136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:19]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Komið er til umræðu frumvarp til stjórnarskipunarlaga, flutt af fulltrúum fjögurra þingflokka á Alþingi. Það má gera ráð fyrir því að um þær tillögur sem í frumvarpinu felast skapist miklar umræður og það verður að gera þá kröfu að hæstv. forsætisráðherra hlýði á umræðurnar og sé tilbúin að svara fyrirspurnum sem kunna að koma fram í umræðunum vegna þess að breytingar á stjórnarskrá eru ekki neitt smámál. Það er ekki um að ræða venjuleg þingmál enda gerir stjórnarskráin sjálf kröfu um sérstaklega ítarlega málsmeðferð á tveimur þingum þegar breytingar eru gerðar á stjórnarskránni. Það er einmitt vegna þess að það ber að vanda vel til slíkra breytinga og það er ekki leyfilegt í góðu lýðræðislegu samstarfi, góðu lýðræðisríki að hrapa að breytingum á sjálfri stjórnarskránni sem hefur að geyma grundvallarlögin um þjóðskipulag okkar. Þess vegna er það illa til fundið hjá ríkisstjórninni að ætla að hrapa að slíkum breytingum einmitt á síðustu dögum þingsins, án þess að um slíkt mál hafi verið haft eðlilegt samráð og samstarf eins og ævinlega hefur verið gert þegar slík mál hafa verið á ferðinni á undanförnum áratugum.

Ég hygg að það sé ein undantekning á því að haft hafi verið samstarf allra þingflokka við breytingar á stjórnarskránni á öllum lýðveldistímanum. Það var árið 1959 þegar Framsóknarflokkurinn í heilu lagi lagðist gegn breytingum sem aðrir flokkar voru sammála um og snerust um kjördæmabreytingar sem flokkurinn lagðist gegn vegna þess að hann hafði pólitískan hag af gamla fyrirkomulaginu. Það hefur sem sagt verið sú venja að breytingar á stjórnarskránni hafa yfirleitt verið gerðar að undangengnu víðtæku samráði allra flokka þó svo það hafi ekki alltaf verið þannig að allir þingmenn hafi greitt atkvæði með breytingum. Það er ekki hægt að ætlast til þess þegar um þessa hluti er að ræða en það er hægt að ætlast til að þess sé freistað að ná samkomulagi allra flokka um jafnviðamikil og merkileg mál og þau sem felast í stjórnarskrá lýðveldisins. Það hefur ekki verið gert í þessu tilviki og það er rangt sem segir í þeirri grein sem hæstv. forsætisráðherra birtir í Morgunblaðinu nú um helgina að haft hafi verið samráð við alla stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi um þetta mál. Það er rangt og það er hörmulegt að lesa það í dagblaði eftir forsætisráðherra að það sé farið með slíka staðlausa stafi á prenti.

Það sem er rétt er að núverandi ríkisstjórn kallaði til þriggja manna hóp á sínum eigin vegum til að vinna að þessu máli. Sjálfstæðisflokknum var ekki gefinn kostur á að tilnefna mann í þann hóp. Þegar sá hópur hafði unnið saman skamma hríð var lagt fram blað á fundi formanna allra flokka með hugmyndum hópsins. Það var ekki óskað eftir viðbrögðum Sjálfstæðisflokksins við þeim tillögum.

Nokkrum dögum síðar kom nýtt blað með breyttum hugmyndum. Þá hafði hópurinn í kringum ríkisstjórnina og fulltrúar hennar komið sér saman um að breyta þessu blaði án þess að gefa Sjálfstæðisflokknum færi á því að koma þar að máli. Þessu máli var breytt í þriðja sinn án nokkurs samráðs við Sjálfstæðisflokkinn. Ríkisstjórnarflokkarnir með sína litlu nefnd svokallaðra sérfræðinga um þessi mál hafa verið að pukrast með þetta mál, eins og ég hef leyft mér að kalla það, pukrast með þetta mál og ekki hleypt öllum að eins og eðlilegt verður að teljast þegar slíkt stórmál er á ferðinni. Ég skil ekki hvað fyrir hæstv. forsætisráðherra hefur vakað í þessu máli að gefa ekki öllum flokkum jafnt færi á að koma að málinu með sjónarmið því það gat vel verið svo að um þessi mál væri hægt að ná samstöðu ef hennar hefði verið leitað. En hennar var ekki leitað, sennilega vegna þess að forsætisráðherra taldi sig vera í fullum færum um að sýna Sjálfstæðisflokknum í tvo heimana með að það væri hægt að koma svona málum í gegnum Alþingi án hans stuðnings og atbeina. Það eru þá háleit sjónarmið og háleit markmið eða hitt þó heldur þegar kemur að sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins.

