136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Það má með sanni segja að ekki hafi komið inn í þingsali í langa tíð jafnmikilvæg mál og við ræðum í kvöld og skiptir miklu máli fyrir okkur þingmenn að umræðan sér skýr og að við leggjum gott til þessara mála. Við erum að ræða um sjálfan grundvöll samfélagsins, stjórnarskrána. Það eru engin lög jafnmikilvæg og þessi.

Ég hyggst gera að umræðuefni 1. gr. frumvarpsins sem snýr að náttúruauðlindum. Þar fer auðvitað saman annars vegar mikilvægi þessara laga, þessara grundvallarlaga, og hins vegar að fyrir samfélag okkar, fyrir þjóðina er ekkert jafnmikilvægt og hvernig við skipum málum þegar kemur að náttúruauðlindum. Náttúruauðlindirnar eru það sem hefur gert þetta land byggilegt. Þetta eru möguleikar okkar til að bjóða íslenskri þjóð lífskjör sem standast til jafns við það besta sem gerist annars staðar. Ég er þeirrar sannfæringar að þrátt fyrir þau vandamál sem hafa komið upp á undanförnum mánuðum að þegar fram er horft eigi að vera möguleiki fyrir íslenska þjóð að búa þannig að málum sínum að hér geti verið betra að lifa en víðast hvar annars staðar. Það á að vera sameiginlegt markmið okkar. Þess vegna skiptir máli hvernig við hugum að þessum málum.

Þannig er með eignarhald á náttúruauðlindum. Þetta er eitt elsta og jafnframt hatrammasta deiluefni stjórnmálanna. Menn hafa skipast mjög í fylkingar þegar kemur að því hvaða skoðun þeir hafa á því hvernig eignarhaldinu eigi að vera varið, hvaðan eignarrétturinn kemur, hver uppruni hans er og réttlæting.

Ef ég man rétt þá hóf Karl Marx, sá mikli hugsuður, hluta af sínum pólitísku afskiptum einmitt með því að skrifa grein um það þegar skóglendi nokkru var lokað fyrir nýtingu almennings og gert að einkaeign og þeir einir gátu nýtt skóginn til þess að hafa af honum gagn sem eignuðust skóginn og áttu. Hugmynd hans var auðvitað sú að það gengi ekki að það væri séreign á slíkri auðlind sem skipti jafnmarga máli. Þeirri hugmynd tengd er síðan sú hugmynd sem tengd er við georgismann sem snýr að því að allar náttúruauðlindir eigi að vera í eigu hins opinbera ríkisins og rentan af þeim eigi að renna til hins opinbera, einkaaðilar geti nýtt þær en rentuna þurfi þeir að greiða til ríkisins. Samstofna þeirri hugmynd er t.d. hugmyndin um auðlindagjald. Þessi deila er því ekki ný og ég efast um að hún verði til lykta leidd í samfélagi okkar.

Það var heimspekingurinn Rousseau sem sagði að mesti óvinur mannkynsins væri sá sem fyrstur hefði sett niður staur og sagt: Þetta er mitt. Það væri mesta ógæfa sem yfir mannkynið hefði gengið. Þetta vildi ég nú taka fram áður en lengra er haldið til þess að nefna það að við erum ekki að fást við eitthvert efni sem er allt í einu að koma fram á sjónarsviðið sem vandamál í samfélaginu. Það er langur vegur þar frá. Þetta hefur skipt mönnum í pólitískar fylkingar. Þess vegna skiptir miklu máli hvernig við högum nákvæmlega orðalagi á þessari grein og hvaða umræður fara fram á þinginu vegna þess að það verður horft til þessara umræðna síðar meir þegar menn reyna að rýna nákvæmlega í hvað þessi ákvæði þýða og hver vilji löggjafans var. Þess vegna skiptir miklu máli að við þingmenn vöndum okkur vel við þessar umræður.

