136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[20:48]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til stjórnarskipunarlaga, um breytingu á stjórnarskránni en frumvarpið hefur verið rætt hér í dag. Í verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar er talið upp að á þeim fáu vikum sem hún starfar fram að kosningum eigi hún m.a. að gera breytingar á stjórnarskránni þar sem tekið verði á auðlindaákvæðum stjórnarskrárinnar, sett verði ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og um aðferð við breytingar á stjórnarskránni með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnframt segir í verkefnaskránni að sett skuli lög um skipan og verkefni stjórnlagaþings og um breytingar á kosningalöggjöfinni. Það vekur athygli mína, og e.t.v. fleiri, að í verkefnaskránni eru þessi verkefni sett framar í tölusettri röð en endurreisn efnahagslífsins og aðgerðir í þágu heimilanna. Þessi forgangsröðun í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar hefur endurspeglast í áherslum hennar frá því að hún tók við. Á þeim fimm vikum sem ný ríkisstjórn hefur starfað hefur gríðarlega mikill tími farið í umræðu um allt annað en vanda heimilanna og fyrirtækjanna, m.a. um breytingu á Seðlabankanum auk þess sem þær breytingar á stjórnarskránni sem hér eru til umræðu hafa tekið mikið pláss í þjóðmálaumræðunni.

Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum ítrekað gagnrýnt þessa forgangsröðun. Stjórnin hefur kallað sig aðgerðastjórn og af því mátti ráða að verkefni hennar væri fyrst og fremst að takast á við afleiðingar bankahrunsins, rétta fyrirtækjum og heimilum í landinu bjarghringinn til að fleyta sér yfir mesta vandann.

Hver er raunveruleikinn? Í síðustu viku fór eitt mál í gegn í þinginu. Eitt mál í þessa veru, framlagt af ríkisstjórninni sem við sjálfstæðismenn veittum að sjálfsögðu brautargengi. Það mál varðaði endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað. Í gær fór fram löng umræða um heimildir fólks til að nálgast séreignarsparnað sinn úr lífeyrissjóðum til að mæta greiðsluerfiðleikum heimilanna. Þar kom fram að leiðin sem ríkisstjórnin valdi mun ekki gagnast heimilunum í landinu nema í takmörkuðum mæli til að mæta fjárhagserfiðleikum sínum. Það er fyrirséð að sú útfærsla muni valda almenningi miklum vonbrigðum en þar er gert ráð fyrir að fólk geti leyst út 100.000 kr. á mánuði í 10 mánuði sem þýðir um 63.000 kr. á mánuði eftir skatt. Þetta er alls ekki sú úrlausn sem almenningur vonaðist eftir og það verður að segjast eins og er að miklar væntingar voru bornar til þeirrar úrlausnar. Fólk hafði í allt haust horft til þessa þáttar og farið fram á að skoðað yrði að það hefði heimild til að leysa út með einum eða öðrum hætti séreignarsparnaðinn sinn. Fólk var búið að horfa til þess að það gæti nýtt hann til að mæta þeim tímabundnu greiðsluerfiðleikum sem það stendur frammi fyrir. Svo er ekki. En það er ekki nóg með að leið ríkisstjórnarinnar gagnist almenningi ekki í þeim mæli sem vonast var til heldur hefur leið ríkisstjórnarinnar jafnframt víðtæk og neikvæð áhrif á stöðu lífeyrissjóðanna.

Leiðinni sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd undir forustu Péturs Blöndals vildu fara var hafnað þrátt fyrir að fulltrúar lífeyrissjóðanna teldu hana betri útfærslu en leið ríkisstjórnarinnar. Í því tilviki hefðu heimilin í landinu getað nálgast lífeyrissparnað sinn, 1 millj. kr. að fráteknum skatti, í einni upphæð, í einu lagi, og ef tveir eru á heimili sem eiga inni séreignarsparnað að þessari upphæð erum við að tala um verulegar upphæðir sem geta gagnast fólki en þó þannig að það sé greitt út í einu lagi sem væri þá, ef um hjón er að ræða, tæplega 1,3 millj. kr.