Ég ætla að rekja hérna, virðulegi forseti, nokkur dæmi um hvernig staðið hefur verið að breytingum á stjórnarskrá á undanförnum fáeinum áratugum. Mörg okkar í þessum sal muna vel eftir þessum breytingum vegna þess að við vorum þátttakendur í þeim. Ég sjálfur hafði forustu um breytingar árið 1995 og árið 1999. Það er hægt að fara lengra aftur í tímann en árið 1983 var kjördæmaskipaninni breytt og þingmönnum var fjölgað í 63 með stjórnarskrárbreytingum. Um það náðist góð samstaða milli allra flokka þótt ekki hafi allir þingmenn greitt þeirri breytingu atkvæði sitt en þetta byggðist á sameiginlegri vinnu allra þingflokka. Reyndin er sú að annaðhvort hefur verið um að ræða formlegar stjórnarskrárnefndir með fulltrúum allra flokka eða óformlegra samráð, t.d. á vettvangi formanna þingflokkanna og allt hefur það skilað þeim árangri að breytingar hafa náð fram að ganga. Ég nefndi árið 1983.

Árið 1991 tóku formenn þingflokka á Alþingi höndum saman um semja og flytja tillögur um að sameina Alþingi í eina málstofu og gera aðrar breytingar því tilheyrandi, þar á meðal þá breytingu sem væntanlega verður rædd síðar í vikunni um að þingmenn hafi umboð og haldi umboði sínu til kjördags. Það var til að tryggja að hægt væri að kalla þingið saman ef eitthvað óvænt kæmi upp á frá þingrofsdegi til kjördags. Það voru viðbrögð við því sem gerðist á Alþingi vorið 1974 þegar forsætisráðherra rauf þingið og sendi það heim umboðslaust þegar í ljós kom að hann hafði meiri hluta Alþingis á móti sér og við blasti samþykkt vantrauststillögu. Þetta voru breytingarnar árið 1991.

Árið 1995 voru gerðar breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, eins og við mörg hver munum. Aðdragandinn að því var sá að Alþingi samþykkti þingsályktun á Þingvöllum árið 1994 um þetta mál, jafnhliða því sem samþykkt var þingsályktun um að setja á laggirnar svokallaðan Lýðveldissjóð með sérstöku fjárframlagi en það mál kemur þessu að öðru leyti ekki við. Þegar við þingflokksformenn á þeim tíma vorum að vinna í því hvaða mál væri rétt að ræða á Þingvallafundinum árið 1994 kom upp sú hugmynd að taka sérstaklega fyrir VII. kafla stjórnarskrárinnar um mannréttindamál og gera hann nútímalegri eins og það hét. Ég man eftir því sérstaklega vegna þess að ég var sjálfur á bólakafi í þessari vinnu en það var þingflokksformaður Alþýðubandalagsins, Ragnar Arnalds, sem kom fyrstur fram með þá tillögu. Eftir nokkra umhugsun og athugun var fallist á að gera þá tilraun að hefja endurskoðun á þessum kafla sem var að mörgu leyti gamaldags, með mörgum ákvæðum frá 19. öld og færa hann til nútímalegra horfs, m.a. með tilliti til nýrra viðhorfa og tilliti til þess að búið var að lögfesta á Alþingi mannréttindasáttmála Evrópu. Sú vinna gekk að mörgu leyti vel. Tillagan var samþykkt á Þingvöllum en þá tók við það erfiða verkefni að færa ásetning þingsins í formlegan búning í formi frumvarps á Alþingi næsta vetur. Þó að þingflokksformenn hafi notið góðrar aðstoðar fyrrverandi og núverandi hæstaréttardómara meðal annars og kennara við Háskóla Íslands, þá reyndist þrautin þyngri að koma saman texta sem allir gátu sætt sig við. Ég minnist þess að oft og tíðum var mikil umræða í þjóðfélaginu um þessi mál á vettvangi hinna ýmsu félaga. Ég man eftir að hafa mætt á fundi suður í háskóla og tekið þátt í umræðum á ýmsum vettvangi, í sjónvarpi og annars staðar með áhugafólki utan úr bæ sem vildi ræða þessi mál. Það voru fulltrúar lögmanna og annarra áhugasamra aðila, mannréttindasamtaka og fleiri sem vildu fá aðkomu að undirbúningi málsins. Þannig gekk þetta á endanum fyrir sig allan veturinn og var stundum tvísýnt en loks áður en yfir lauk náðist samkomulag um orðalag sem er gildandi stjórnarskipunarlög í dag og var samþykkt á tveimur þingum fyrir og eftir kosningar 1995. En því rifja ég þetta svona ítarlega upp eftir minni mínu, virðulegi forseti, af því að þetta sýnir í hnotskurn nauðsyn þess að breytingar af þessu tagi fái umræðu í samfélaginu og þeir hópar sem láta sig þær varða fái tækifæri til að tjá sig um þær.