Ég hef verið þeirrar skoðunar, pólitískrar, að uppruni eignarréttarins sé með svipuðum hætti og fram kemur í hugmyndum Johns Lockes, heimspekingsins sem lagði það til grundvallar að eignarrétturinn á náttúruauðlindum myndaðist vegna þess að menn settu vinnu sína, tíma og fyrirhöfn og tækju áhættu til þess að nýta auðlindir og þaðan væri uppspretta eignarréttarins komin.

Þegar kemur að umræðu um t.d. hefðarrétt og nýtingarrétt útgerðarmanna á fiskimiðunum á Íslandi þá má með vissu má færa fram þau rök að þar að baki standi einmitt hugmyndir Johns Lockes vegna þess að það voru einstaklingar, útgerðir að stærstum hluta sem tóku ákvörðunina um fjárfestingar í fiskiskipum, nýrri tækni, þróun markaða, þróun vinnslu, veiðarfæra o.s.frv. Það var ekki áhættulaust. Sumt gekk upp, sumt gekk ekki. Með öðrum orðum, þekkingin til þess að nýta auðlindina var ekki til hjá hinu opinbera heldur hjá einkaaðilum. Að baki þeirri hugsun að útgerðarmenn ættu nýtingarréttinn var einmitt slík hugsun sem John Locke lýsir.

Reyndar setti Locke önnur ákvæði eða önnur skilyrði fyrir nálgun sinni sem sneri að því, sem er mjög áhugavert, að það yrði að vera þannig að það væri nóg eftir fyrir alla aðra, þ.e. það að það myndaðist eignarréttur mætti ekki skerða möguleika annarra til að nýta auðlindir eða til þess að skapa sér gott líf. Ég hef skilið það svo að á bak við þá hugsun væri það eignarrétturinn sem slíkur sem skapar verðmæti þannig að með skynsamlegri nýtingu auðlinda verður til betra efnahagslíf og það verða til tækifæri til nýrrar auðmyndunar, til nýrrar auðsöfnunar, til nýrra framkvæmda.

Ég tek sem dæmi af því ég tilheyri kynslóð sem var svo gæfusöm að geta notið almennt mennta. Þegar ég horfi til einna eða tveggja kynslóða á undan mér þá veit ég að margur efnismaðurinn og mörg efniskonan áttu ekki möguleika á því að sækja sér menntun og urðu að fara að vinna snemma fyrir sér. Margir sóttu sjó og unnu landbúnaðarstörf og annað og smám saman gerðist það að þjóðinni vegnaði betur, við náðum betri tökum á nýtingu auðlindanna m.a. vegna þess að útgerðarmenn áttu skipin sín, bændur áttu jarðir sína, hver hugði að sínu og reyndi að gera best úr sínu sem gerði það að verkum að samfélagið varð auðugra þannig að næsta kynslóð, t.d. kynslóðin mín á miklu meiri möguleika á betra lífi en þeir sem á undan eru gengnir. Sá auður sem var myndaður gerði það að verkum að hér hafa sprottið upp háskólar og leiðir til þess að mennta sig sem síðan aftur gefur af sér meiri auð og betra mannlíf.

Með öðrum orðum, það að einhver hafi rétt til að sækja sjóinn og skapa verðmæti gerir um leið öðrum kleift — vegna þess að verðmætin verða til — að sækja sér t.d. menntun vegna þess að fyrir menntunina verður að greiða og það er gert úr sameiginlegum sjóðum. Og sameiginlegir sjóðir verða ekki til nema vegna þess að það er til öflugt atvinnulíf sem skilar arði, sem skilar hagnaði sem síðan er hægt að skattleggja til þess að standa undir ýmissi þeirri þjónustu sem við viljum hafa. Ég hef að mínu pólitíska markmiði og skoðun að tryggja t.d. að öll ungmenni sem lokið hafa námi geti notið sömu möguleika í lífinu, sama hvort þau koma frá ríkum heimilum eða fátækum. Við viljum hafa það þannig að skólakerfið okkar skili öllum á þann stað að hafa jafna möguleika.

