136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:47]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyrði ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra hefði sagt: „Það getur út af fyrir sig verið rétt að það hefði verið gott að hafa meiri tíma.“ Ja, mikil er auðmýktin, virðulegi forseti, þegar verið er að fjalla um grundvallarlög Íslands. Og það er ekki saman að jafna því frumvarpi sem við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra á þeim tíma fluttum, árið 2007, enda leituðum við samráðs allra flokka sem var ekki gert núna eins og ég er búinn að rekja. Það var ekki óskað eftir tillögum Sjálfstæðisflokksins og honum var ekki gefinn kostur á því að vera með í því að semja upphaflegu drögin. Það er ekki samráð, það er sýndarmennska, virðulegur forsætisráðherra, það er hrein og klár sýndarmennska til að geta komið í ræðustólinn eins og núna og sagt að haft hafi verið samráð, samráð sem var gervisamráð. Ekkert annað.

Varðandi stjórnlagaþingið höfum við ekki hafnað þeirri hugmynd sem slíkri þó að ég hafi farið hér yfir nokkur atriði sem því tengjast. Ég tel það hins vegar algerlega af og frá að Alþingi gefi frá sér sitt mikilvægasta hlutverk sem er stjórnarskrárgerð. Ég tala nú ekki um að Alþingi taki að sér það auma hlutverk að vera umsagnaraðili fyrir eitthvert nýtt stjórnlagaþing. Við munum ekki taka þátt í því og við skulum ræða það hvort við finnum einhvern flöt á ráðgefandi stjórnlagaþingi sem yrðu þá sett sérstök lög um en ekki sett í stjórnarskrá. Það má ræða þetta allt saman ef hægt er að koma því fyrir innan vitlegs kostnaðarramma en eins og þetta er útfært kemur það ekki til mála. Ég get sagt það hér, ég hef sagt það áður við forsætisráðherra prívat, (Forseti hringir.) en við vorum aldrei beðin um skoðun á því með neinum formlegum hætti.