Hugmynd sjálfstæðismanna sem kom fram í umræðunni og lögð var fram sem breytingartillaga var hins vegar hafnað í dag af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar eins og hefur komið fram og er það miður. Ég dreg þetta fram, virðulegi forseti, til að benda á að það er ekki eins og hin nýja ríkisstjórn einblíni á vanda heimilanna og vanda fyrirtækjanna, heldur er hún með einhverjar þær hugleiðingar sem munu ekki gagnast almenningi í þeim mæli sem upp var lagt með.

Önnur mál sem voru afgreidd í síðustu viku voru lögð fram af fyrri ríkisstjórn, utan eftirlaunafrumvarpsins svokallaða, og það verður að segjast eins og er að þetta er öll eftirtekjan af aðgerðastjórninni sem eyddi fyrstu fjórum vikum í starfi í breytingar á skipuriti Seðlabankans. Aðgerðir í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu hafa verið aukaatriði og hafa ekki verið í forgangi og við sjálfstæðismenn höfum sett okkur upp á móti þeirri forgangsröðun. Ég dreg þetta fram til að sýna fram á fáránleika þess að þetta mál sem við ræðum nú skuli komið hér fram og hafa svona mikið vægi á þeim stutta tíma sem hæstv. ríkisstjórn er að störfum, starfsstjórn, sem kallaði sig aðgerðastjórn og hefur örfáar vikur til að hrinda sínum málum áður en til kosninga er gengið.

Við sjálfstæðismenn viljum halda því verkefni áfram sem fyrri ríkisstjórn lagði upp með, að styrkja fyrirtækin og heimilin í landinu og þar skiptir langmestu máli að fylgja eftir áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lækkun vaxta, styrking krónunnar og lækkun verðbólgu eru öflugustu tækin til að bæta hag fyrirtækjanna og heimilanna í landinu og önnur úrræði sem ríkisstjórninni ber að beita sér fyrir eða hefur lýst yfir vilja til að beita sér fyrir, samt með ótrúlegum seinagangi, mun auðvitað gagnast fjölskyldum og fyrirtækjum með sértækum hætti en engan veginn í sama mæli og lækkun vaxta, styrking krónunnar og lækkun verðbólgu.

Það verður að segjast eins og er að í dag eru allar forsendur fyrir vaxtalækkun og það er ákveðið áhyggjuefni að stjórnarskiptin hafi orðið til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði ekki til vaxtalækkun í síðasta mánuði eins og efni stóðu til. Það hefur framlengt ástand sem við viljum að standi sem styst.

Verðbólgan er í rauninni í kringum 6–7% og enginn þrýstingur á henni utan veik staða krónunnar og viðskipti við útlönd eru þar að auki í lágmarki. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum einnig leggja áherslu á aukna atvinnuuppbyggingu í landinu. Nú þegar rúmlega 16.000 manns eru á atvinnuleysisskrá og mörg störf eru enn í hættu, m.a. innan verslunar og þjónustu, þá er alveg ljóst að stórátak þarf til að takast á við þetta mikla verkefni. Jafnvel í þessum málum, virðulegi forseti, er ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar. Það hefur m.a. komið fram í umræðu hér í kvöld varðandi það mál sem var til umræðu rétt áðan, þ.e. að VG leggst m.a. á móti áformum um Helguvík og ekki síður Bakka við Húsavík. Reyndar á það einnig við um eitt af flokksbrotum Samfylkingarinnar þar sem Mörður Árnason er í fararbroddi. Vinstri grænir hafa heldur engar raunhæfar tillögur í atvinnuuppbyggingu og leggjast gegn því að stuðla að því að 3.000 störf verði að veruleika á næstu missirum í stóriðju í þeim verkefnum sem ég nefndi hér á undan. Þar er veruleg þörf á að minnka atvinnuleysi í landinu, við Íslendingar viljum ekki atvinnuleysi, við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að forða fólki frá því að missa vinnu sína. Við höfum mjög sterka vinnuhefð og það er mjög alvarlegt þegar annar stjórnarflokkurinn leggst á móti tillögum sem geta unnið gegn atvinnuleysi í landinu og skapað aukin störf.

Það er líka alveg ljóst að Vinstri grænir leggjast á móti því að stjórnvöld vinni að því að Íslendingar njóti áfram sérstöðu sinnar í loftslagsmálum. Það kom einmitt fram í kvöld í ræðu hæstv. umhverfisráðherra, Kolbrúnar Halldórsdóttur, að hún mun ekki berjast fyrir því að íslenska ákvæðið í loftslagsmálum verði framlengt.

