136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:57]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það eru ýmis gögn sem þarf að hafa við höndina þegar verið er að ræða jafnmikilvægt mál og stjórnarskrána. Það kemur samt á óvart hvað fáir þingmenn sjá ástæðu til að vera viðstaddir þegar um slíkt mál er að ræða vegna þess orð og tal hv. stjórnarliða er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að breyting á stjórnskipuninni sé grundvallaratriði sem hjálpar heimilunum í landinu. Það sé forsenda þess að hægt sé að koma atvinnulífinu aftur af stað. En engu að síður er afar fámennt, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið, hér í þingsal, ekki einungis nú undir kvöldmat heldur hefur verið svo í allan dag og ekki á ég von á því að fjölgi hér þegar líða tekur á kvöldið. Okkur er ætlað að ræða stjórnarskrána í skjóli myrkurs. (Fjmrh.: Það er nú bjart hérna inni.) Þökk sé rafmagninu í landinu er bjart hérna inni og megi rafmagnsframleiðslan verða meiri á minni vakt.

Það er áhugavert að skoða dagskrá Alþingis í dag sem og aðra daga undanfarið. Það er mikið um það rætt af hálfu stjórnarliða að sjálfstæðismenn standi hér og mali frá sér allt vit, liggur mér við að segja að þeir haldi, og tefji framgang annarra merkari mála. Þá finnst mér nú rétt að það komi fram að sjálfstæðismenn hafa talað fyrir því alveg frá því að þessi minnihlutastjórn tók við völdum, að flokkurinn mundi greiða fyrir þeim málum sem varða heimilin í landinu. Það virðist vera mikill ágreiningur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu hvaða mál séu til hjálpar heimilunum í landinu og ef það er það að breyta stjórnarskránni þá er fullkominn ágreiningur þar um. Að okkar mati mun það hvort búið er að samþykkja lög um stjórnlagaþing ekki hjálpa fólki að borga reikningana sína um næstu mánaðamót.

Það mun ekki hjálpa fólkinu varðandi húsnæðislán að við setjum til verka 104 þingmenn á fullum launum. Þetta er sama fólkið og hefur fram að þessu talað með allt öðrum hætti. En svona er það þegar menn komast að kjötkötlunum, eins og þeir orðuðu það sjálfir, að skjótt skipast veður í lofti.

En sjálfstæðismenn voru reiðubúnir til þess að taka önnur mál á dagskrá fram fyrir og ræða á undan þessu. Ég get nefnt breytingar embætti sérstaks saksóknara, að ekki sé talað um Helguvíkurmálið. En ég fer að halda að það sé ekki endilega í samræmi við vilja stjórnarherranna að hafa það mál framarlega á dagskrá. Þótt um sé að ræða stjórnarfrumvarp er bullandi ágreiningur í stjórnarliðinu um það mál. Annar stjórnarflokkurinn ætlar ekki að styðja það og eitthvað virðist ganga brösuglega hjá öðrum í hinu liðinu að standa að baki málinu. Það dæmist því á stjórnarandstöðuna að koma því máli í gegn. Það dæmist á stjórnarandstöðuna að skaffa þau störf sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur hreykt sér af undanfarna daga og við munum standa þá vakt með honum. Það væri nú bragur að því á þinginu að koma þeim málum á dagskrá á undan því máli sem hér er um ræðir. En forseti vildi ekki verða við því.

Menn tala mikið um að margir sjálfstæðismenn hafi rætt í gær um mál er varða séreignarlífeyrissparnað sem er afar athyglisvert mál. Að mínu mati gekk frumvarpið engan veginn nógu langt. Sjálfstæðismenn vildu auðvitað koma stjórnarliðinu til hjálpar í því og benda þeim á leiðir sem hægt væri að fara í því efni. Það var kallað málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Nú les maður það í Smugunni og fleiri vefritum að menn eru uppteknir við að telja þær mínútur sem sjálfstæðismenn hafa talað. Það væri svolítið fróðlegt að bera saman ræðutíma þingflokks sjálfstæðismanna, sem telur 26 manns, við þær hræður sem voru hér af hálfu Vinstri grænna í tíð fyrri ríkisstjórnar og möluðu allan daginn. Það þurfti ekki að tala um það í neinum vefritum. Það þurfti ekki að telja þær mínútur. En um leið og Sjálfstæðisflokkurinn opnar munninn virðist það vera hámark að þrír þingmenn geti talað. Maður spyr sig: Úr hvaða kjördæmum ættu þeir að koma? Má kannski einungis einn þingmaður úr Reykjavíkurkjördæmi tjá sig? Og um hvaða mál skyldi hann mega tala? Þetta er allt mjög sérkennilegt. Sannleikurinn er auðvitað sá að stjórnarliðar kæra sig ekkert um stjórnarandstöðu sem er öll meira og minna á sama máli og talar einum rómi og getur talað lengi ef á því þarf að halda.

