksmönnum á mælendaskrá og þeir fara svo í andsvör hver við annan. Ég hef kannski haft of mikið álit á Sjálfstæðisflokknum fram að þessu (Gripið fram í.) og er það mitt vandamál. Það er þá kannski ágætt að ég fari að hverfa héðan úr þingsalnum. En það kemur mér á óvart að það skuli hafa verið gripið til þessara ráða af hálfu sjálfstæðismanna. Þetta er sennilega það sem við eigum eftir að sjá á næstu dögum og þar til að þingið fer heim.