136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:15]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég segi já við þessari tillögu. Hér er farin ágæt leið í þessu máli, um leið og því var lýst í nefndaráliti að fullur vilji væri til að ganga lengra ef menn teldu það öruggt og vænlegt gagnvart þessum sjóðum. Hér er farin millilending sem menn telja ábyrgt og varlegt að fara. Það mun koma mörgum þeim sem í vanda eru staddir mjög vel að geta losað þetta fé sem marga munar mikið um. Og þótt þetta leysi ekki vanda allra eða margra að fullu þá skiptir það mjög miklu máli að fólk geti gengið að þessu fé sínu. Um þetta var ágæt samstaða. Lífeyrissjóðirnir og margir aðrir höfðu mikinn fyrirvara við það almennt að opna á aðgengi fólks að þessu fé. Þetta var niðurstaðan og það var talið óhætt að ganga þetta langt á þessu stigi. Svo munum við skoða það strax hvort hægt sé að fara lengra og fara aðrar leiðir eins og þær sem margir hv. þingmenn komu með inn í nefndina. Það er fagnaðarefni að þessi tillaga gengur frá þinginu núna í þessari mynd.