Ríkisstjórnarbekkirnir eru algjörlega galtómir og stjórnarliðar virðast ekki hafa nokkurn áhuga á því að stunda umræðustjórnmálin sem þeir hafa hreykt sér af að stunda. Þá er nú ekkert annað að gera fyrir sjálfstæðismenn en að reyna að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þinginu. Það er þá að minnsta kosti skráð í þingbækur að menn hafi haldið hér ákveðnu sjónarmiði á lofti svo að það verði ekki þannig þegar einhverjir vesalings fræðimenn fara að lesa um tíð þessarar ríkisstjórnar síðar meir að engin finnist gögnin um skoðanir stjórnarandstöðunnar. Heldur þætti mér nú dapurlegt ef það gerðist.

Hvernig stendur á því að svigrúm okkar er svona lítið? Ég held að það sé einmitt vegna þess sem ég ræddi um áðan, virðulegi forseti, að það er enginn „tolerans“ fyrir neinni málefnalegri umræðu af hálfu þessara stjórnarherra. Það er allt í lagi. Þeir skulu bara hafa það svo. Þeir munu ekki stýra því hvað fellur af vörum þingmanna sjálfstæðismanna.

En hér ræðum við stjórnarskrá lýðveldisins sem mér heyrðist á hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrr í mánuðinum eða í síðasta mánuði að væri úrelt plagg og bara púkalegt, liggur mér við að segja. Það þyrfti að endurskrifa hana alla og hún væri meira og minna ónothæf. Ekkert minna en heilt stjórnlagaþing — aðallega Framsóknarflokk — þyrfti til þess að breyta þessari stjórnarskrá. Látið var í veðri vaka að það hafi verið fullkomin óeining og ágreiningur um stjórnarskrána allt frá því að íslenska lýðveldið var stofnað 17. júní 1944.

Það er bara ekki rétt. Eins og Skúli Magnússon lögfræðingur lýsti í nokkrum greinum nýlega í viðauka með Fréttablaðinu eru menn í flestum atriðum afskaplega sammála um hvernig túlka eigi stjórnarskrána. Þótt einstaka menn, bændur til sveita, hafi á því aðrar skoðanir eru flestir fullkomlega sammála um það hvernig túlka skuli stjórnarskrána.

Meiningin er sem sagt sú að setja á fót stjórnlagaþing og kveðja til löggjafarsamkundunnar 104 þingmenn. 63 þeirra eiga að „dedúa“ við eitthvað annað en stjórnarskrána. Þeir mega væntanlega ekki leggja fram nein stjórnarskipunarfrumvörp meðan að stjórnlagaþingið er að störfum. Ég veit ekki hvernig það á að fara saman. Verður tvöföld stjórnarskipunarsetning á þessu tímabili? Það er ekkert girt fyrir það í frumvarpinu eftir því sem mér sýnist. En hvað um það. Aðalatriðið er að stjórnlagaþingið á að vera að störfum um nokkuð langt skeið á meðan Alþingi Íslendinga sinnir þeim störfum sem það hefur jafnan gert, þ.e. lagasetningu í landinu.

En hvaða verkefni er það sem stjórnlagaþingi er í raun og veru fengið? Gert er ráð fyrir því að forseti Íslands kalli stjórnlagaþingið saman og hann mun þá væntanlega líka geta haft einhver áhrif á hvernig með það verkefni er farið. Það er svolítið erfitt á átta sig á því nákvæmlega hvað það er sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttur þykir svo óskaplega úrelt. Við fyrstu sýn kemur mér helst til hugar að það sé þrískipting ríkisvaldsins sem veldur þessum mikla vanda, að betur þurfi að skilja á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það er auðvitað nokkuð sem hefur verið rætt mjög mikið innan lögfræðinnar um langa hríð og menn hafa verið að velta fyrir sér hvernig það er í öðrum löndum. Við skulum ekki gleyma því að í þeim löndum sem þetta fyrirkomulag er viðhaft hafa sérfræðingar og fræðimenn líka skoðanir á því hvernig það eigi að vera. Það er ekki einn sannleikur í þeim efnum. En þetta er það sem maður sér að brennur helst á fólki og eins að það þurfi að vera skýrari ákvæði um þjóðaratkvæði. Það er líka atriði sem hefur verið töluvert mikið rætt og ég hef séð það í plöggum sem tilheyra eldri stjórnarskrárnefndum að það hefur verið talsvert til umræðu.

