136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst ekki margt nýtt koma fram í ræðu hv. þingmanns umfram það sem við ræddum á föstudaginn þar sem nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins komu í andsvör við þá ræðu sem ég hélt þá, framsöguræðuna. Ég hélt satt að segja þar til undir lokin að hv. þingmaður mundi ekki nefna — sem þó er staðreynd, af því að hv. þingmaður sagði í upphafi máls síns að hér hefði aldrei verið flutt breyting á stjórnarskipunarlögum nema í samráði allra flokka — að það var árið 2007 og sem betur fer kom hv. þingmaður upp með það að hann og hæstv. fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Jón Sigurðsson, fluttu hér breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins tveir saman, án þess að allir stjórnarflokkar kæmu að því máli. Ég held að það sé nauðsynlegt að halda því fast til haga.

Það getur út af fyrir sig verið rétt að það hefði verið æskilegra að hafa lengri tíma til að fjalla um þetta mikilvæga mál. Engu að síður er það staðreynd að um veigamikil atriði í þessu frumvarpi hefur ítrekað verið fjallað í stjórnarskrárnefndum, eins og hv. þingmaður sannarlega nefndi, t.d. varðandi náttúruauðlindirnar og aðferðir við að breyta stjórnarskránni. Varðandi samráð við Sjálfstæðisflokkinn voru haldnir nokkrir fundir og við fórum yfir það hvort sjálfstæðismenn væru tilbúnir í einhverjar breytingar á því frumvarpi sem lá fyrir og það virtist vera lítið meira en að þeir gætu hugsað sér stjórnlagaþingið sem þó hefur verið minnst rætt í þessu en þá ekki breytingar á stjórnarskránni heldur að það yrði ráðgefandi. Ég held að það sé ekki það sem menn eru að biðja um hér heldur eru menn að biðja um lýðræðisumbætur þar sem fólkið sjálft kemur að málinu. Þar sem hv. þingmaður benti á að mikill kostnaður yrði við þetta þá er alveg ljóst að lýðræði getur kostað peninga (Forseti hringir.) og ég er viss um að margir meta það þess virði þó að kostnaður sé hár við að taka upp þær breytingar að hafa stjórnlagaþing.