136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Talandi um meint málþóf — sá hv. þm. Mörður Árnason sem ég þekkti einu sinni lét aldrei gott málþóf fram hjá sér fara en talar núna eins og einhver hvítskúraður kórdrengur og reynir að leggja mönnum lífsreglurnar um hvernig þeir eigi að haga sér. (Gripið fram í.) Það virðist líka vera þannig að hv. þm. Mörður Árnason og hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson séu búnir að missa minnið.

Ég hef eytt mörgum nóttunum í þingsal einmitt við að hlusta á hv. þm. Mörð Árnason fara í andsvör við hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson, m.a. í umræðum um vatnalög, í umræðum um Ríkisútvarpið o.fl. Ef hæstv. utanríkisráðherra vill fá einhverjar staðfestingar á því get ég prentað þær ræður út fyrir þá kappana þeim til upprifjunar.

Ég á eftir að fá svör við mínu góða boði sem ég veitti hæstv. utanríkisráðherra, (Forseti hringir.) þ.e. að ég mundi berjast fyrir því að greitt yrði fyrir að (Forseti hringir.) Helguvíkurálverið kæmist á dagskrá. Ég vil (Forseti hringir.) fá að vita hvort hæstv. utanríkisráðherra ætlar að taka mínu góða boði.