136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:32]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það segir kannski ýmislegt um virðingu stjórnarmeirihlutans og flutningsmanna málsins fyrir því máli sem hér er til umfjöllunar að þeir eru ekki einu sinni viðstaddir þessa umræðu. Hér stend ég einn í þingsalnum og fjalla um frumvarp til stjórnarskipunarlaga, frumvarp til breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Birkir J. Jónsson og Guðjón A. Kristjánsson flytja. En þau láta ekki svo lítið sem vera viðstödd umræðuna.

Það er verulega sérstakt í ljósi þess að í stjórnarskránni gefur að líta grundvallarreglur samfélagsins, grundvallarreglur um stjórnskipan landsins og þau meginréttindi sem einstaklingunum eru tryggð, sem undir venjulegum kringumstæðum og á mannamáli eru kölluðu mannréttindi. Flutningsmenn sjá ekki ástæðu til þess að vera viðstaddir umræðuna þótt málefnið sé mikilvægt og það finnst mér miður en það sýnir hversu mikla virðingu þessir hv. þingmenn bera fyrir viðfangsefninu.

Á föstudaginn spurði ég hæstv. forsætisráðherra, sem er 1. flutningsmaður á málinu, hvort henni væri virkilega alvara með að ætla að keyra þetta mál í gegnum þingið áður en við gengjum til kosninga. Það er stuttur tími til stefnu og eins og hv. þingmaður nefndi hafa bæði dr. Bjarni Benediktsson heitinn, fyrrverandi forsætisráðherra, og dr. Gunnar Thoroddsen farið yfir hvernig standa eigi að breytingum á stjórnarskrá og smíðum stjórnarskrárákvæða. Það þarf að vanda vel til verka því að eins og áður segir eru þetta grundvallarlög, stjórnarskráin, meginreglur um stjórnskipulag okkar og það skal vanda sem lengi á að standa. Hæstv. forsætisráðherra svaraði fyrirspurn minni með þeim hætti að það væri fullur vilji hjá henni og öðrum flutningsmönnum, og að því er mér heyrðist fylgismönnum ríkisstjórnarinnar á Alþingi, að keyra málið í gegn.

Árið 2007 var til umfjöllunar á Alþingi frumvarp til breytinga á stjórnarskránni sem hv. þm. Geir H. Haarde og hv. fyrrverandi þingmaður Jón Sigurðsson fluttu til breytinga á stjórnarskránni og vörðuðu tillögu um að inn í stjórnarskrána yrði fellt ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindunum. Í 1. umr. um það mál sagði hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra, þá þingmaður í stjórnarandstöðu, Ögmundur Jónasson — sem ég veit ekki hvort er í húsinu en væri ágætt að fá að vita hvort hann er væntanlegur til að vera við umræðuna. (Forseti hringir.)

(Forseti (KHG): Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur fjarvistarleyfi í dag.)

Takk fyrir það, hæstv. forseti. Þann 9. mars árið 2007 sagði hæstv. heilbrigðisráðherra, með leyfi forseta:

„Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga en framganga Framsóknarflokksins, sérstaklega í þessu máli, ber öll þess merki.“

Ég tek undir með hæstv. heilbrigðisráðherra, Ögmundi Jónassyni, að það á ekki að breyta stjórnarskránni í þeim tilgangi að afla kjörfylgis. Því miður hefur Framsóknarflokkurinn dottið í þann fúla pytt að vilja breyta stjórnarskránni í aðdraganda kosninga til að afla sér fylgis. Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem mesta áherslu hefur lagt á að koma ákvæði um svokallað stjórnlagaþing inn í stjórnarskrána.

Össur Skarphéðinsson, annar hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni, utanríkis- og iðnaðarráðherra, sagði í þessari sömu umræðu þann 9. mars árið 2007, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Ég er sammála þessum orðum hæstv. utanríkisráðherra. Það er mikilvægt að fjallað sé um stjórnarskrá lýðveldisins, grunnlög þess, af mikilli ábyrgð og að reynt sé að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál. Þessi orð lét hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, falla í umræðu 9. mars 2007, fyrir u.þ.b. tveimur árum. Hann veit, eins og ég, að það var ekki reynt að ná samstöðu um það frumvarp sem við fjöllum um hér líkt og alltaf hefur verið reynt að gera þegar við höfum reynt að breyta stjórnarskránni á hinu háa Alþingi.

