136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var nýr tónn hjá þingmanni Sjálfstæðisflokksins að gagnrýna það að kosningar séu of snemma. Ég hef ekki skilið forustumenn Sjálfstæðisflokksins á annan veg en þann að þeir vilji kjósa sem fyrst, svo að því sé til haga haldið.

Ég vil spyrja hv. þingmann að því, áður en ég svara spurningum hans, hvort hann telji ekki orðið fullreynt á vettvangi þingsins, vettvangi stjórnmálaflokkanna — í ljósi þess sem ég sagði áðan, að frá 1946 hafa komið fram 80 tillögur að breytingum á stjórnarskrá, einungis sjö hafa verið samþykktar, fjórum hefur verið vísað til ríkisstjórnar, aðrar hafa dáið drottni sínum — að þessi vettvangur, Alþingi Íslendinga, hefur ekki getað breytt stjórnarskrá íslenska lýðveldisins í heild sinni. Ég spyr hv. þingmann að því, vegna þess að hann var með ábendingar um það að flokkarnir hafi verið skipaðir af fólki í upphafi, hvort hann hafi eitthvað á móti þeirri tillögu sem við höfum lagt fram, sem hann hefur reyndar lýst yfir stuðningi við, að einstaklingar geti boðið sig fram án þess að vera hluti af einhverjum stjórnmálaflokkum?

Það er hárrétt, sem hv. þingmaður sagði, að það er fullt af hreyfingum úti í bæ sem ekkert endilega vilja bjóða fram til Alþingis. Þar er örugglega fullt af sómafólki sem hefði áhuga á því að bjóða fram krafta sína til að hafa áhrif á nýja stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Erum við hv. þingmaður ekki hjartanlega sammála um að sú leið sem við tölum fyrir hér sé góð leið til að móta nýjar leikreglur í íslensku samfélagi?