136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka spurningu mína til hv. þm. Birkis J. Jónssonar, hvort honum finnist þessi vinnubrögð til fyrirmyndar og hvort honum finnist vinnubrögðin við aðdraganda þess máls vera þannig að við getum verið sæmd af því sem þingmenn, sem stjórnarskrárgjafi að ganga frá málum með þessum hætti. Hér hefur verið boðað til kosninga með skömmum fyrirvara. Það er ljóst að þetta þing verður afar stutt. Hér er komið með stórt mál inn í þingið og ætlast til að það sé afgreitt á mjög skömmum tíma.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson gat þess réttilega í ræðu sinni að hér væri mjög stórt mál og það mundi auðvitað kalla á miklar umræður. Ég vil spyrja hv. þingmann fyrir utan spurninguna um vinnubrögðin, hvort hann telji að tíma þingsins sé betur varið með því að taka þessi mál fyrir, þ.e. stjórnarskrármálið og persónukjörsmálið, frekar en að ræða þau brýnu mál sem snúa að hagsmunum fyrirtækja og (Forseti hringir.) heimila í landinu, á þeim fáu þingdögum sem við höfum til stefnu áður en þingi verður frestað fyrir kosningar.