136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:34]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessum greinum eru ákveðnar hugmyndir sem er endilega ekki deilt um á milli stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka en deilt er um aðferðina og deilt er um orðalagið. Það er gífurlega mikilvægt þegar verið er að fjalla um texta af þessu tagi að það sé alveg klárt hvernig orðalagið er og hvernig þetta á að gera úr garði.

Það er mjög heimskulegt að gera svona mál að einhverju togstreitumáli á milli stjórnmálamanna eins og mér heyrist hv. þingmaður vera að gera. Ég hef alveg skoðanir á þessu, ég tel að það sé eðlilegt að líta til náttúruauðlinda þegar stjórnarskráin á í hlut. Ég tel líka — ég hef skrifað um það og sagt skoðun mína á því — að það sé ekkert athugavert við að setja almennar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslu og menn verða þá að koma sér niður á það. Ég sé ekki heldur að það eigi að vera flokkspólitískt mál eða gera menn eitthvað tortryggilega í því, heldur eiga þeir að setjast niður og reyna að finna sem víðtækasta sátt innan veggja Alþingis um þessi mál en ekki að kasta þeim út og segja að einhverjir aðrir verði að leysa þetta. Því er ég á móti og ég tel að það sé gífurlegt veikleikamerki hjá þeim þingmönnum sem finnst sjálfsagt þegar kemur að þessum punkti, eftir að hafa árum saman kvartað undan því að framkvæmdarvaldið vaði yfir þingið, að kasta þessu frá sér og fela það einhverjum öðrum að ákveða hvernig stjórnarskráin eigi að vera.

Þingið á að gera það og það getur gert það með því fororði að síðan verði það lagt undir þjóðaratkvæðagreiðslu. En auðvitað þarf fólk að koma sér saman um alla umgjörð þjóðaratkvæðagreiðslunnar og það þarf að gera í almennum lögum sem verða afgreidd á þingi ef einhverjar tillögur koma fram um það.