Virðulegi forseti. Aðgerðir í þágu heimilanna og til að vinna gegn atvinnuleysi skipta mestu máli. Það á hins vegar ekki við um breytingar á stjórnarskránni, þær eru ekki meginatriði í dag. Ekki heldur breytingar á kosningalöggjöfinni mánuði fyrir kosningar, sem eru þar að auki í andstöðu við ráðleggingar erlendra sérfræðinga og alþjóðastofnana sem segja að kosningalöggjöf eigi ekki að breyta innan árs fyrir almennar kosningar. Samt liggja hér fyrir hugmyndir um breytingar á kosningalöggjöfinni og það eru aðeins 5–6 vikur til kosninga. Við í Sjálfstæðisflokknum erum einnig andvíg tillögum sem eru til þess fallnar að veikja stöðu Alþingis og þá á ég m.a. við hugmyndir um að koma á laggirnar stjórnlagaþingi sem yfirtæki það verkefni Alþingis að endurskoða stjórnarskrána. Í mínum huga er það eitt meginverkefni þingsins að setja landinu lög. Það á ekki síst við um stjórnarskrána sem er grundvallarlöggjöfin okkar og það er mjög sérkennilegt að taka það verkefni af þjóðkjörnu þingi. Ekki síst þegar haft er í huga að nýtt þing — segjum svo að það ríki eitthvert vantraust gagnvart sitjandi þingi, þ.e. að takast á við þetta verkefni, þá er samt alveg ljóst að þegar á næsta þingi verður töluverð endurnýjun meðal þingmanna og mér segir svo hugur að þeim þingmönnum sem koma þá til starfa, hvort sem þeir eru nýir og hafa haft uppi þá kröfu að setja sérstakt stjórnlagaþing á laggirnar sem hefði það verkefni að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá eða þá eldri þingmenn sem eru nú þegar á þingi, þætti afar miður að standa frammi fyrir því að eitt af stóru verkefnum þingmanna, þjóðkjörinna fulltrúa landsins, að setja stjórnarskrá, sé af þeim tekið, að þeim sé ekki treyst fyrir þessu stóra verkefni.

Þar fyrir utan höfum við, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, jafnframt gagnrýnt kostnaðinn við það að setja stjórnlagaþing. Nú þegar hefur þingflokkur sjálfstæðismanna óskað eftir því við hæstv. forseta Alþingis að hann leggi fram gögn þar sem lagt er mat á kostnað við slíkt þing. Það kemur fram í frumvarpinu að miðað er við að stjórnlagaþing starfi — að þar sé 41 maður, ég veit ekki hvort það á að kalla þá þingmenn — í eitt og hálft til tvö ár og bara launin í eitt og hálft ár eru um 800 millj. kr. Þá á jafnframt eftir að áætla kostnað vegna aðstöðu og vegna sérfræðiaðstoðar og slíks. Síðan mætti velta fyrir sér hvar þetta þing ætti að starfa. Verður stjórnlagaþing fyrir hádegi og almennt þing eftir hádegi hér í þingsalnum? Maður spyr sig.

Á þeim tíma þar sem horft er í hvern eyri í rekstri ríkisins og skorinn er niður starfsemi, t.d. á Landspítalanum upp á rúma 2 milljarða, 2,6 milljarða kr., veltir maður fyrir sér hvort það sé réttlætanlegt gagnvart þjóðinni að taka 1–1,5 milljarða kr. til að endurskoða stjórnarskrána. Ég er ekki viss um að sjúklingar séu tilbúnir að taka því eða starfsmenn heilbrigðiskerfisins, þetta er dæmi um ranga forgangsröðun.

Það sem ég er að segja er að við sjálfstæðismenn höfum gagnrýnt hugmyndir um stjórnlagaþing, við erum reyndar tilbúin til að taka til umræðu málamiðlun, að taka til athugunar að það verði ráðgefandi stjórnlagaþing en það kallar á frekari umræðu og vonandi getur komist einhver niðurstaða í það.