Ég tók eftir því í umræðunum áðan að fjallað var um vinnubrögð við breytingar á stjórnarskránni 2007, hvernig vinnu við það mál hefði verið háttað á sínum tíma. Ég leyfi mér að fullyrða að vinnubrögðin á þeim tíma voru öll önnur en við horfum upp á núna. Nú á að keyra í gegn breytingar á stjórnarskránni til að stjórnarflokkarnir og Framsóknarflokkurinn geti markað sér einhverja stöðu í komandi alþingiskosningum. Það er miður að viðfangsefnin í samfélaginu eru önnur nú en þau voru þá, nú brennur hagkerfið, atvinnulífið er í kröggum og fjölskyldurnar berjast í bökkum. Og það er sorglegt að menn skuli ekki einbeita sér að því að leysa þessi verkefni en leggja þess í stað ofuráherslu á að kosningalögum og stjórnarskrá verði breytt. Stjórnarskráin mun ekki bæta hag heimilanna og hún mun heldur ekki koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik. En árið 2007 viðaði nefndin að sér miklum gögnum og rannsakaði þessi mál mjög vel og ítarlega í umfjöllun sinni um það frumvarp sem þá var til umfjöllunar, það þekki ég sem þáverandi og núverandi nefndarmaður í sérnefnd Alþingis um stjórnarskrármál. Þess vegna tók ég þessa möppu með mér hingað í ræðustól Alþingis. Þetta eru þau gögn sem við höfðum til umfjöllunar árið 2007 þegar við fjölluðum um það frumvarp sem þá var rætt um.

Við sum hver sem sitjum hér á Alþingi og margir úti í samfélaginu berum mikla virðingu fyrir stjórnarskránni. Okkur er ekki sama um það sem þar stendur og ofbýður að stjórnarskrá lýðveldisins sé notuð sem einhver kosningatékki í aðdraganda alþingiskosninga. Í þessari möppu eru einar 17 tímaritsgreinar lærðra lögspekinga sem fjallað hafa um þau mál sem hér eru til umfjöllunar, eins og hugmyndir um að auðlindir þjóðarinnar skuli vera í svokallaðri þjóðareign. Ég veit ekki til þess, og það kemur ekki fram í því frumvarpi sem við ræðum hér, að til þessara sérfræðinga hafi verið leitað við vinnslu þessa máls. Vonandi verður það þannig þegar við fjöllum um þetta mál í sérnefnd Alþingis um stjórnarskrá að þessir aðilar verði kallaðir fyrir þingið til að fara yfir þau álitamál sem vakna við lestur þessa frumvarps. En mér segir svo hugur að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi muni eftir fremsta megni reyna að komast hjá allri faglegri og lýðræðislegri umræðu um málið.

En gögnin eru hér og ég er reiðubúinn til að leggja þau fyrir nefndarmenn í sérnefnd um stjórnarskrármál til að fara nákvæmlega yfir málið. Fjöldi manna, bæði háskólamenn, fyrrverandi stjórnmálamenn og aðrir hafa fjallað um stjórnarskrána á síðustu árum og áratugum og hafa mikið til þessara mála að leggja. Þær breytingar sem hér eru lagðar til varða grundvallaratvinnuvegi okkar og það er mikilvægt að fulltrúar þeirra atvinnuvega fái að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í umræðum um þetta mál.

Við sjálfstæðismenn höfum aldrei barist gegn því að stjórnarskrá Íslands verði breytt. Síðan ég tók sæti á Alþingi árið 2003 hefur verið umræða um að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það eru mörg ákvæði í stjórnarskrá Íslands sem eru gengin sér til húðar og eru börn síns tíma. Þar má nefna fjölmörg ákvæði í 2. kafla stjórnarskrárinnar sem varðar forseta Íslands. Þar eru ákvæði sem uppi er ágreiningur um hvernig eigi að skýra, t.d. ákvæði 11. gr. stjórnarskrárinnar um að forseti lýðveldisins sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum. Við höfum upplifað það á síðustu árum að sá forseti sem nú gegnir embætti túlkar það ákvæði og heimildir sínar með öðrum hætti en fyrirrennarar hans gerðu.

Við höfum líka bent á að breyta þurfi 21. gr. núverandi stjórnarskrár sem segir að forseti lýðveldisins geri samninga við önnur ríki. Við sem höfum fylgst með stjórnmálum og verkefnum framkvæmdarvaldsins á síðustu árum og áratugum vitum að forsetinn gerir enga samninga við erlend ríki, það eru aðrir til þess. Að sama skapi má segja að ákvæði 15. gr. stjórnarskrárinnar um að forsetinn skipi ráðherra og veiti þeim lausn sé einungis formleg yfirlýsing en hafi ekki í sér falda efnislega þýðingu, svo að ekki sé minnst á 26. gr. stjórnarskrárinnar, ákvæði sem olli hér gríðarlegum deilum í tengslum við fjölmiðlamál sem forsetinn neitaði staðfestingar á og vildi skjóta til þjóðaratkvæðis.

