136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[20:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og öndvert við mörg önnur mál sem hafa komið af sama toga er það meining ríkisstjórnarinnar að þetta mál verði samþykkt og þess vegna hljótum við að taka það með alveg sérstaklega miklum alvarleika. Það á aftur á móti ekki við um frumvarp Framsóknarflokksins um daginn, sem ég hélt reyndar langa ræðu um — af því að mér er stjórnarskráin mjög hugleikin og tel mjög brýnt að breyta henni, þá tók ég þátt í þeirri umræðu og nú geri ég það aftur. Þá var reyndar bjartur dagur en nú er komin nótt og mér finnst stjórnarskránni sýnd sérstaklega mikil óvirðing í kvöld, alveg sérstaklega þegar þingmenn eru farnir að gefa ræðum einkunnir úti í bæ og dreifa þeim á netið, þ.e. umræðan er einhvern veginn orðin eins og einhliða fjarumræða.

Ef ég væri flutningsmaður að breytingartillögu á stjórnarskrá mundi ég vanda mig við að taka þátt í umræðunni. Ég furða mig á því að hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, sem ég held reyndar að sé í húsinu, hv. þm. Birkir J. Jónsson og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, sem er reyndar staddur í þingsal — ég furða mig á því að þessir þingmenn allir taki ekki virkan þátt í umræðunni með andsvörum og hafi þetta vandaða umræðu því að um þetta snýst málið.

Ef hér á að fara að afgreiða breytingu á stjórnarskrá, svo maður tali ekki um ef á að fara að kollvarpa stjórnarskránni, búa til nýja stjórnarskrá, þá reikna ég með því, frú forseti, að hver einasti þingmaður tali. Við erum á stjórnlagaþingi. Alþingi er stjórnlagaþing og ég reikna með því að hver einasti af 63 þingmönnum tali og hafi skoðun á því hvernig stjórnarskráin eigi að líta út. Þeir hafa svarið að henni eið og það gildir helling að hafa svarið eið að stjórnarskránni. Ég býst við því að umræðan verði mjög lífleg og mjög löng þar sem ég reikna með að menn reyni að finna á þessu góðan flöt.

Vandamálið við það að Alþingi sé stjórnlagaþing er að það er það eiginlega í hjáverkum. Þetta er ekki aðalverkefni þingsins. Menn fjalla ekki um breytingar á stjórnarskrá marga daga í röð, menn fjalla ekki um þetta marga mánuði í röð heldur er þetta alltaf á kvöldfundum eins og núna, það er því miður einhvers konar „aukadjobb“ að ræða stjórnarskrá. Stjórnlagabreytingar eru teknar á dagskrá nákvæmlega eins og önnur mál þó að þeim sé sjaldan sýnd eins mikil óvirðing og áðan þegar umræðan var rofin til að koma ráðherra að með eitthvert allt annað mál og svo gátum við haldið áfram, við hv. þingmenn, ég ætla ekki að segja meira um það.

Menn eru að leggja til að kosið verði annað Alþingi við hliðina á þessu Alþingi, stjórnlagaþing, og það er kannski skynsamlegt. Það þýðir að 41 þingmaður verður ráðinn í starf sem verður þá fullt starf við það að breyta stjórnarskránni. Það getur verið að það sé skynsamlegt og það ætti reyndar að ganga mjög vel ef fólkið gerir ekkert annað en að breyta stjórnarskránni, kynna sér stjórnarskrár annarra landa, fara í gegnum heimspekina í kringum stjórnarskrárnar o.s.frv. og átta sig á því hvert er hlutverk stjórnarskrár. Ég tel og hef sagt það áður og hélt um það ræðu um daginn þegar frumvarp hv. framsóknarmanna var til umræðu, það var 17. febrúar — og einn þingmaður flytur meira að segja bæði málin, það er undarlegt hvernig hann ætlar að fara að því, annars vegar verður stjórnarskráin svona og hins vegar hinsegin. Ég veit ekki hver afstaða hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar verður, hvað hann ætlar sér að gera. Það væri gaman að heyra það, frú forseti, hans sjónarmið á því hvora stjórnarskrána hann vill hafa, hvora lausnina. Þeir hefðu alla vega átt að draga hitt málið til baka en það er í nefnd.

Gallarnir í stjórnarskránni eru mjög margir og þeir sem hafa lesið hana sjá það strax. Í 2. gr. stendur t.d., með leyfi forseta:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Þeir eru þá lausir við forsetann, hann er ekki þar. En hann fer bæði með framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið og það er brot á þrískiptingu valdsins og sýnir að forsetinn er í rauninni settur í staðinn fyrir kónginn, þennan danska. Hann er bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald.