Það gekk mikið á í ýmsum félagasamtökum í bænum þegar þessi kafli var til umræðu. Það tók heilan vetur að koma málinu í gegnum þingið. Nú á að keyra þessar breytingar fram á örfáum vikum, í mesta lagi, og á örfáum dögum, í versta falli, miðað við hve fáir dagar eru eftir af störfum þingsins. Þessi vinnubrögð eru sýnilega ekki boðleg, þau eru hvorki boðleg né bjóðandi þingmönnum sem eiga að fjalla um málin af einhverri alvöru. Þau eru náttúrlega ekki bjóðandi þessari stofnun sem slíkri og þau eru heldur ekki boðleg öllum þeim sem vilja láta þessi mál til sín taka í þjóðfélaginu. Hvar er öll hin mikla siðbót, hvar er öll hin mikla siðprýði, hvað er allt hið mikla tillit og gagnsæi sem átti að taka til þjóðfélagshópanna úti í samfélaginu?

Þetta er allt saman horfið út í veður og vind fyrir utan þá miklu rökvillu sem er að finna í frumvarpinu um að það eigi að breyta þremur greinum frumvarpsins en síðan vísa því í heild sinni til stjórnlagaþings, þar með talið þessum greinum sem búið er að breyta. Heyr á endemi.

Þetta er eitthvað það vitlausasta sem reitt hefur verið fram í seinni tíð í sambandi við löggjöf og löggjafarstarf og meðhöndlun löggjafar á hinu háa Alþingi. Gæti það ekki verið svo, virðulegi forseti, að það væru samtök úti í bæ, svokölluð, eins og t.d. félög lögmanna og lögfræðinga, t.d. mannréttindasamtök af ýmsu tagi, bein hagsmunasamtök, sem vilja láta þessi mál til sín taka? Á ekki að gefa slíkum aðilum neitt svigrúm? Á ekki að gera það? (Gripið fram í: Raddir fólksins.) Ég tala nú ekki um raddir fólksins, ríkisstjórn fólksins, já, kallar hún sig stundum.

Nei, þetta er að sjálfsögðu öndvert við allar venjur sem hafa skapast í þessum málum.

Vík ég þá að kjördæmabreytingunni 1999 sem var byggð upp með sama hætti, þ.e. það var á grundvelli starfs og samstarfs formanna þingflokka sem tillögur voru unnar um breytingar á kjördæmaskipan, kosningafyrirkomulagi og öðru sem því tengdist sem um náðist góð sátt þó að, eins og fyrr, ekki hafi allir þingmenn greitt því atkvæði. Það er sem sagt rík hefð fyrir því að um stjórnarskrárbreytingar sé góð samstaða og að hennar sé leitað. Það er aðeins ein undantekning frá því á öllum lýðveldistímanum eins og ég rakti áðan. Þess vegna er mér fyrirmunað að skilja af hverju slíkrar samstöðu var ekki leitað. Var eitthvað vitað fyrir fram að það yrði engin niðurstaða? Var eitthvað vitað fyrir fram að Sjálfstæðisflokkurinn væri andvígur einhverjum svona breytingum þegar þær höfðu aldrei verið ræddar í síðustu ríkisstjórn, aldrei nokkurn tímann? Það var aldrei fitjað upp á þessum málum í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það sem stendur í þeim stjórnarsáttmála er að endurskoðun stjórnarskrárinnar verði haldið áfram og að reynt verði að finna botn í gamlar deilur um niðurstöður um þjóðareign á náttúruauðlindum.

Ég hef nú rakið fjögur dæmi um hvernig tekist hefur til með breytingar á stjórnarskránni á undanförnum 25 árum í samstarfi og samstöðu þingflokka á Alþingi. Það var í þessum anda sem Halldór Ásgrímsson, forveri minni og forveri núverandi hæstv. forsætisráðherra, setti á laggirnar stjórnarskrárnefnd árið 2005 af góðum vilja og einlægum ásetningi um að reyna að ná samkomulagi allra þingflokka um breytingar á stjórnarskránni, enda hefur það lengi verið svo að þó að okkur hafi auðnast að endurskoða ýmsa kafla og sum ákvæði í stjórnarskránni er margt eftir, sérstaklega í hinum fyrri köflum þessa mikilvæga skjals. Það er margt eftir og það var það sem lagt var fyrir stjórnarskrárnefndina 2005 að vinna í. Sú nefnd starfaði í tæp tvö ár, fram að kosningum 2007. Þá urðu ákveðin þáttaskil. Hún skilaði aðeins af sér einni tillögu sem ekki var flutt á Alþingi af öðrum ástæðum og þar af leiðandi urðu engar stjórnarskrárbreytingar árið 2007.

