136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:55]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi málflutningur hefur ekkert með efni þessa frumvarps að gera. Þetta er bara gamall hatursmálflutningur í garð Sjálfstæðisflokksins. Hv. þingmaður getur ekki unnt Sjálfstæðisflokknum þess hversu vel hefur gengið í landinu á undanförnum mörgum árum. Hann blandar því saman að hér varð fjármálalegt áfall í haust, ekki síst vegna utanaðkomandi áhrifa frá alþjóðlegum skakkaföllum í efnahagsmálum sem kerfi okkar réð ekki við, efnahagskerfið, fjármálakerfið réð ekki við. Stjórnkerfið var vissulega vanburðugt til að takast á við það. En það var ekki vegna þess að stjórnarskráin hefði ekki skaffað eðlilega aðstöðu til þess að byggja það upp með öðrum hætti. Það var vegna þess að menn óraði ekki fyrir að svo kynni að fara sem fór.

En nú heyri ég að hæstv. fjármálaráðherra er í ræðum sínum hér farinn að tala mikið um hinn alþjóðlega efnahagsfellibyl og öll vandamálin sem steðja að þjóðarbúinu vegna þess að margt sé að gerast í alþjóðlegum efnahagsmálum. En það er nú ekki aðalmálið hér. Aðalmálið hér er að sjálfsögðu það hvort hér eigi að knýja fram í andstöðu við stærsta þingflokkinn, breytingar sem ekkert liggur á að gera.

Árið 1959, svo við höldum okkur við það dæmi, var langur aðdragandi að þeim breytingum sem þá urðu og allt var gert sem hægt var til að reyna að ná samstöðu allra flokka. Framsóknarflokkurinn hafði bara ekki áhuga á því vegna þess að hann hafði pólitíska hagsmuni af því að viðhalda óbreyttu kosningakerfi. Það er ekkert slíkt í spilunum núna. Varðandi tillöguna sem flutt var 2007 af okkur Jóni Sigurðssyni, þáverandi ráðherra, var þar um það að ræða að reynt var að ná samkomulagi allra flokka sem þóttust vera áhugamenn um þjóðareign á náttúruauðlindum en sú samstaða náðist ekki. Ekkert slíkt hefur verið reynt að þessu sinni.