136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég geri mér oft ekki grein fyrir því þegar hæstv. utanríkisráðherra stígur hér upp í stólinn — ef til vill til að leita að (Gripið fram í.) höggstað á manni — hvort honum er í raun og veru alvara eða hvort hann er ef til vill bara að spauga vegna þess að auðvitað er ekki nema spaugilegt að halda því fram að einhver núningur sé á milli mín og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluákvæðið. Ég fór ágætlega yfir það, taldi ég, í ræðu minni áðan, að ég tel alveg geta komið til greina að fella slíkt ákvæði inn í frumvarpið. Ég hafði einfaldlega efnislegar athugasemdir við ákvæðið eins og það liggur fyrir þinginu og spyr af hverju liggur svona mikið á að gera þessa breytingu nú í aðdraganda kosninga við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu, þar sem hv. þingmenn leggja til að stjórnlagaþing taki stjórnarskrána til heildarendurskoðunar. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja það.

Að öðru leyti finnst mér öll umræða um tillögur vinnuhópsins vera í besta falli hlægileg ef ekki bara vandræðaleg fyrir hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að honum getur ekki verið alvara með þeim málflutningi sem hann býður hér upp á og ekki í fyrsta sinn. Ég er sannfærður um að þetta hlýtur að vera í fjórða ef ekki fimmta sinn sem við eigum orðastað um þennan þriggja manna vinnuhóp undirnefndar stjórnarskrárnefndarinnar og að ég skuli ekki hafa gert fyrirvara þar. Þetta er algerlega hlægileg umræða í heild sinni. (Gripið fram í.) Hlægileg. Ég kannast heldur ekki við að það hafi einungis verið tveir en ekki þrír af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem gerðu (Forseti hringir.) þennan fyrirvara um nánari lögfræðilega- og hagfræðilega skoðun í stjórnarskrárnefndinni sjálfri. Ég man nefnilega (Forseti hringir.) sérstaklega eftir umræðum á fundinum þar sem við áttum (Forseti hringir.) sömu samræður og nú, ég og hæstv. utanríkisráðherra.