Við sjálfstæðismenn erum hins vegar reiðubúin að ræða breytingar á stjórnarskránni og við erum einnig reiðubúin að ræða breytingar á kosningalöggjöfinni en við teljum ekki að rétti tíminn til þess sé núna. Núna viljum við, eins og ég hef sagt hér á undan, ræða vanda heimilanna og fyrirtækjanna og taka ákvarðanir sem gagnast þeim. Það verður að segja að sú mikla áhersla sem lögð er á breytingar á stjórnarskránni sé fremur undarleg þó að auðvitað höfum við rætt það um langan tíma að þörf sé á að taka stjórnarskrána til endurskoðunar og ýmsar tilraunir hafa verið gerðar í þá veru. Í dag er þessi umræða hins vegar ekki brýn, ekki það brýn að það þurfi að haska henni af á örfáum vikum. Við verðum að taka okkur góðan tíma í hana og við erum tilbúin til að fara í þá vinnu en við erum ekki tilbúin til að kasta höndunum til þessa verkefnis. Við leggjum líka áherslu á að þetta verði gert í samkomulagi flokkanna.

Við teljum að sú aðferðafræði sem hér er lagt upp með, að breyta stjórnarskránni á hraðferð nokkrum vikum fyrir kosningar og að breyta ákvæði sem þarfnast mikillar yfirlegu og ítarlegrar umræðu, sé forkastanleg. Að mínu mati er lítið gefið fyrir lýðræðislega umræðu, lýðræðislegar samræður til að komast að tiltekinni niðurstöðu. Þetta er allt of stuttur tími. Það er ekki hægt að gera svona breytingar á nokkrum dögum, jafnvel ekki á nokkrum vikum. Það eru rúmar sex vikur til kosninga og ég hlýt að spyrja hv. þingmenn Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks hvort við viljum gera breytingar á stjórnarskránni á handahlaupum. Bera þingmenn þessara flokka virkilega ekki meiri virðingu fyrir stjórnarskránni en svo?

Ef farið væri að almennum reglum um tímafrest frá þingrofi að kosningum sem eru 45 dagar ætti að rjúfa þing eftir tvo daga, á fimmtudaginn. Það liggur fyrir að meirihlutavilji er á Alþingi fyrir að ljúka þingstörfum í þessari viku, þ.e. ef marka má ummæli formanns Framsóknarflokksins í síðustu viku. Jafnvel þó að þingstörf yrðu framlengd um nokkra daga er ekki nokkur vinnandi vegur að ljúka endurskoðun á stjórnarskrá Íslands á fáeinum dögum. Hún verðskuldar meiri virðingu. Vill ríkisstjórnin virkilega forgangsraða með þessum hætti?

Það má líka segja, virðulegi forseti, að þessi áhersla á breytingar á stjórnarskránni sé sérkennileg, ekki síst í ljósi þess að ekki er með nokkrum hætti hægt að kenna stjórnskipan landsins um bankahrunið í fyrrahaust. Það voru engar grundvallarreglur sem rekja má til stjórnarskrárinnar sem brugðust, hvað þá að hægt sé að klína ábyrgðinni eða sökinni á kosningalöggjöfina. Það er vissulega skiljanlegt að á þessum tímamótum sé vilji til endurskoðunar á ýmsum þáttum sem viðurkennt er að þurfi endurskoðunar við en við erum hins vegar engan veginn betur sett né ætti það að stuðla að aukinni vellíðan fólks ef kastað yrði til höndunum í þessum efnum. Það sem brást í haust var fyrst og fremst regluverkið sem við innleiddum frá ESB um fjármálakerfið, regluverkið sem þingmenn Samfylkingarinnar vilja ganga enn lengra til að innleiða í íslenska löggjöf með inngöngu í ESB. Það sem einnig brást var eftirlitskerfið sem var byggt upp og þar með var eftirlit þingmanna með störfum framkvæmdarvaldsins ekki sem skyldi. Það þurfum við öll að viðurkenna, en hins vegar verður ekki fram hjá því litið að meginhluti ábyrgðarinnar liggi hjá þeim forstöðumönnum bankanna sem fóru langt fram úr sjálfum sér og því regluverki sem fjármálamarkaðurinn átti að starfa eftir.