Þess vegna skiptir alveg gríðarlega miklu máli að við höfum bæði í bakgrunni hvað við nákvæmlega erum að tala um þegar kemur að þeim stjórnmálaskoðunum sem liggja til grundvallar þegar við erum að ræða um náttúruauðlindirnar og hvað það er sem við erum að reyna að ná fram með ákvæði eins og því sem um er að ræða í 1. gr. frumvarpsins.

Fyrsta setning frumvarpsins skiptir miklu máli, þ.e. náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Varðandi þá setningu velti ég fyrir mér að ég tel að vel sé hægt að rökstyðja að náttúruauðlindir þar sem nýtingarsagan hefur öll verið af hálfu hins opinbera, eins og að stórum hluta í orkuvinnslu, ekki að öllum, en að stórum hluta og þar með hafi myndast nýtingarsaga sem hið opinbera stendur að baki og því sé alveg eðlilegt að nýtingarrétturinn og eignarrétturinn sé allur hjá hinu opinbera. Sama mundi ég telja ef um olíuvinnslu á Drekasvæðinu yrði að ræða. Það er ríkið sem hefur haft forgöngu um þá vinnu og það er eðlilegt að það sé ríkið sem hið opinbera sem taki af því arðinn.

En þetta verður flóknara, ég set mig ekki á móti þessari setningu en það sem ég velti fyrir mér eru þau áhrif sem hún kann að hafa þegar kemur að því að nýta náttúruauðlindir sem við nýtum ekki nú þegar. Náttúruauðlindir sem við áttum okkur ekki á í dag að eru auðlindir og við munum kannski komast að síðar. Um þetta eru auðvitað mörg dæmi. Þeir sem þekkja vel sögu íslensks sjávarútvegs þekkja það að ýmsar tegundir sem menn töldu að væru einskis virði og nýttu ekki urðu verðmætar þegar menn áttuðu sig á markaðsaðstæðum eða fundu upp aðferðir til þess að nýta auðlindirnar. Þannig að það sem ekki var talið að væri auðlind verður allt í einu að auðlind og jafnvel mjög verðmætri auðlind. Við viljum auðvitað að í hagkerfi okkar sé mikill hvati fyrir allt hagkerfið, fyrir allt samfélagið til að leita nýrra leið, til að nýta núverandi og þekktar auðlindir og til að finna nýjar. Því það er ekki þannig, og það er auðvitað mikil blessun fólgin í því fyrir land og þjóð að við erum búin að finna allar þær auðlindir sem landið hefur upp á að bjóða. En við finnum þær ekki nema það séu einhverjir sem hafi kraft, vilja og getu til þess að leita þær uppi. Til þess að finna leiðir til að nýta þær.

Þá kemur auðvitað upp sú staða að menn taka mismikla áhættu við að reyna að hefja nýtingu á einhverjum auðlindum og ef það mistekst þá sitja þeir einstaklingar uppi með tapið, jafnvel gjaldþrot. En ef það tekst þá kemur ríkið inn og segir: Gott hjá ykkur. Þetta tókst ykkur en það erum við sem tökum yfir auðlindina.

Þá skiptir miklu máli hvernig það er gert. Eðlilega kemur það ekki fram í grundvallarlögum eins og þessum. En það er rétt að menn hafi það mjög í huga að það má ekki vera þannig að menn séu svo óvissir um þá framtíð sem bíði þeirra finni þeir nýjar auðlindir eða nýja leið til að nýta þær, að menn séu svo óvissir um hvað framtíðin beri í skauti sér að þeir leggi ekki í þær fjárfestingar eða þá áhættutöku sem af þessu leiðir. Þetta vildi ég nefna þannig að þegar málið fer til nefndar hugleiði menn aðeins hvaða áhrif þetta kynni að hafa þegar þetta er sett upp með þessum hætti.

