136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get sagt eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson að mér þótti gaman að vinna með honum í stjórnarskrárnefndinni. Yfirleitt hefur mér alltaf þótt gaman að vinna með hv. þingmanni og mér hefur fundist hann vera málefnalegur og hafa margt gott fram að færa. Eins og til dæmis í þessum starfshóp.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta var undirhópur sem hafði enga formlega stöðu og mótaði ekki stefnuna fyrir stjórnarskrárnefndina. Það er hárrétt hjá honum að í stjórnarskrárnefndinni kom þetta viðhorf mjög sterklega fram hjá tveimur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins hv. þm. Birgi Ármannssyni og Þorsteini Pálssyni, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, að skoða þyrfti hagfræðilegar útfærslur á þessu, en ekki hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, ekki hjá honum. Hann var einn þeirra sem tók þátt í þessari vinnu, hann leiddi vinnuna. Fundargerðir voru skrifaðar. Hv. þingmaður átti kost á því að gera athugasemdir en gerði það ekki. Hann var samþykkur því. Það breytir ekki hinu að stjórnarskrárnefndin gerði þetta ekki að stefnu sinni en hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði þetta að stefnu sinni. Hann getur ekkert hlaupist undan því þótt hann ætli sér að verða leiðtogi Sjálfstæðisflokksins — sem ég vona að hann verði, enginn virðist ætla að fara fram gegn honum og hann er hæft leiðtogaefni. En leiðtogar verða að standa við sannfæringu sína og þeir verða stundum að geta farið á móti straumnum, eins og laxinn sem sterklega stiklar. Það vitum við og það á hv. þingmaður að gera. Hann á ekki að skammast sín fyrir að taka rökum frá þeim sem voru með honum í nefndinni. Hann skrifaði undir þetta. Hann kemst ekki hjá því.

Hitt er svo annað mál, herra forseti, að mér finnst heldur ekkert sérstaklega leiðtogalegt hjá hv. þingmanni að koma hingað, vera á leið í prófkjör við varaformann Sjálfstæðisflokksins, og gera þennan ræðustól að einhverjum vettvangi til að gera ágreining við hana um atriði sem mjög margir hafa fylgt en ekki allir, það er að segja að breyta eigi stjórnarskránni þannig að sett sé að setja inn ákvæði um þjóðaratkvæði. Hv. þm. kemur nú og lýsir allt annarri skoðun en varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg óþarfi. Ég held að menn komist vel af í umræðunni án þess að hér séu borin inn (Forseti hringir.) innanflokksátök um leiðtogaefni Sjálfstæðisflokksins.