Ég hafði hins vegar hugsað mér það í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmálans frá 2007, í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, að nota síðari hluta kjörtímabilsins 2007–2011 til að halda þessu starfi áfram og vera búinn að tryggja eins breiða samstöðu um slíkt og hægt væri í góðan tíma fyrir þær þingkosningar sem ráðgerðar voru 2011, nota árin 2009–2011 í því skyni.

Það fór auðvitað á annan veg eins og margt annað, en aldrei hefði mér dottið í hug að sú ríkisstjórn sem við tók og situr hér í minnihlutahlutverki, þó að Framsóknarflokkurinn sjái hér iðulega fyrir viðbótaratkvæðum, ætlaði að taka að sér verkefni af þessu tagi sem augljóslega og í samræmi við íslenska hefð kallar á samstöðu allra flokka og er ekki verkefni minnihlutastjórnar að kljást við. Hvergi í heiminum mundi nokkrum manni detta í hug að minnihlutastjórn hygðist taka upp í fangið verkefni af þessu tagi og reyna að þjösna því í gegn með þeim hætti sem hér á augljóslega að reyna að gera. Þetta eru því miður ekki boðleg vinnubrögð.

Varðandi efni málsins munu margir ræðumenn aðrir á vegum Sjálfstæðisflokksins í dag fara nákvæmlega yfir einstakar greinar, en upp úr þeim stendur að sjálfsögðu það að lagðar eru til þrjár efnislegar breytingar, þar af ein sem er náskyld þeirri breytingu sem stjórnarskrárnefndin 2005–2007 náði samstöðu um en þó er búið að þynna það ákvæði út. Þetta er 79. gr. núverandi stjórnarskrár þar sem kveðið er á um með hvaða hætti henni skuli breytt. Hér er lagt til að unnt sé að breyta henni með þjóðaratkvæðagreiðslu einni saman í stað þess að rjúfa þing eins og nú er áskilnaður um. Ég tel að það sé eðlilegt að huga að einhverri slíkri breytingu þannig að það verði ekki ævinlega að rjúfa þing til að gera breytingar á stjórnarskrár. En það þarf að fara afar varlega með slíkt. Það má t.d. hugsa sér að almenna reglan verði sú að ef helmingur þingmanna vill gera breytingar verði þingrof en t.d. ef tveir þriðju eða fleiri — sem hefur verið almenna reglan hér eins og ég gat um og flestir þingmenn hafa stutt slíkar breytingar þegar þær hafa verið gerðar — styðja stjórnarskrárbreytingar, sé unnt að koma þeim í gegn að fengnu samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu og hugsanlega nýju samþykki þingsins en þá þurfi ekki alþingiskosningar í milli.

Allt þetta má ræða og í tillögu stjórnarskrárnefndarinnar frá 2007 var gert ráð fyrir því að fjórar umræður væru um slíkt mál í stað þriggja og að ákveðinn tími liði á milli umræðna, þrjár vikur, til að tryggja að ekki yrði hlaupið með svona mál í neinum flýti í gegnum þingið, það yrðu þá að vera að lágmarki fjórum sinnum þrjár vikur, 12 vikur eða þrír mánuðir. Það má þá gera ráð fyrir því að í raun hefði tekið einn þingvetur eða lungann úr einum þingvetri að koma stjórnarskrárbreytingum í gegn. Það er bara eðlilegt.

Það var þannig sem hefði átt að standa að þessu, að gefa mönnum einhverja mánuði í þinginu til að fara í gegnum svona mál, líka vegna þess hversu nauðsynlegt það er að gefa utanaðkomandi aðilum færi á því að tjá sig um málin. Þegar okkur var kynnt þetta hér í þinghúsinu fyrir nokkrum vikum, ég hygg að það hafi verið 19. febrúar, var sagt: Ja, sá hópur sem hefur unnið að málinu hefur ekki séð ástæðu til að kynna þetta fyrir öllum þeim sem hugsanlega hefðu áhuga á því. Í þeim hópi var líka stærsti stjórnmálaflokkurinn í landinu, það var greinilegt að það átti bara að líta á hann sem eitthvert aukaatriði í þessu máli, flokkinn sem er með 26 þingmenn af 63. Það átti bara að meðhöndla hann eins og honum kæmi þetta ekki við.