En það eru ýmis önnur ákvæði í íslensku stjórnarskránni sem eru í prýðilegu lagi. Þess vegna er svo einkennilegt að það það þurfi að endurskoða hana í heild sinni. Af hverju er ekki hægt að taka þau efnisatriði sem mönnum finnst að þurfi að ræða betur? Og hvernig stendur á því að enginn vill tala um það í þingsalnum hvernig er farið með þessi atriði? Hvernig stendur á því að fulltrúar Framsóknarflokksins — ég veit ekki hvort hv. flutningsmaður, Birkir Jón Jónsson, er enn þá hérna í húsinu. En miðað við áhuga framsóknarmanna á stjórnlagaþinginu hefði ég nú haldið að allur þingflokkurinn yrði viðstaddur til að þess ræða þetta mál í dag og útskýra fyrir þeim sem eru að velta fyrir sér hvernig það eigi að ganga fyrir sig.

Ég hef engan séð nema hv. þm. Birki Jón Jónsson. Það sækjast ekki allir þingmenn Framsóknarflokksins eftir þingsæti núna. Það væri mjög huggulegt ef hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og Magnús Stefánsson gætu verið hér við umræðuna og rætt þetta við okkur og útskýrt betur hvernig á því stóð að fallið var frá hugmynd framsóknarmanna fyrr í vetur. Við ræddum nokkuð stjórnlagaþingsfrumvarp þeirra í vetur. Þá vantaði ekki Framsóknarflokkinn, hæstv. forseti.

En ég veit reyndar að á forsetastóli situr einn virðulegur framsóknarmaður og hlustar á þessa umræðu. Hann getur þá komið því til félaga sinna í Framsóknarflokknum hvernig málum er háttað. (Gripið fram í.) Það fylgjast mjög margir með því í hvaða flokkum hv. þingmenn eru, virðulegi þm. Álfheiður Ingadóttir.

Ég hef töluvert velt fyrir mér að sá tími sem við höfum hér til umræðu, 25 mínútur, er ekkert sérstaklega langur þegar kemur að stjórnarskrárumræðu, í 1. umr. 15 mínútur og aukinn tími í 2. umr., þetta verða þá væntanlega 30 mínútur fyrir venjulegan þingmann. Ég fellst á það sem var nokkuð rætt í fyrra, þ.e. ef mál er rætt sem er umfangsmikið þarf rýmri ræðutíma. En ég er reyndar ekki sannfærð um að það hefði gert þessu máli gott ef menn töluðu marga klukkutíma hver. Engu að síður eru ýmis atriði sem þarf að koma að og eitthvað af þeim atriðum sem mig langar að ræða mun ég geyma til 2. umr. Væntanlega mun ég sérstaklega ræða einstök efnistök í frumvarpinu í þeirri umræðu.

En það sem mér leikur forvitni á að vita, og ég vonast til þess að það verði rætt ítarlega í stjórnarskrárnefnd — ég býst nú við að annaðhvort verði kjörin ný nefnd eða að málið verði falið henni — er hvaða ákvæði fóru inn í frumvarpið og hvaða ákvæði fóru ekki inn í það. Hvernig völdu menn, hæstv. ríkisstjórn og flutningsmenn frumvarpsins, þau atriði sem þurftu að fara með kröfu framsóknarmanna um stjórnlagaþing? Það hefði alveg verið hægt að hugsa sér að lagt hefði verið fram frumvarp um stjórnlagaþing og ákvæði samsvarandi stjórnarskrá að kröfu framsóknarmanna, enda virðist það vera ófrávíkjanleg krafa þeirra til að verja ríkisstjórnina falli. En sú leið hefur verið farin af hálfu flutningsmanna að tiltaka önnur ákvæði, ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign, sem er mál sem hefur verið mjög mikið í umræðunni um langa hríð.