Svo fjalla 3.–30. gr. um forsetann og kjörgengi og annað slíkt. Í 11. gr. finnum við mjög merkilegt ákvæði. Þar segir að forseti lýðveldisins sé ábyrgðarlaus í stjórnarathöfnum. Það væri gaman að vita hvað almenningur les út úr því. Hann er ábyrgðarlaus í stjórnarathöfnum. Hann ber sem sagt enga ábyrgð. Nú er ég ekki lögfræðingur og ég veit í rauninni ekki hvað þetta þýðir. Þetta þýðir væntanlega að maðurinn er ábyrgðarlaus, eða hvað, eða embættið alla vega.

Það er líka skrýtið í 13. gr., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“

Hvað skyldi þetta þýða? Hann hefur eitthvert vald en lætur annað fólk framkvæma það. Hefur hann þá valdið? Ég mundi telja ekki. Ef ég hefði eitthvert vald og fæli hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að framkvæma það, þá er ég hræddur um að vald mitt reyndist lítið. Hann gerir bara það sem hann vill, þ.e. það vald sem forsetanum er falið hefur hann ekki.

Í 16. gr. segir, með leyfi forseta:

„Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.“

Þegar maður les þetta kynni maður að halda að þetta sé mjög valdamikill maður og að hann sé mjög mikilvægur, það á að bera allt undir hann. En þá kemur hin greinin þar sem segir að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt þannig að í rauninni er ekkert verið að bera undir hann. Það eru ráðherrarnir sem sjá um það sem hann á að gera eða framkvæma það vald sem hann hefur.

Svo stendur í 19. gr. að forseti þurfi að skrifa undir öll löggjafarmál en í rauninni getur hann ekki neitað að skrifa undir því að hann lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Ef hann hefur eitthvert vald getur ráðherrann skrifað undir.

Í 20. gr. stendur að forseti lýðveldisins veiti þau embætti sem lög mæla. Hann er sem sagt kominn með framkvæmdarvaldið, farinn að veita embætti. Í rauninni gerir hann það ekki heldur vegna þess að í 13. gr. segir:

„Forseti lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“

Þó að hann eigi samkvæmt þessu að veita embætti er það ráðherra sem gerir það. Svo getur hann vikið þeim úr embætti sem hann hefur veitt og flutt embættismenn á milli staða o.s.frv. Þetta er vald sem hann virðist hafa en hefur ekki.

21. gr. er alveg stórmerkileg:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“

Þá gæti maður haldið að hann gæti farið til Kína og gert samninga við landið. Nei, það getur hann ekki vegna þess að hann lætur ráðherra framkvæma vald sitt, hann hefur ekki það vald sem stjórnarskráin segir.

Af hverju í ósköpunum er svona ákvæði í stjórnarskránni? Af hverju er verið að plata fólk?

Svona getur maður haldið áfram:

„Forseti lýðveldisins getur frestað fundum Alþingis um tiltekinn tíma …“ og hann stefnir Alþingi saman.

Þetta er eitthvert vald sem hann hefur en það er ráðherra sem framkvæmir það. Mér finnst að menn eigi að sleppa þessu eða segja bara að ráðherra geri þetta.

„Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi …“ Hann getur það ekki, það er ráðherra sem gerir það.

Það er því heilmikið af ákvæðum um forsetann sem í rauninni leiða fólk í villu sem les þetta og heldur að það skilji íslensku en í rauninni þarf maður að lesa 13. gr. aftur og aftur til að sjá að þetta á ekki við. Mér finnst mjög brýnt, frú forseti, að leiðrétta það þannig að stjórnarskráin segi fólki það sem hún meinar.

Svo er heilmikið af greinum um Alþingi, það eru eiginlega 31.–58. gr. sem fjalla um Alþingi og ætla ég ekki að fara nánar út í það. Mikil áhersla er lögð á Alþingi og kannski með réttu vegna þess að Alþingi er samkvæmt stjórnarskránni þungamiðja valdsins í landinu. Alþingi veitir fjárveitingar, samþykkir lög og hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu þannig að það hefur heilmikil völd, öndvert við það sem fólk telur og við það sem er í reynd. Það finnst mér vera mjög alvarlegt.

Síðan eru þrjár greinar um dómsvaldið, það er nú ekki meira, og er ekki minnst þar einu orði á Hæstarétt, hann er bara ekki til samkvæmt stjórnarskránni. Ef ekki er ástæða til að breyta stjórnarskránni … Ég er sannfærður um að það sé mjög brýnt eftir að ég las hana fyrir löngu síðan. Hún á ekki að segja hluti sem ekki er neitt að marka.

