136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef sérstaka ánægju af því að rifja upp samstarf okkar hæstv. utanríkisráðherra í stjórnarskrárnefndinni vegna þess að samstarfið þar var býsna gott þó að ég hafi farið á mis við það að starfa með honum í vinnuhópnum sem fjallaði um auðlinda- og umhverfismálin. Þannig að hann gerir mér mjög hátt undir höfði með því að rifja upp að ég hafi gegnt formennsku, hvorki meira né minna, í þeim hópi. En eins og fram kemur í áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndarinnar boðaði vinnuhópurinn til nokkurra funda og fundaði meðal annars með prófessor í umhverfislögfræði við Háskóla Íslands og síðan auðvitað sérfræðingum nefndarinnar. Ég veit ekki hvort hæstv. utanríkisráðherra lét undir höfuð leggjast að fylgjast með ræðu minni hér áðan. Ég taldi mig hafa farið ágætlega yfir það hvaða stöðu vinnuhópurinn hafði og hvernig það kom til að vinnuhópurinn lagði ákvæðið fram inn í stjórnarskrárnefndina sjálfa, sem fór með ákvarðanatöku fyrir nefndina í heild. Ég ætla að gera það aftur í örfáum orðum og rifja upp að þegar málið kom inn í nefndina kom afar skýrt fram að öll lögfræðileg og hagfræðileg álitaefni sem tengdust breytingunni þurfti að taka til nánari skoðunar. Að öðru leyti lagði vinnuhópurinn ákvæðið fram eins og það var smíðað af auðlindanefndinni og á grundvelli ákvæðisins, eins og það var á þeim tíma í stjórnarsáttmála Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, til nánari úrvinnslu og skoðunar í nefndinni. Sú vinna fór aldrei fram. Þess vegna er algerlega fráleitt að halda því fram (Forseti hringir.) að vinnuhópurinn hafi tekið einhverja endanlega afstöðu fyrir hönd stjórnarskrárnefndarinnar í heild.