Í greinargerð með frumvarpi til breyttra stjórnarskipunarlaga segir m.a. eftirfarandi um tilurð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Í kjölfar bankahruns haustið 2008 og efnahagskreppu sem síðan tók við hefur orðið talsverð umræða í þjóðfélaginu um þörf á að endurskoða ýmsar grundvallarreglur í íslensku stjórnskipulagi, þar á meðal þær sem lúta að skipulagi löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og aðskilnaði milli þessara tveggja valdþátta, hvernig er háttað reglum um ábyrgð handhafa framkvæmdarvaldsins og eftirliti með starfi stjórnvalda og um möguleika þjóðarinnar á því að taka beinan þátt í ákvörðunum með þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Í þeirri umræðu hefur sjónum verið beint að stjórnarskrá lýðveldisins, setningarhætti hennar og þeirri staðreynd að stór hluti ákvæða hennar, sérstaklega þau sem standa í II. kafla um framkvæmdarvaldið, stendur enn lítt breyttur allt frá því Ísland fékk sína fyrstu stjórnarskrá frá Danakonungi árið 1874. Þessi ákvæði endurspegla því hvorki þann veruleika sem er varðandi meðferð framkvæmdarvaldsins né tryggja nægilega aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og nauðsynlegt aðhald þings með framkvæmdarvaldi. Hugmyndum um nauðsyn þess að Íslendingar setji sér nýja stjórnarskrá frá grunni hefur nú aukist fylgi. Í ljósi þess að stjórnmálaflokkunum hefur ekki tekist að ná samstöðu um nauðsynlegar breytingar á nokkrum meginþáttum í núgildandi stjórnarskrá hefur komið fram krafa um að stofnað verði til sérstaks stjórnlagaþings með þjóðkjörnum fulltrúum sem yrði falið þetta mikilvæga verkefni.“

Í grein sem Skúli Magnússon lögfræðingur ritaði í Fréttablaðið miðvikudaginn 4. mars sl. ræðir hann hugmyndir um stjórnlagaþing og stjórnarskrána. Þar spyr hann m.a. hvort stjórnarskipun Íslands hafi brugðist samfélaginu í grundvallaratriðum og hann segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Hefði kvótakerfi í fiskveiðum, stóriðjuframkvæmdir, einkavæðing fjármálafyrirtækja, eftirlit með fjármálafyrirtækjum, breytingar á skattalögum, stjórn peningamála og ríkissjóðs — svo einhver dæmi séu tekin um ætlaða sökudólga — orðið með öðrum hætti ef stjórnskipun Íslands hefði verið „lýðræðislegri“ geymt ákvæði um „sameign þjóðarinnar á auðlindum“, umhverfisvernd, o.s.frv.? Ef miðað er við stjórnlög, eins og þau tíðkast í hinum vestræna heimi, verður ekki séð að önnur og nútímalegri stjórnskipan hefði nokkru breytt um þessi atriði. Það stenst ekki heldur samanburð við önnur vestræn samfélög, sem kenna sig við lýðræði og mannréttindi, að halda því fram að stórkostleg slagsíða hafi verið og sé enn á íslenskri stjórnskipun hvað þessi atriði varðar.

Eitt af því sem nú er teflt fram sem viðbrögðum við efnahagslegu áfalli landsins er flýtimeðferð til ákveðinna breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins en að því loknu einhvers konar allsherjarendurskoðun stjórnskipunarinnar á vettvangi stjórnlagaþings.“

Svo segir aðeins neðar:

„Þótt hugmyndin um stjórnlagaþing kunni að hljóma aðlaðandi, sefa reiði almennings með því að svara kalli um róttækar og umsvifalausar breytingar, eru hér miklir hagsmunir lagðir að veði. Við Íslendingar eigum nefnilega stjórnskipun sem í öllum meginatriðum er skýr, jafnvel þótt texti stjórnarskrárinnar sjálfrar kunni í sumum tilvikum að vera gamall og lítt aðgengilegur. Þessi eign er ekki eins sjálfsögð og margir kunna að ætla. Einmitt við núverandi aðstæður ætti mönnum þó að vera ljóst gildi þess að eiga stjórnskipun sem er skýr um skipan valdsins, valdmörk, ákvarðanatöku, o.s.frv., þannig að unnt sé að veita samfélaginu ábyrga og skynsama stjórn með langtímahagsmuni að leiðarljósi.“