Síðan koma mannréttindaákvæðin og þau koma síðast, það er dálítið merkilegt. Það er sennilega vegna þess að þetta er dönsk stjórnarskrá sem var sett í kringum kónginn þegar hann var að missa völd sín. Hann var látinn halda völdunum í þykjustunni. Svo var prjónað við mannréttindaákvæðum þegar þau fóru að „dúkka“ upp um eitt og annað. Þetta var um núverandi stjórnarskrá og ég vona, frú forseti, eftir að hafa lesið þessar ótrúlegu setningar, að flestir hv. þingmenn séu sammála því að það þurfi að breyta þessu. Ég geri ráð fyrir því að flest fólk vilji breyta þessu.

Ég flutti hér ræðu 17. febrúar varðandi frumvarp framsóknarmanna og ég neyðist að vissu leyti til þess að endurtaka þá ræðu vegna þess að það varðar sama mál og ég ræði hér. Ég get ekki vísað nákvæmlega í þá ræðu þannig að ég ætla að fara yfir hana á hundavaði. Ég hef lagt fram frumvarp um að afnema forsetaembættið með þeim rökum sem ég nefni hér, að forsetaembættið hefur ekkert vald af því að hann lætur ráðherra framkvæma það. Hann er í rauninni arfleifð frá gamalli tíð, frá danska kónginum, og við Íslendingar höfum ekki haft kóng sjálfviljugir. Eftir að við misstum sjálfstæðið var þröngvað á okkur kóngum en það voru erlendir kóngar. Ég held að Íslendingar almennt séð vilji ekki hafa kóng, hirð eða prjál og svoleiðis, það held ég innst inni.

Ég hef verið meðflutningsmaður að máli um að ráðherrar séu ekki þingmenn, með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem er reyndar ekki flutningsmaður að þessu máli. Ég hefði viljað bæta um betur, ekki segja bara að þeir fari af þingi og inn komi varamenn heldur að þingmönnum yrði fækkað um 12 niður í 51. Það hefði nákvæmlega sömu áhrif, ráðherrarnir vinna hvort sem er ekkert á Alþingi. Þeir eru ekki í nefndum, þeir eru ekki í utanríkisstarfi Alþingis þannig að ef þingmönnum yrði fækkað niður í 51 mundi vera jafnmikill mannskapur eftir á þinginu til þess að vinna þau verk sem þar þarf að vinna og kostnaður mundi ekki aukast neitt. Það mundi reyndar breyta dálítið valdahlutföllum þegar varamenn koma fyrir inn ráðherrana en enginn veit hvernig það kemur út fyrir fram, enginn veit hvernig næsta ríkisstjórn verður.

Breytingar á stjórnarskrá eru heimspeki. Þær eru ekki lögfræði heldur í reynd heimspeki vegna þess að eftir frönsku stjórnarbyltinguna komust menn að því að það er ekki gott að sami maður setji lög, framkvæmi þau og dæmi eftir þeim, eins og var alsiða þar áður. Í slíkri stöðu er einstaklingurinn ofurseldur þessum eina manni sem gerir það. Heimspekingarnir fundu út að best væri að skipta valdinu í þrennt, hafa þrískiptingu valdsins. Ég er mjög upptekinn af því að þrískipting valdsins sé mjög hrein til þess að vernda borgarana. Þess vegna er ekki gott að hafa forseta sem er bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald. Þess vegna er ekki gott að hafa ráðherra sem eru bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald, þeir semja meira að segja frumvörp, koma með þau inn í þingið og greiða atkvæði með þeim, að sjálfsögðu. Það munar um tólf atkvæði og ríkisstjórnin stendur alltaf saman, annars heitir það ekki ríkisstjórn. Ég hef flutt og stutt tillögur sem ganga út á að hreinsa þrískiptingu valdsins, hafa það eins hreint og hægt er.

Svo kem ég að stjórnarskránni sjálfri. Til hvers er stjórnarskrá? Mér finnst menn ekki hafa velt því fyrir sér. Er hún fyrir ráðherrana eða er hún fyrir ríkisvaldið eða fyrir hvern er hún? Nei, stjórnarskráin er fyrir borgarana. Hún er fyrir hvern einasta einstakling í þjóðfélaginu, til þess að vernda hann. Fyrst og fremst er stjórnarskráin til að vernda borgarann fyrir öðru fólki. Ég mundi vilja setja inn í 1. gr. í I. kafla stjórnarskrárinnar: „Engan mann má drepa.“ Vegna þess að ef það ákvæði gildir ekki þýðir ekkert að hafa hin ákvæðin um framfærsluskyldu og trúfrelsi o.s.frv. Ef það má drepa fólk úti á götu hefur það ekkert að segja. Það hjálpar manni ekki að hafa ritfrelsi ef hann er dauður. 1. greinin ætti því að hljóða þannig: „Engan mann má drepa.“ Hvorki með dauðarefsingum né öðrum hætti.