Þetta eru viðfangsefnin sem við þurfum að fjalla um en í þessu frumvarpi er ekkert vikið að þessum atriðum. Þetta eru þau mál sem við sjálfstæðismenn höfum viljað fjalla um ásamt fleirum og við höfum verið að vinna að breytingum á stjórnarskránni. En síðan koma hér fjórir hv. þingmenn og leggja fram frumvarp til breytinga á stjórnarskrá í fullkomnu ósætti við stærsta stjórnmálaflokk landsins, Sjálfstæðisflokkinn, og það er látið eins og hann hafi ekkert um stjórnarskrána að segja eða hafi ekkert með hana að gera. Þetta er nú öll lýðræðisástin sem þetta ágæta fólk sýnir.

Ef við víkjum að efnisatriðum þessa máls þá er lagt til í 1. gr. frumvarpsins að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti verði gerðar að svokallaðri þjóðareign. Þeir sem hafa lesið stjórnarskrár margra landa, hvort sem þær eru í gildi í dag eða voru í gildi áður, vita að uppruni ákvæðis um þjóðareign á auðlindum eða eignum er uppruninn frá ráðstjórnarríkjum í austri. Þetta er arfur gamla sósíalismans sem finna mátti í eldri stjórnarskrám, t.d. í stjórnarskrá Sovétríkjanna en hefur í dag verið fundið nýtt hlutverk vinstri manna á Íslandi.

Það er auðvitað eðlilegt að við ræðum það mál en við verðum að setja þetta ákvæði í samhengi við þá hagsmuni sem í húfi eru. Það er eitt að taka pólitískan slag hér á Alþingi um þjóðareign á náttúruauðlindum en það er annað að velta fyrir sér hvaða afleiðingar slíkt ákvæði kann að hafa í för með sér fyrir atvinnuvegina í landinu. Það er nefnilega þannig að helstu atvinnugreinar þjóðarinnar byggja á nýtingu náttúruauðlinda og það þarf að passa upp á það að með samþykki ákvæðis eins og þessa sé ekki verið að kippa stoðunum undan meginatvinnugreinum þjóðarinnar. Atvinnugreinum sem þjóðin ætlar að reiða sig á við endurreisn samfélagsins eftir bankahrunið.

Á föstudaginn lýsti hæstv. forsætisráðherra því yfir að 1. mgr. 1. gr. þessa frumvarps sem kveður á um að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti skuli vera í þjóðareign eigi ekki að raska við því fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum hér á landi. Það er í sjálfu sér ágætisyfirlýsing en hún nær ekki lengra en svo að í henni felst einhvers konar gildismat forsætisráðherrans. Það er ekki þar með sagt að aðrir sem síðar þurfa að túlka texta þessa frumvarps, verði það að lögum, séu sömu skoðunar. Það sem mestu máli skiptir er lagatextinn sjálfur og það sem í stjórnarskránni segir. Textinn í stjórnarskránni hefur mun meira vægi en orð hæstv. forsætisráðherra í litlu andsvari hér á Alþingi.

Frægur hæstaréttardómari í Bandaríkjunum, Antonin Scalia, kom til Íslands á síðasta ári og hélt merkan fyrirlestur í Háskóla Íslands um túlkun stjórnarskrárákvæðanna. Hann lagði mikla áherslu á að þegar menn túlkuðu stjórnarskrá og ákvæði stjórnarskrár þá legðu menn áherslu á það sem í stjórnarskránni segir. Það þýddi lítið að vera að velta sér upp úr því hvað stjórnmálamenn, lögfræðingar eða aðrir vildu að stæði í stjórnarskránni, það sem gilti væri það sem þar segði. Þetta verðum við að hafa í huga þegar við erum að fjalla um jafnmikilvægt ákvæði og það sem fram kemur í 1. gr. frumvarpsins.

Þetta segi ég vegna þess að þó svo að hæstv. forsætisráðherra og 1. flutningsmaður þessa frumvarps hafi lýst því yfir að stjórnarskrárákvæði þetta, verði það að lögum, muni ekki breyta neinu um stöðu atvinnugreina sem byggja á nýtingu náttúruauðlinda þá hafa orð hæstv. forsætisráðherra ekki jafnmikið vægi og textinn í ákvæðinu.

Hugtakið þjóðareign er ekki að koma til umfjöllunar hér á Alþingi í fyrsta skipti. Eins og ég gat um í ræðu minni fjölluðum við um sambærilegt ákvæði árið 2007 í frumvarpi sem hv. þm. Geir Haarde og hv. þáverandi þingmaður, Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, lögðu fram og mæltu fyrir á þingi. Þar var talað um þjóðareign á náttúruauðlindum.

(Forseti (KHG): Jón Sigurðsson var ekki þingmaður.)

Það er rétt ábending frá hæstv. forseta að Jón Sigurðsson var ekki hv. þingmaður. Hann er fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra.

