136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:32]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrist á hv. þm. Birni Bjarnasyni að það séu grunnatriði í þessum tveimur greinum sem ég minntist á sem hann er í sjálfu sér hlynntur, bæði hvað varðar náttúruauðlindirnar og eins að þjóðin komi sjálfstætt að stjórnarskrárbreytingum.

Ég minnist þess að þegar ég kom inn á þing 1999 var verið að ræða kjördæmabreytinguna. Þá var talið að verið væri að kjósa um kjördæmabreytinguna í þeim alþingiskosningum og þyrfti samþykki tveggja þinga. Ég upplifði þá kosningabaráttu þannig að alls ekki hafi verið tekist á um þessa miklu kjördæmabreytingu og voru skiptar skoðanir um hana inni á þingi. Hins vegar þegar liðið eitt var eða tvö ár heyrðist mér stór hluti þingmanna, sem áður hafði jafnvel greitt atkvæði með breytingunni á kjördæmaskipaninni, vera henni hálfpartinn andvígur, a.m.k. þegar þingmenn komu út í kjördæmin og töluðu við kjósendur sína. Ég dreg í efa að sú breyting — þó að ekki sé hægt að fullyrða um það — hafi notið meirihlutastuðnings þjóðarinnar, að skipta Reykjavík upp í tvö kjördæmi sem eru rokkandi eftir því hvernig Reykjavík byggist, eða að slá þremur kjördæmum saman í eitt Norðvesturkjördæmi. Þar held ég að þjóðarviljinn hafi ekki ráðið heldur einhverjir sérhagsmunir og samningar á milli einstakra þingmanna og þingflokka sem báru málið fram.

Aðeins um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég heyrði ekki hv. þingmann greina nákvæmlega frá skoðun sinni á þjóðaratkvæðagreiðslum og stöðu þeirra í lýðræðislegu samfélagi. Hún er mjög veik núna. (Forseti hringir.) Ég legg áherslu á að þjóðaratkvæðagreiðslur og réttur þjóðarinnar til að koma sjálfstætt að þeim verði styrktur (Forseti hringir.) eins og þarna er verið að gera tillögu um.