136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:02]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér þótti ágætt að heyra hv. þingmann draga svolítið í land varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ég tel það hið brýnasta mál að opna á heimildir, víðtækar og skilgreindar heimildir, um þjóðaratkvæðagreiðslu og beina aðkomu þjóðarinnar. Ég legg þunga áherslu á það og hefur ekkert að gera með það þótt við séum hér kjörnir þingmenn af þjóðinni og séum þannig fulltrúar hennar. Þingið á að leita mun oftar til þjóðarinnar og þjóðin á að hafa frumkvæðisrétt og möguleika til að koma beint að málum, þess vegna óska eftir því að skipt verði um ríkisstjórn o.s.frv.

Aðeins varðandi stjórnlagaþingið. Ég álykta að það sé mjög mikilvægt að stjórnarskráin verði endurskoðuð og þessar hugmyndir um stjórnlagaþing. Ég tek undir þær vangaveltur að það sé langur tími sem því sé ætlað og eins varðandi kostnað og annað, en lýðræðið kostar sitt. Ég tel að það ætti að skoða það að stjórnlagaþingið starfi í hléum Alþingis. Þá væri hægt að hafa Alþingi og húsakynni þess til nota fyrir stjórnlagaþingið. Þannig væri hægt að gera þetta bæði hagkvæmara og markvissara og í tveim eða þrem þinghléum gæti stjórnlagaþingið starfað í ágætum húsakynnum hér. Þetta er bara hugmynd (Forseti hringir.) sem ég slæ sjálfur fram og er reiðubúinn að reifa frekar.