Síðan kæmi II. kafli sem fjallaði um vernd einstaklingsins fyrir öðrum einstaklingum. Þar inni í er eignarrétturinn, trúfrelsið, skoðanafrelsið, félagafrelsið, o.s.frv. til að vernda einstaklinginn fyrir öðru fólki. I. og II. kafli fjalla um mannréttindi sem gilda um allan heim. Þau gilda jafnt í Kína og á Íslandi, alls staðar. Þau eru óháð þjóðskipulagi og landamærum.

Þá koma mannréttindi sem eru háð landamærum, þ.e. kröfur einstaklingsins á annað fólk, t.d. framfærsluskylda foreldra við börn sín. Börn eiga rétt á því að foreldrar þeirra framfæri þau ef lífi foreldranna er ekki ógnað. Ef mjög mikil fátækt er og fólk er að deyja úr hungri hugsa ég að 1. gr., um að engan megi deyða, gangi framar framfærsluskyldu barnanna á foreldrana. Foreldrarnir mættu því borða þó að börnin fengju það ekki. Þetta er mjög harkaleg mynd sem ég dreg hér upp en það geri ég bara til þess að menn átti sig á hvernig þetta lítur út.

Þarna kemur inn krafa öryrkja og aldraðra og þeirra sem eru veikburða í þjóðfélaginu, fátæklinga og annarra sem verða undir í lífsbaráttunni af ýmsum ástæðum, það er krafa þeirra og réttur á annað fólk. Það er að sjálfsögðu háð efnahagslífi og þjóðfélagi. Réttur manna í Sómalíu er annar en á Íslandi, með allri virðingu fyrir því ágæta landi, Sómalíu.

Þegar við erum búin að skrifa niður þessi mannréttindi þurfum við einhvern veginn að sjá til þess að þau séu haldin og vernduð og að einhver geri það. Til þess höfum við ríkið. Ríkið er til þess að tryggja fólki þessa þrjá flokka mannréttinda. Ríkið skiptir þeim í þrennt til þess að engin stoð ríkisvaldsins verði of öflug og ríkið geti þá farið að kúga einstaklinginn. Í tengslum við stjórnskipunina þurfum við að ræða um löggjafarréttinn, dómsvaldið og framkvæmdarvaldið. Það þarf að vera hreint og algjörlega afmarkað. Það vil ég að stjórnlagaþing fari í gegnum: Fyrst mannréttindin, síðan stjórnskipan, og að sjálfsögðu þarf að geta um Hæstarétt, það má ekki gleyma honum.

Mér finnst því vera mjög margt í stjórnarskránni sem þarf að breyta og ég tel mig hafa fært hér nægileg rök fyrir því að mjög brýnt sé að koma á einhverri nefnd eða þingi, eða hvað menn vilja kalla það, sem vinni að því að breyta stjórnarskránni. Vonandi í þá veru að menn geti hugsað nægilega mikið „út fyrir boxið“ þannig að þeir geti séð fyrir sér góða lausn.

Stjórnarskráin á að vera örstutt, kannski fjórar, fimm síður. Hún á að vera eins og boðorðin tíu, hún á að segja fólki hvað má gera og hvað má ekki gera. Hún á ekki að vera eins og núverandi stjórnarskrá sem allt að því lýgur að fólki eða segir ósatt. Hún á að segja nákvæmlega það sem hún meinar og eiga allir eða flestallir að geta skilið hana fullkomlega. Menn eiga ekki að þurfa að koma með þrjú nefndarálit þriggja mætra lögfræðinga sem öll stangast á eins og var með 26. gr. á sínum tíma. Ég fékk þrjú álit lögfræðinga, ég las þau öll og ég var svo hjartanlega sammála þeim öllum. Það voru svo fín rök með þeim öllum, sem sýnir okkur að það er eitthvað mikið að stjórnarskránni. Hún segir okkur ekki sannleikann.