Auðlindanefndin svokallaða skilaði ítarlegri skýrslu árið 2000 um þetta mál. Það var ekki einhugur um niðurstöðu nefndarinnar hvað varðar náttúruauðlindir í þjóðareign. Mér sýnist samt sem áður að það ákvæði sem er í 1. gr. sé töluvert skylt því sem auðlindanefndin frá árinu 2000 lagði til. En samkvæmt 1. mgr. þessa frumvarps kemur fram, með leyfi forseta:

„Að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru í þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum.“

Tillaga auðlindanefndarinnar var þannig, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er kveðið á í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.“

Virðulegi forseti. Það er verulegur skyldleiki á milli þessara ákvæða. Mér finnst því miður, þrátt fyrir að í greinargerðinni sé ítarlega fjallað um hversu vönduð málsmeðferðin hafi verið í aðdraganda þessa frumvarps, að margt af því sem í frumvarpinu er sé endurtekið efni frá fyrri hugmyndum af ýmsum toga og að það sé sett hér inn til þess að róa ákveðna aðila í stjórnarliðinu sem hafa lengi haft áhuga á því að koma ákvæðum af þessum toga í stjórnarskrána.

Á vettvangi stjórnarskrárnefndar þeirrar sem lauk störfum fyrir tveimur árum síðan, að mig minnir, voru ákveðin sjónarmið uppi um auðlindir í þjóðareign og hæstv. ráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefur gjarnan viljað túlka orð einstakra nefndarmanna þannig að þeir ættu með þessu að geta fellt sig við það ákvæði sem hér er á ferðinni. Auðvitað er það ekki svo að menn geti gert það og held ég að hæstv. ráðherra túlki orð þeirra þar heldur frjálslega.

En það sem veldur samt töluverðri undrun er að menn skyldu hafa kosið að taka þetta ákvæði inn núna og reyna ekki að ná um það samkomulagi, ekki bara við Sjálfstæðisflokkinn, sem er stærsti flokkurinn á þingi, heldur almennt í þjóðfélaginu, vegna þess að þetta er ekki krafa sem þjóðin gerir núna.

Ef það er skoðun hv. þingmanna stjórnarliðsins að það að breyta stjórnarskránni sé krafa frá grasrótinni í landinu og grundvallaratriði til að hjálpa heimilunum í landinu hvernig stendur þá á því að þeir tveir flokkar sem virðast ætla að spretta upp úr þessu öllu saman hafa ekki verið nálægt því sem hér um ræðir. Þá er hreinlega hægt að segja á móti að stjórnarliðarnir séu ekki í tengslum við grasrótina í landinu, (Utanrrh.: Eða þið.) ef það er svo að þeir flokkar sem spretta upp taka ekki undir þau sjónarmið. (Utanrrh.: Almennir sjálfstæðismenn skammast sín fyrir málþófið.) Mér finnst mjög undarlegt ef hv. þingmönnum sjálfstæðismanna, sem hafa á háskólaferli sínum aflað sér sérstakrar þekkingar á sviði lögfræði, er ekki frjálst að tala hér án þess að þurfa að búa við það að hæstv. iðnaðarráðherra kalli fram í. (Utanrrh.: Af hverju má ég það ekki? Það er hefði fyrir frammíköllum á þingi.)

Enn fremur langar mig að taka það fram í tengslum við þetta frumvarp að í ljósi þess að Samfylkingin hefur mikinn áhuga á því að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið hefði ég haldið að þess mundi sjást staður í frumvarpinu. Ég hefði haldið að menn hefðu sett miklu meiri kraft í það en margt annað í frumvarpinu og mjög kemur á óvart að það hafi ekki verið gert. Þá dregur maður þá ályktun að ekki sé samkomulag um það innan ríkisstjórnarflokkana og það er rétt að stefna flokkanna í þessu er afskaplega ólík. Það er ekki stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, eftir því sem mér skilst, að leita eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Að því leyti hefur niðurstaðan í þessari frumvarpssmíð orðið að geyma það mál, hugsanlega til stjórnlagaþingsins eða síðari tíma, en það flýtir alla vega ekki fyrir því að farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið að þetta tækifæri sem gefst núna til að gera þær breytingar var ekki notað. Þess vegna finnst mér áhugavert að velta fyrir mér hvaða efnisatriði eru hér og hvaða efnisatriði eru ekki hér.

