136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

370. mál
[20:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að vona að ég hafi ekki heyrt rétt að menn ætli að rjúfa umræðu um stjórnarskrána til þess að hleypa einhverju öðru máli á dagskrá. Er þetta virkilega virðingin sem stjórnarskránni er sýnd? Ég er alveg gáttaður. Fyrir utan það að menn séu að ræða þetta um miðja nótt — klukkan er átta og það verður örugglega framorðið — þá finnst mér þetta vera svo mikið virðingarleysi við stjórnarskrána.

Ég ber gífurlega virðingu fyrir stjórnarskránni. Ég hef svarið eið að henni og það þýðir helling fyrir mig. Ég vona að það þýði það sama fyrir aðra þingmenn, þannig að það að hleypa hér einhverju öðru máli inn, eins og stjórnarskráin sé afgangs, herra forseti, ég bara á ekki orð.