Ég held reyndar að það sé góður samhljómur í öllum flokkum um þessa nálgun. Ég vildi bara hafa sagt þetta þannig að menn í það minnsta velti því fyrir sér hvernig þeir sjái þetta fyrir sér í framtíðinni hvað varðar aðra lagasetningu.

Síðan er það hitt að í næstu málsgrein stendur, með leyfi forseta:

„Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir.“

Ég vil taka undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að við þurfum auðvitað að velta fyrir okkur hugtakinu „sjálfbær þróun“ og hvað það nákvæmlega þýðir. Við erum að ræða um stjórnarskrá og það má ekki leika neinn vafi á þeim hugtökum sem eru lögð til grundvallar henni og grundvallarlögum þjóðarinnar. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að hugtakið sjálfbær þróun hafi verið fyrst skilgreint þannig, með leyfi virðulegs forseta:

„… en með hugtakinu er átt við þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“

Þá stöndum við frammi fyrir því að þessi skilgreining er mjög loðin, það er mjög erfitt að grípa utan um hana. Hvað eiga menn við þegar þeir tala um að fullnægja þörfum samtíðarinnar? Mín reynsla af stjórnmálum er sú að þarfirnar eru óendanlegar, það er ekkert sem stöðvar það. Hver er þá hinn endanlegi dómari um þarfir samtíðarinnar og ég tala nú ekki um þarfir komandi kynslóða?

Það yrði mjög hjálplegt ef í störfum nefndar, þegar þetta fer til nefndar, færi fram ríkari og betri umræða um hugtakið þannig að búið verði að festa það á blað og menn hafi fyrir framan sig betri nálgun á því. Það skiptir máli upp á framtíðina vegna þess að við erum þjóð sem eigum allt undir nýtingu auðlinda og við eigum líka allt undir því að halda stjórnarskrá okkar. Þegar við erum búin að setja inn í stjórnarskrána setninguna „á grundvelli sjálfbærrar þróunar“ fyrir allar okkar náttúruauðlindir, sem ég held að sé hið skynsamlega — en úr því við erum búin að setja það í stjórnarskrána verðum við að skilja nákvæmlega hvað það þýðir. Það er lykilatriði. Ég vona því að þessi umræða fari fram og menn leitist eftir aðeins meiri skilgreiningum en er að finna í greinargerð með frumvarpinu.

Það er svo annað mál — það kann að hljóma eins og hártogun, en það er nauðsynlegt að við séum búin að ræða það — hvað það þýðir þegar við segjum að allar náttúruauðlindir beri að nýta á sem hagkvæmastan hátt „á grundvelli sjálfbærrar þróunar“. Eins og ég skil setninguna gæti maður komist að þeirri niðurstöðu að ríkisvaldið sé þá skyldugt til að nýta allar auðlindir.

Við skulum t.d. taka umræðuna um hvalveiðar. Maður getur þá velt því fyrir sér hvort þetta þýði það í raun að ef um sé að ræða auðlind eins og hvalinn við strendur landsins sé komin stjórnarskrárbundin skylda á framkvæmdarvaldið til að beita sér fyrir því að hún sé nýtt og þá með sjálfbærum hætti. Hvað gerist ef Alþingi setur lög sem banna landsmönnum að nýta hval, sem augljóslega er náttúruleg auðlind? Mundu þau lög standast þessa grein? Það skiptir máli að við áttum okkur á því vegna þess að við eigum allt undir nýtingu náttúruauðlinda. Það væri skelfilegt ef við settum okkur þær reglur í stjórnarskrá sem mundu valda okkur vandræðum hvað varðar nýtinguna. Það má aldrei gerast. Við megum ekki þurfa að velkjast í vafa um annars vegar möguleika á að nýta auðlindirnar og hins vegar það að fara að brjóta stjórnarskrána, þetta þarf að vera algjörlega á hreinu.

