136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

lánveitingar bankanna til eigenda, málþóf o.fl.

[14:02]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er beinlínis rangt hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að hér hafi vantað samfylkingarmenn því hér voru bæði hv. þm. Ellert Schram og Össur Skarphéðinsson og hún getur farið í þingtíðindi fyrst hún man ekki eftir þessu frekar en hún man eftir því sem fram fór hinar miklu nætur sem við áttum saman um Ríkisútvarpið.

Hv. þm. Ásta Möller segir að þetta hafi verið algerlega eðlilegt, að 15 sjálfstæðismenn hafi talað, þrír oftar en einu sinni, 17 um fundarstjórn forseta og í 8 andsvörum við sjálfa sig en hvert andsvar tekur að lágmarki, fyrir utan skiptingar, 8 mínútur. Þar gátu sjálfstæðismenn þæft málið í 64 mínútur, 8x8 eru 64 lærðum við í grunnskóla, og það hafa þeir lært líka núna sjálfstæðismenn, gott hjá þeim. Ég tek undir með hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að þetta er nýjung á þinginu. Sjálfstæðismenn hafa sem sé fundið upp þessa nýjung og það er kannski liður í endurreisnarstarfinu. Kannski það sé gr. 4 í endurreisnarnefndinni sem nú er að reyna að tosa Sjálfstæðisflokkinn upp úr því feni sem hann er eðlilega, skiljanlega og algerlega röklega lentur í.

Auðvitað var hér málþóf í gær. Ástæðan sem var fundin var tillaga Péturs H. Blöndals sem hann flutti á 15 mínútum. Pétur H. Blöndal hefur sagt það, hann er ekki málþófsmaður hv. þingmaður. Hann segir: Það sem ég hef að segja segi ég á 15 mínútum. Ég hef alltaf dáðst að þeim hæfileika hjá Pétri H. Blöndal. Aðrir töluðu í 315 mínútur, aðrir en Pétur H. Blöndal. Sjálfstæðismenn töluðu í 315 mínútur … (Gripið fram í.) Ef það er ekki málþóf þá hef ég ekki verið ritstjóri Íslensku orðabókarinnar. Þannig er það.

Það sem vekur hins vegar athygli, forseti, er það að málþófið fer ekki fram í því máli sem þæfa á því það sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér að gera er að þæfa stjórnarskipunarlögin, að þæfa tillögurnar um betra lýðræði, um þjóðareign á auðlindunum og um stjórnlagaþingið. Það er það sem þeir eru á móti og þess vegna taka þeir öll önnur mál í gíslingu í þinginu og það er ekki bara vont og það er ekki bara fáránlegt í þeim aðstæðum sem við erum í heldur er það líka óþinglegt.