136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég nefndi í ræðu minni, og ég vona að hv. þingmaður hafi hlustað á það, þá hafa frá 1946 ríflega 80 tillögur að breytingum á stjórnarskrá komið fram. Sjö þeirra hafa verið samþykktar, fjórum hefur verið vísað til ríkisstjórnar, aðrar hafa ekki verið útræddar og því lognast út af. Við erum að tala um heildarendurskoðun á íslensku stjórnarskránni og ég spyr: Er ekki orðið fullreynt á síðustu 65 árum að kjörnir fulltrúar, fulltrúar stjórnmálaflokkanna, ná ekki samstöðu um svo stór mál? Ég minni á það að þrátt fyrir niðurstöðu auðlindanefndar árið 2000 lagðist Sjálfstæðisflokkurinn þvert gegn því að við gerðum sjávarstofna hringinn í kringum Ísland að sameign þjóðarinnar. Hvaða hagsmunaöfl eru þar á bak við? Hvers vegna stendur Sjálfstæðisflokkurinn ekki að því að binda það ákvæði í stjórnarskrá?

Við þurfum fulltrúa til þess að semja nýjar reglur og við skulum ekki loka augunum fyrir því að þeir aðilar, fulltrúar stjórnmálaflokkanna, sem hafa setið hér hafa ekki náð slíkri heildarendurskoðun fram. Það er líka, ef hv. þingmaður hefur ekkert heyrt um það, ákveðin krafa almennings að fólk utan stjórnmálaflokka geti komið að þessu starfi. Hv. þingmaður verður að viðurkenna að það eru ákveðin höft fyrir fólk sem ekki er flokksbundið að koma að þessum breytingum. Á þetta allt að gerast, frú forseti, á forsendum stjórnmálaflokkanna en ekki fólksins í landinu?