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifaði ágætan pistil um þetta í Fréttablaðinu í dag, en hann orðaði það svo, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra Samfylkingarinnar getur ekki málað auðmýkingu flokksins sterkari litum en með því að opna stjórnarskrármálið án þess að opna möguleika á aðild að Evrópusambandinu. Á sama tíma og heilbrigðisráðherra boðar niðurskurð ætlar forsætisráðherra að fjölga þingmönnum þjóðarinnar í eitt hundrað og fjóra og efna til fimm kosninga á næstu tveimur árum án þjóðaratkvæðis um afstöðu til Evrópusambandsins.“

Mér finnst þetta segja í mjög stuttu máli hver vandi ríkisstjórnarinnar er og kristalla kannski þann málefnalega ágreining sem er á milli flokkanna þegar kemur að Evrópumálum vegna þess að í hugum margra samfylkingarmanna var það miklu betra og þeir færðust miklu nær Evrópusambandinu með því að ganga til liðs við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Það er röksemd sem ég skildi aldrei almennilega og skil alls ekki núna þegar heilt frumvarp hefur verið lagt fram til stjórnarskipunarlaga og ekki tekið á þessu í því.

Hvað sem flokkum finnst um hvernig eigi að fara að því að bæta við ákvæði um aðild að alþjóðasamtökum finnst mér ekkert óskynsamlegt að gera ráð fyrir því þegar menn fara í svona breytingar. Við vitum t.d. að innan Sjálfstæðisflokksins hefur ekki fram til þessa verið sérstakur hugur í mönnum um að sækja um aðild að Evrópusambandinu en vel getur verið að hægt sé að hugsa sér einhverjar breytingar á stjórnarskránni, ég skal ekkert um það segja. En það er mjög undarlegt að það skuli hafa verið gert svona hér og þetta er bara ein röksemd með því að málið er svolítið sérkennilega til komið.

Varðandi 1. greinina, sem ég hef ekki tök á að ræða ítarlega núna, þá strax við fyrsta lestur hennar — og nú skal tekið fram að það tekur töluverðan tíma og maður þarf að gefa sér góðan tíma til að undirbúa umræðu um stjórnarskrána og ég þarf að gefa mér betri tíma til að sökkva mér ofan í ákvæðin sem varða auðlindanýtinguna — er ljóst að ákvæðið býður upp á töluverðan túlkunarmun og margt í því gæti verið málum blandið ef á það reyndi fyrir dómstólum. Sérstaklega vil ég í því sambandi nefna 3. mgr. þar sem ákveðinn þáttur í Árósasamningnum er tiltekinn með því að almenningur hafi rétt til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda þar. Mér finnst þetta ákvæði vera mjög skylt stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og lít svo á að þessi hugmynd komi þaðan. Það að lögleiða Árósasamkomulagið er nokkuð sem margir hafa lengi haft á stefnuskrá sinni og jafnvel að koma því einhvern veginn inn í stjórnarskrá en mjög vandmeðfarið er hvernig það skuli gert vegna þess að hér þarf að túlka hvað almenningur er og það er ekki gert í þessu stjórnarskipunarfrumvarpi. Mér sýnist á greinargerðinni að ráð sé gert fyrir því að það sé gert í öðrum lögum og þá þarf að túlka og lesa stjórnarskrána og önnur lög saman og velta fyrir sér hvað það þýðir, þannig að þarna eru að mínu áliti pyttir sem þarf að fara mjög rækilega yfir í vinnu nefndarinnar. Ég á von á því að það verði gert og menn gefi sér þann tíma sem þarf til að komast til botns í því hvernig best sé að orða þessa hluti og hvernig best skuli með þá fara.

Ég næ ekki að fara yfir öll þau mál sem mig langaði til að nefna á þessum tíma, en rétt í lokin finnst mér að um margt sé alveg hægt að fella sig við varðandi þau ákvæði í frumvarpinu sem snúa að því hvernig breyta eigi stjórnarskránni. Þar eru hlutir sem lengi hafa verið til umræðu af hálfu stjórnarskrárnefnda þar sem sá lúxus var að þar sátu fulltrúar allra flokka, þannig að ég held að í því efni sé vel hægt að finna æskilegar leiðir og kannski hefði frumvarpið bara átt að snúast um það hvernig breyta ætti stjórnarskránni og ekkert annað.