136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:34]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fólkið í landinu er í stjórnmálaflokkunum. (Gripið fram í: Öllum?) Stjórnmálaflokkarnir eru fólkið í landinu. Hvers konar tal er þetta eilíflega niður til stjórnmálaflokkanna? Það er ekki nema von að Framsóknarflokkurinn tapi stöðugt í skoðanakönnunum eftir því sem hann talar meira í þinginu um stjórnlagaþingið.

En aðeins út af þessum breytingum á stjórnarskránni. Það er alveg rétt að það hefur verið stöðug umræða um breytingar á stjórnarskránni. Það er eðlilegt og þannig á það að vera. Hins vegar hefur náðst samkomulag um tilteknar breytingar á stjórnarskránni í gegnum þingið og við eigum að halda áfram að vinna að frekari breytingum. Sjálfstæðismenn vilja gera breytingar á stjórnarskránni. Sjálfstæðismenn leggja áherslu á að það gerist á vettvangi Alþingis. Sjálfstæðismenn eru tilbúnir til að kjósa sérstakan hóp utan þingsins sem gæti þess vegna kallast stjórnlagaþing, ráðgefandi, en aðalatriðið er að sjálfstæðismenn vilja ganga til verka í góðu samstarfi við aðra flokka og gera breytingar með heiðarlegum hætti en ekki þeim hætti sem hér er verið að gera.