136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta hefur ekkert með óvild að gera. Hv. þingmaður staðfestir einfaldlega þann efnislega ágreining sem er á milli okkar og flokks hans, þess efnis að hér hafi stjórnkerfið brugðist. Það er okkar álit meðan hann heldur sig fast við að hér hafi fjármálakerfið hrunið og aðallega fyrir tilverknað frá útlöndum. Þetta er bara efnislegur ágreiningur og ég held að það sé ágætt í umræðum á Alþingi að hann sé dreginn fram.

En ég ætla þá að nota tækifærið og spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að sú gríðarlega skuldsetning sem nú er á auðlindum þjóðarinnar, einkum fiskinum í sjónum, en líka þær fréttir sem nú berast að erlendir fjárfestar sýni orkufyrirtækjum hér á landi áhuga, hvort það bendi ekki til þess að það sé beinlínis knýjandi nauðsyn og mjög brýnt að afgreiða a.m.k. þann þátt þessa frumvarps sem snýr að þjóðareign á auðlindum og taka af öll tvímæli um að þjóðin eigi þær auðlindir sem hér eru og fiskinn í sjónum umhverfis landið, áður en við slysumst til þess að missa það í eignarhald erlendra aðila.