Það frumvarp sem við ræðum hér er rökfræðilega gallað. Af hverju segi ég það? Vegna þess að menn ætla að fara að setja í gang stjórnlagaþing. Þá ætlast menn væntanlega til þess að stjórnlagaþingið geri eitthvað, t.d. varðandi auðlindirnar, varðandi umhverfisvernd o.s.frv. Hvers vegna í ósköpunum er 1. greinin eins og hún er? Þegar stjórnlagaþing á að fara í gang, má þá ekki breyta 1. greininni? Af hverju fela menn ekki stjórnlagaþinginu að gera einmitt það?

Þriðja greinin um þjóðaratkvæðagreiðslu, af hverju fær ekki stjórnlagaþingið það verkefni að skoða hana? Það er jú verið að setja í gang stjórnlagaþing sem á að gera eitthvað. Af hverju breyta menn þá stjórnarskránni rétt áður? Er verið að gefa stjórnlagaþinginu einhverja ábendingu: Þú átt að vinna svona — eða — þú átt að gera svona, þú átt ekki að taka þetta úr sambandi. Frú forseti, mér finnst þetta órökrétt.

Það eina sem mér finnst að eigi að standa í því frumvarpi sem við ræðum hér er 2. gr. um breytingar á 79. gr. sem segir hvernig fara skuli með breytingar á stjórnarskránni. Mér hefur alltaf þótt það vera mjög slæmt þegar breytingar á stjórnarskránni koðna og kafna undir einhverjum allt öðrum málum í kosningum til Alþingis. Það er mjög slæmt. Það er verið að breyta stjórnarskránni, sem á að vera aðalatriðið, og þá ræða menn um efnahagsmál eða velferðarmál eða eitthvað slíkt í kosningabaráttunni. Þeir ræða um eitthvað allt annað en það sem er í rauninni verið að breyta í stjórnarskránni. Ég vil hafa kosningu um stjórnarskrána og ég held að það sé verkefni þessa þings núna að búa til þær reglur þannig að þær séu viðunandi, að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána hverju sinni.

Hins vegar get ég alls ekki fallist á að fjórðungur þjóðarinnar geti farið að setja hinum 75% nýja stjórnarskrá. Það verða að vera 40% að lágmarki, helst 50%, frú forseti. Við verðum að bera þá virðingu fyrir stjórnarskránni að einhver lítill minni hluti geti ekki farið að breyta henni vegna áhugaleysis hins hlutans.

Ég sé að tími minn er að renna frá mér. Ég ætlaði að ræða dálítið um hvernig menn sjá fyrir sér kosningu til stjórnlagaþings því að það er svo merkilegt, frú forseti, að því er velt yfir á næsta þing. Ef þessi lög verða samþykkt stendur í stjórnarskránni að næsta þing skuli setja lög. Það er búið að skikka það til að setja lög og ég velti því fyrir mér hvað gerist ef það gerir það ekki. Á að setja það í fangelsi eða hvað á að gera við þingmennina ef þeir setja ekki þessi lög?

Allt í lagi, við skulum gefa okkur að þeir setji svona lög, en hvernig í ósköpunum sjá menn svona kosningar fyrir sér? Ég held að sumt fólk haldi að það geti verið kosið í þetta löggjafarþing, einmitt það sjálft, þessi ákveðna persóna ætlar að fara þar inn.

Ég geri ráð fyrir því að þeir aðilar í þjóðfélaginu sem eru mest skipulagðir á þessu sviði heiti stjórnmálaflokkar í dag, það eru félög sem eru stjórnmálaflokkar. Ég reikna með því að Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn myndi lista til að kjósa. (GMJ: Gleymdirðu ekki einum flokki?) Jú, jú, frjálslyndum, stóra flokknum, ég geri ráð fyrir því að … (GAK: Við erum ekki fjórflokkurinn.) Já. Ég geri ráð fyrir því vegna þess að það eru þessi félög — ég kalla þetta félög — eru best skipulögð. Svo hafa menn reyndar séð til þess að nýju samtökin fái engan tíma. Kosningarnar eru allt of snemma, þau ná ekki að skipuleggja sig. Auðvitað ættu þau að skipuleggja sig líka sem félög. En hvað heitir félag sem er í stjórnmálum? Það heitir stjórnmálaflokkur. Þá eru þau bara „raddir fólksins“ eða hvað þau heita, þau eru þá orðin stjórnmálaflokkur. Þetta verður væntanlega kosning stjórnmálaflokka sem stilla upp listum en það er eitthvað sem komandi þing á eftir að setja upp. Menn geta ímyndað sér t.d. ef Samfylkingin eða Sjálfstæðisflokkurinn fengju hreinan meiri hluta hefðu þau alvald um hvernig þessar reglur litu út. (Forseti hringir.)