Í meðferð þess máls í sérnefnd um stjórnarskrármál var fjallað um hugtakið þjóðareign og þýðingu þess. Eiríkur Tómasson, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, kom fyrir nefndina og lýsti skoðun sinni á því hugtaki. Hann benti réttilega á að með því að tala um þjóðareign í stjórnarskrártexta væri verið að víkja að eignarréttarákvæðum. Það væri verið að vísa til eignarréttar. Þegar hann var spurður að því af mér hvað þjóðareignarhugtakið þýddi benti hann réttilega á að í því fælist í raun ríkiseign, eign ríkisins á auðlindum landsins.

Ég er sammála þessari túlkun Eiríks Tómassonar, prófessors í stjórnskipunarrétti, að þegar talað er um þjóðareign sem er svona dálítið fínt orð í lagatexta er átt við ríkiseign á auðlindum eða ríkiseign á hverju því sem textinn nær til. Enda hafa aðrir lögfræðingar komist að þeirri niðurstöðu að þjóðin geti ekki verið eigandi að auðlindum í skilningi eignarréttarins.

Sigurður Líndal skrifaði merka fræðigrein um þetta mál sem hann kallar „Nytjastofnar á Íslandsmiðum, sameign þjóðarinnar“ og birti 1998. Þar fer Sigurður yfir að í rauninni geti þjóð ekki átt neitt. Ég sem hluti af þjóðinni get ekki gert tilkall til eignarréttar yfir þeim auðlindum sem hugsanlega í framtíðinni verða kallaðar þjóðareign í stjórnarskrá eða lögum. Ástæðan fyrir því er sú að ég get ekki losað mig við þessa eign. Ég get ekki veðsett hana, ég get ekki selt hana og ég get ekki innleyst eða skipt út þeirri eign sem ég á og keypt mér eitthvað annað. Ég get t.d. ekki veðsett húsið mitt fyrir mínum hluta í þeirri þjóðareign sem um ræðir. Á endanum erum við því að tala um ríkiseign, eign ríkisins á auðlindunum.

Guðrún Gauksdóttir, eini doktorinn á Íslandi í eignarrétti, hefur einnig fjallað um þetta mál og á svipuðum nótum. Það var gegn því að náttúruauðlindir séu gerðar að þjóðareign. Hún hefur talið að aflaheimildir í sjávarútvegi séu undirorpnar einkaeignarrétti og sem slíkar verði þær ekki teknar af handhöfum aflaheimildanna ef ekki koma fullar bætur fyrir samkvæmt ákvæðum eignarréttarákvæðis í stjórnarskrá.

Síðan eru aðrir lögfræðingar sem hafa talað í aðra átt, t.d. Magnús Thoroddsen, fyrrverandi hæstaréttardómari og hæstaréttarlögmaður. Og af hverju er ég að rifja þetta upp? Jú, vegna þess að þegar menn tala fyrir því að fella inn í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindunum þá er mikilvægt að menn átti sig á því hverjar afleiðingar slíkrar lagasetningar eru. Í dag er það þannig að allar þær greinar sem ég benti hér á, sautján fræðigreinar um auðlindamál, sýna að um inntak slíkra ákvæða ríkir mikil réttaróvissa meðal íslenskra lögfræðinga, sérfræðinga sem hafa fjallað um þessi mál á opinberum vettvangi. Það er auðvitað ótækt, herra forseti, að ætla að keyra í gegnum þingið breytingu á stjórnarskrá Íslands þegar slík réttaróvissa er uppi.

Það eru auðvitað önnur ákvæði í þessu frumvarpi sem vert er að veita athygli. Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég segi fyrir mitt leyti að ég er alls ekkert á móti því að kveðið sé á um þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskrá og að þjóðinni verði gefin heimild til að segja skoðun sína á einstökum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. En mér finnst óeðlilegt og ég trúi því ekki að flutningsmönnum frumvarpsins sé alvara með þeim tillöguflutningi sem hér kemur fram. Vegna þess að á mannamáli þýðir hann að 25% þjóðarinnar geti breytt stjórnarskránni. Framsóknarflokkurinn gengur reyndar lengra í sínu frumvarpi um stjórnlagaþing sem gengur út á að einungis 13% þjóðarinnar geti breytt stjórnarskránni. Ég tel að eðlilegra væri að krefjast þess að meiri hluta þjóðarinnar þyrfti til þess að gera breytingar á stjórnarskrá.

Um stjórnlagaþingið ætla ég svo sem ekki að segja mikið annað en að mér finnst það óráð við núverandi aðstæður að ætla sér að eyða 1.500 millj. kr. í að koma upp slíku þingi. Alþingi Íslendinga er stjórnlagaþing. Ég sé ekki hvers vegna við eigum að vera að stofna til stjórnlagaþings þegar annað sambærilegt er fyrir og ég fæ ekki séð annað en að með slíkum (Forseti hringir.) tillöguflutningi séu þeir sem að honum standa að grafa undan Alþingi Íslendinga, forseti sæll.