136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:30]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að hv. þingmenn Framsóknarflokksins, og þar með talinn hv. þm. Birkir J. Jónsson, eru í miklum vandræðum með að færa rök fyrir því að setja sérstakt löggjafarþing til hliðar við Alþingi, stjórnarskrárþing. Ég verð að viðurkenna að eftir að hafa hlustað á ræðu þingmannsins fann ég engin þau rök nægjanlega sterk að ég geti fallist á að við víkjum Alþingi Íslendinga til hliðar og setjum til verka annað þing sem eins er kosið til að öðru leyti en því að ekki er gert ráð fyrir að stjórnmálaflokkarnir bjóði sérstaklega fram. Engu að síður verða boðnir fram einstaklingar og því vil ég spyrja: Að hvaða leyti er það öðruvísi almenningur sem hefur áhrif á Alþingi Íslendinga, löggjafarsamkomu okkar, annars vegar og hins vegar almenningur sem á að hafa áhrif með fulltrúum sínum á stjórnarskrárþingi? Ég vil fá skýringar hjá hv. þingmanni: Hver er munurinn á þessum hópum í raun veru? Hv. þingmaður talar alltaf eins og almenningur sé að koma til skjalanna til að taka völdin af stjórnmálamönnunum, það er mjög óljóst allt saman.

Hvers vegna gengur Framsóknarflokkurinn ekki fremur til þess verks að styrkja Alþingi Íslendinga af heilum hug og efla þingið og gera breytingar á stjórnarskránni sem fela í sér styrkingu þingsins fremur en að veikja þingið eins og viðurkennt er að verður með þessum tillögum?