Það var hugmyndin sem kemur fram í flutningi þessa máls eins og ég er núna búinn að rekja.

Ég vil síðan að lokum segja nokkur orð, virðulegi forseti, um hið svokallaða stjórnlagaþing sem er orðið að miklu kappsmáli fyrir einn þingflokk, þ.e. Framsóknarflokkinn sem tók þetta mál upp á flokksþingi sínu og hefur flutt um það þingmál, en það þingmál er ekki frumvarp um breytingu á stjórnarskránni, heldur frumvarp um setningu nýrra laga. Það er dálítið athyglisverður greinarmunur sem þar er gerður. Hér er lagt til að það verði hvorki meira né minna en sett heilt ákvæði í stjórnarskrána þótt því sé ætlað að gilda um stundarsakir um stjórnlagaþing sem er algjört nýmæli hér á Íslandi. Menn hafa verið að grobba sig af því í fjölmiðlum að þetta væri jafnvel nýmæli hvar sem er á heimsbyggðinni, að kjósa til stjórnlagaþings beinni kosningu með þeim hætti sem hér er lagt til.

Framsóknarflokkurinn hefur ævinlega lag á því að koma upp með eitthvert eitt mál fyrir hverjar kosningar sem sitt höfuðmál í kosningum. Fyrir tveimur árum, í aðdraganda kosninga þá, var haldið flokksþing Framsóknarflokksins. Þá var sá góði maður sem þá var formaður flokksins að undirbúa sitt flokksþing fyrir kosningar og sinn flokk fyrir kosningar. Þá skaut upp kollinum tillaga á flokksþingi hans og á þingi flokksins sem varð til þess að setja allt þingið í uppnám og gera honum mjög erfitt fyrir og í raun og veru stela senunni frá hinum nýkjörna formanni Framsóknarflokksins. Þetta var tillagan um þjóðareign á náttúruauðlindum sem ákveðinn þingmaður dró þá upp úr pússi sínu og blés lífi í á þessu flokksþingi og gerði kröfu um að Framsóknarflokkurinn gerði að stjórnarslitaatriði, skömmu fyrir kosningar.

Þingmenn sem þá sátu á þingi muna hvernig því máli reiddi af, við fluttum þingmál hér, ég og þáverandi formaður flokksins, Jón Sigurðsson, mikill sómamaður og góður samstarfsmaður, en það þingmál náði ekki fram að ganga en þá var reynt, ólíkt því sem nú er, og þá var kannað hvort grundvöllur væri fyrir því að allir flokkar flyttu það mál og hefði mátt ætla, miðað við hvað hefur verið í nösunum á því fólki varðandi þjóðareign á náttúruauðlindum, að þeir flokkar tækju því máli fegins hendi og tækju það upp á sína arma. Það var öðru nær vegna þess að þetta mál var þá ættað úr ranni Framsóknarflokksins og þá mátti ekki koma nálægt því frekar en ef um væri að ræða holdsveikan mann sem væri að rétta þeim þetta plagg.

Þess vegna var það mál flutt af okkur tveimur sem þingmannamál en það náði ekki fram að ganga og það varð til þess að frumvarpið sem var í deiglunni lá hjá forsætisráðherra frá stjórnarskrárnefndinni um að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar, um breytingar á stjórnarskránni. Það náði ekki fram að ganga, kom ekki fram. Það féll á klofbragði því sem bruggað var á flokksþingi Framsóknarflokksins en hefði þó getað náð fram að ganga ef aðrir flokkar hefðu verið til í að koma til móts við þessi sjónarmið.

Í lokin vil ég svo greina frá því, virðulegi forseti, í framhaldi af því sem ég spurði um í andsvari við 1. umr. málsins varðandi kostnað sem muni hljótast af stjórnlagaþinginu að Sjálfstæðisflokkurinn hefur skrifað forseta Alþingis bréf og krafist þess að hann láti vinna kostnaðarmat um þetta mál. Það er alveg ljóst að hér er um að ræða mikinn kostnað, að lágmarki 1–1,5 milljarða króna og þá er spurningin hvar eigi að taka þá peninga þegar verið er að reyna að draga úr kostnaði alls staðar. Á að fækka (Forseti hringir.) læknum á Landspítalanum, á að hækka skattana, hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að fjármagna þennan mikla kostnað og hver verður hann?