Hann segir hér áfram:

„Það er engin góð ástæða til að rífa stjórnskipun Íslands upp með rótum við núverandi aðstæður þar sem stjórnvöld þurfa að setja sér skýr markmið til lengri og skemmri tíma — sum eflaust sársaukafull og misvinsæl — og hafa styrk og þol til þess að vinna að þeim. Við munum ekki leysa aðsteðjandi vandamál með breytingum á stjórnskipun Íslands. Saga stjórnarskráa bendir raunar til þess að endingartími og tilætluð samfélagsleg áhrif þeirra aukist í öfugu hlutfalli við lengd þeirra og lagatæknilega fágun.“

Ég tek undir hvert orð sem kemur fram hjá lögmanninum. Það virkar þannig á mig að ríkisstjórnin treysti sér ekki í þau verkefni sem eru mest aðkallandi, heldur kjósi að beina athygli sinni og allri orku að þáttum sem eiga engan þátt í bankahruninu í haust og skipta engu meginmáli varðandi nánustu framtíð.

Nú hafa vissulega ýmsar hugmyndir komið fram um hvar eigi að bera niður í endurskoðun á stjórnarskránni og þar hefur m.a. komið til umræðu vald og valdmörk forseta sem hefur ítrekað komið upp í umræðunni á síðustu missirum og árum, m.a. vegna hegðunar núverandi forseta gagnvart stjórnarskránni og rúmri túlkun hans á valdi hans og valdmörkum, einnig um þjóðaratkvæðagreiðslur, um aðskilnað ríkis og kirkju og auðlindaákvæði og svo um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það eru því vissulega mörg verkefni og margir þættir í stjórnarskránni sem þarf að skoða en við getum ekki leyft okkur að gera það í flýtimeðferð.

Í greinargerð með frumvarpinu er ágæt samantekt um söguna og rakið í ítarlegu máli hvernig staðið var að undirbúningi eða innleiðingu stjórnarskrárinnar 1874 og hvernig hefur verið staðið að breytingum á henni, bæði 1944 og síðar. Meðal annars hefur komið fram að íslenska stjórnarskráin er að verulegu leyti byggð á þeirri dönsku en ég bendi á og vek athygli á því að danska stjórnarskráin hefur dugað Dönum býsna vel og hefur ekki verið breytt frá árinu 1953, þ.e. níu árum eftir að ákveðnar voru þær breytingar á íslensku stjórnarskránni sem leiddu af því að Ísland varð lýðveldi. Það er mjög mikilvægt að undirbúningur að öllum breytingum á stjórnarskránni sé vandaður og það kemur m.a. fram í greinargerð með frumvarpinu þar sem gerð er grein fyrir þeim breytingum sem hafa verið gerðar á stjórnarskrám annarra ríkja, að lögð er rík áhersla á vandaðan undirbúning. Í Finnlandi var t.d. gerð ný stjórnarskrá árið 1999 sem gekk í gildi í mars 2000 og þá höfðu breytingarnar verið í undirbúningi frá árinu 1995. Samkvæmt norsku stjórnarskránni ber að leggja tillögur um stjórnarskrárbreytingar fram á þingi í síðasta lagi á þriðja ári eftir kosningar og ef ég man rétt er kjörtímabilið í Noregi fimm ár og ekki má samþykkja þær fyrr en að loknum næstu kosningum þar á eftir. Það þýðir að allar breytingar á norsku stjórnarskránni, stórar sem smáar, þurfa ákveðinn tíma til þess að undirbúningur teljist viðunandi.

Á Ítalíu þurfa að fara fram tvær umræður í hvorri deild þingsins og þar eiga minnst þrír mánuðir að líða á milli umræðna. Í Sviss var gerð heildarendurskoðun á svissnesku stjórnarskránni og tók nýja stjórnarskráin gildi í janúar árið 2000. Þá höfðu breytingarnar verið í undirbúningi í rúma tvo áratugi.

Það er alveg ljóst að færum við að breyta stjórnarskrá okkar í flýtimeðferð, með hraði, værum við engan veginn að vanda til verksins og ég tel það mikinn ábyrgðarhluta að ætla að fara fram með þeim hætti og því er ég alfarið mótfallin.