136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

370. mál
[20:05]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Auðvitað er það ráðslag sem hér er uppi með nokkuð undarlegum brag en ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að taka skýrt undir það að það er ekki að undirlagi þeirrar sem hér stendur að þetta er með þessum hætti, svo að það sé alveg á hreinu. (StB: … í fjarveru ráðherra) Nú er það svo, hæstv. forseti, að hér er komið að ræðu minni og ég treysti því að ég fái svigrúm og ráðrúm fyrir hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að flytja ræðu mína.

Virðulegur forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu er fremur einföld og hún er í tveimur liðum. Annars vegar er ríkisstjórnin hvött til þess að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands, eins og það er orðað, í samningaviðræðum um loftslagsmál sem nú fara fram og hins vegar er ríkisstjórnin beðin að tryggja að efni og tilgangur íslenska ákvæðisins svonefnda við Kyoto-bókunina haldi gildi sínu.

Hvað fyrri liðinn varðar þá er sú brýning óþörf. Ég sem umhverfisráðherra og ríkisstjórnin í heild munum gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í samningaviðræðum fyrir Kaupmannahafnarfundinn. Hverjir eru þeir hagsmunir, hæstv. forseti? Það mætti nefna þrennt. Það varðar mestu að ná alþjóðlegu samkomulagi í Kaupmannahöfn svo að hægt verði að draga úr hraða loftslagsbreytinga því að hlýnun andrúmsloftsins langt umfram 2°C, sem í stefnir að óbreyttu, mun valda gríðarlegri röskun á náttúru og samfélögum um allan heim, líka á Íslandi. Í annan stað eru það hagsmunir Íslands að skuldbindingar einstakra ríkja séu ákvarðaðar á sanngjarnan hátt, að teknu tilliti til aðstæðna og um nákvæmlega það mun næsti samningafundur í lok mars snúast að miklu leyti.

Fyrir liggur vilji ríkja heims að ákvarða skuldbindingar á eins hlutlægan hátt og hægt er og Ísland hefur stutt þá nálgun. Í slíku ferli verður Íslandi fært til tekna að búa að mestu leyti við endurnýjanlega orkugjafa en á móti kemur að losun frá samgöngum og stóriðju hefur aukist hér gríðarlega. Aðstæður Íslands verða sem sagt skoðaðar út frá hlutlægum og sanngjörnum viðmiðunum.

Í þriðja lagi, virðulegur forseti, þá skiptir það Ísland miklu máli að skapa sér ímynd sem framsækið land í loftslagsmálum eða eins og sagði í stefnuyfirlýsingu síðustu ríkisstjórnar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar — þar var sérstaklega tekið fram að Ísland ætti að vera í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum. Það markmið hefur ekkert breyst, virðulegi forseti. Slíkt gæti orðið orðspori landsins til framdráttar og hjálpað framsæknum fyrirtækjum að skapa störf og tekjur við til dæmis græna nýsköpun. Ég vil leyfa mér að nefna dæmi um fyrirtækin Marorku, sem hlaut nýlega umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir búnað til að draga úr losun frá skipum, en í slíkum verkefnum búa einmitt framtíðartækifæri fyrir okkur og fyrir heiminn allan. Hér á landi eru líka ýmsir ónýttir möguleikar til að draga úr losun, ekki síst frá samgöngum, þar sem lítið hefur verið gert til þess að efla hluta almenningssamgangna eða hjólreiða í samgöngum eða skapa hvata til að kaupa sparneytna bíla. Hæstv. forseti, við eigum að koma á framsækinni loftslagsstefnu hér innan lands. Það er það sem hefur kannski helst vantað.

Virðulegur forseti. Ég hef nú nefnt helstu hagsmuni Íslands í samningaviðræðunum sem hafnar eru í undirbúningsferlinu fyrir Kaupmannahafnarfundinn í desember en í þingsályktunartillögunni sem hér er til umræðu er einnig ósk um framlengingu á íslenska ákvæðinu eða að efni þess og tilgangur haldi sér. Ég held að þessi herhvöt sé óþörf, hvaða skoðun sem menn kunna annars að hafa á þessu íslenska ákvæði, við látum það liggja á milli hluta.

Staða stóriðjunnar á Íslandi fyrir samningaviðræðurnar nú er í grundvallaratriðum ólík því sem var þegar verið var að ganga frá Kyoto-bókuninni og Marrakesh-ákvæðunum. Ísland hefur nú þegar undirgengist viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir og það liggur fyrir að framleiðsla áls og járnblendið mun falla undir það viðskiptakerfi strax á árinu 2013 á sama tíma og nýtt alþjóðasamkomulag sem samið verður um í Kaupmannahöfn tekur gildi. Hér munu því gilda evrópskar reglur um losun frá stóriðju þar sem fyrirtæki fá úthlutað kvótum og þurfa að kaupa slíka kvóta ef losunin er umfram tilgreind mörk. Það eru þessar evrópsku reglur sem munu fyrst og fremst móta starfsumhverfi stóriðju hér á landi, hvað loftslagsmál varðar, þegar komið er að árinu 2013 og þar eftir en ekki íslenska ákvæðið. Þar munu fyrirtæki sem losa lítið standa vel en skussarnir munu þurfa að minnka losun eða kaupa kvóta. Það fær enginn allsherjarundanþágur frá reglunum. Það hefur öllum löndum verið gert ljóst.

Virðulegur forseti. Það gæti hins vegar komið upp flókin staða fyrir Ísland að vera með stóran hluta af losun okkar undir evrópskum reglum en vera um leið sjálfstæður aðili að arftaka Kyoto-bókunarinnar á alþjóðavísu. Þetta munu ríki Evrópusambandsins ekki sætta sig við því að Evrópusambandið verður væntanlega sem heild sjálfstæður aðili að hinu nýja samkomulagi. Íslenskir embættismenn eiga nú í viðræðum við Evrópusambandið um hvernig samþætta megi skuldbindingar Íslands í viðskiptakerfi Evrópusambandsins og í alþjóðlegu samkomulagi en þar er gengið út frá því grunnsjónarmiði að skilyrði íslenskra fyrirtækja verði hin sömu og ekki lakari en evrópskra fyrirtækja. Þetta mætti til dæmis gera með þeim hætti að Ísland tæki á sig sameiginlegar skuldbindingar með ESB gagnvart loftslagssamningum en þar fengist sá sveigjanleiki sem nefndur er í greinargerð þeirrar tillögu sem hér er til umræðu — með því að Ísland tæki fullan þátt í markaði ESB með losunarkvóta en íslenska ákvæðið í dag hindrar slíkt, það hindrar viðskipti með losunarkvóta, og ég velti fyrir mér hvort flutningsmenn tillögunnar hafi gert sér þetta ljóst.

Virðulegur forseti. Talsmenn þeirrar tillögu sem hér er til umræðu hafa ekki talað hreint út um það hvað þeir vilja eða hverju þeir eru að sækjast eftir en þeir virðast vilja að endurnýjaða ákvæðið virki beinlínis sem hvati til þess að draga hingað til lands æ meiri stóriðju. Hér verði einhvers konar losunarparadís, á sambærilegan hátt og sumar eyjar eru þekktar sem skattaparadísir, þar sem helst væru engin takmörk á losun stóriðju. Ég vil halda því fram, hæstvirtur forseti, að þetta sé ekki eftirsóknarverð framtíðarsýn og það er heldur ekkert sem bendir til þess að ljáð verði máls á því að Ísland fái stórauknar ókeypis losunarheimildir í Kaupmannahöfn. Það samrýmist ekki hinum evrópsku reglum og það samrýmist heldur ekki stefnu í loftslagsmálum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samþykkti í ársbyrjun 2007 þar sem meðal annars segir að draga eigi úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50–75% fram til ársins 2050, miðað við losun 1990.

Virðulegur forseti. Það er ljóst að Ísland mun fullnýta eða því sem næst það svigrúm sem er í íslenska ákvæðinu árið 2012, þegar gildistíma þess og Kyoto-bókunarinnar lýkur. Álver Fjarðaáls og Norðuráls auk stækkana í Straumsvík og Járnblendiverksmiðjunni munu fylla upp í stærstan hluta þeirra 1.600 þúsund tonna af árlegri losun koltvísýrings sem íslenska ákvæðið heimilar. Eftir 2012 munu gilda hér evrópskar reglur um losun frá stóriðju sem Ísland er skuldbundið til að taka á sig í gegnum EES-samninginn. Íslenska ákvæðið, eða einhvers konar endurnýjun þess, mun engu breyta um það og það er kjarni málsins.

Það er líka rétt að taka það fram í þessari umræðu um þátttöku í losunarkerfi Evrópusambandsins að það var ekki sú ríkisstjórn sem nú situr sem lagði það fram hér til samþykktar á Alþingi Íslendinga eða tók það upp í EES-samninginn. Það eru fyrri tvær ríkisstjórnir sem hafa komið að þeim málum, fyrst ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og síðar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég veit ekki betur en að flestir þeir þingmenn sem flytja þá tillögu sem hér er til umræðu hafi samþykkt það með atkvæði sínu hér á Alþingi að Ísland gengi til liðs við Evrópusambandið hvað þetta varðar og taki beinan þátt í viðskiptum Evrópusambandsins með losunarheimildir.

Hæstv. forseti. Lokaniðurstaða mín varðandi þetta mál er því eftirfarandi: Tillagan er allsendis óþörf. Ýtrustu hagsmuna Íslands er nú þegar gætt af samninganefnd Íslands og af ríkisstjórn Íslands. Í öðru lagi fara þær losunarheimildir sem íslenska ákvæðið var ávísun á ekkert. Þær verða áfram til staðar undir hatti losunar frá stóriðju á Íslandi. Ekki aukaviðbót heldur hluti af þeirri losun frá stóriðju sem er til staðar á Íslandi.