Hvað önnur atriði í þessari grein varðar geri ég í sjálfu sér ekki neinar athugasemdir við það að allir eigi rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem „líffræðilegri fjölbreytni“ er viðhaldið eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum. Enn á ný koma þó upp hugtakaskýringar. Hvað er nákvæmlega átt við með „líffræðilegri fjölbreytni“? Hversu langt nær það hugtak? Hvað stendur nákvæmlega á bak við það? Mér finnst reyndar að það liggi í hlutarins eðli að við eigum þennan rétt hvað varðar heilbrigði. Þetta er það sem við eigum að stefna að.

Enn á ný finnst mér greinin, eins og hún er sett fram, ekki nægjanlega þétt. Mér finnst of mörg hugtök sem maður þarf að velta fyrir sér. Það er ekki gott í stjórnarskrá að hlutirnir séu þannig. Stjórnarskrá á að vera einföld, hún á að vera skýr og hún á að vera þannig úr garði gerð að menn bæði beri virðingu fyrir henni og hafi sameiginlegan skilning á því hvað hún þýðir. Það kann að verða erfitt að ná fram sameiginlegum skilningi þjóðarinnar á því hvað sjálfbær þróun þýðir, hvað felst í líffræðilegri fjölbreytni o.s.frv.

Ég geri mér grein fyrir því að önnur hugtök í stjórnarskránni — öll þessi hugtök sem við erum að fást við, hugtakið mannréttindi og önnur hugtök — eru ekki niðurnegld. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér hvað varðar 1. gr. þessa frumvarps, sem snýr þá að 79. gr. stjórnarskrárinnar, er sú að við erum að tala um grundvöll atvinnustarfseminnar í landinu og hvernig við höldum þar á málum. Ég set mig ekki á móti því sem hér er sagt en ég vil að þetta sé sett fram með skýrari hætti, það skiptir mig máli.

Að öðru leyti vil ég taka fram að ég velti því fyrir mér, úr því að hér er rætt um að setja sérstakt stjórnlagaþing, hvort ekki hefði verið heppilegra að vísa þessu máli, t.d. því sem fjallað er um í 1. gr., til slíks stjórnlagaþings ef það verður að veruleika. Ég spyr mig hvers vegna við tökum þetta ákvæði sérstaklega út og fjöllum um það áður en til slíks stjórnlagaþings kemur, hvers vegna það fer bara ekki með öðrum þeim álitaefnum sem hafa verið til umræðu um stjórnarskrána og fer þá til umræðu á því stjórnlagaþingi? Ég hef ekki fengið nein sérstök svör við því í þessari umræðu, það sem ég hef fylgst með, og því kemur mér það að vissu leyti spánskt fyrir sjónir að menn skuli fara þessa leið. En ef menn kynna sér bakgrunn þessa ákvæðis þá er um margt ágæt sátt á milli flokkanna um það sem hér er verið að segja. Það er ekki svo að á bak við þetta standi stórkostlegar pólitískar deilur.

Rétt er líka að minnast frumvarps sem samþykkt var hér í þinginu um eignarrétt á orkuauðlindum, stöðu hins opinbera hvað það varðar. Á bak við það hefur líka myndast ágætissátt í þinginu, held ég, þó að ekki væru allir nákvæmlega sammála um alla þætti málsins. Það er að hluta til samstofna því sem hér er sagt og hér er lagt upp með. Það skiptir því máli, svo að ég ljúki máli mínu, virðulegi forseti, að við notum tímann — ég veit að hann er knappur — til þess að fara yfir þessa hluti.

Mér hefur fundist undarlegt að fylgjast með umræðu í þjóðfélaginu þar sem lagt er upp með það að þegar við þingmenn ræðum jafnmikilvægt mál og sjálfa stjórnarskrána séum við að tefja fyrir málum hér í þinginu. Ég veit t.d. að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson var ekki að tefja fyrir einu eða neinu þegar hann flutti sína ágætu ræðu. Hún var efnismikil og skynsamleg og lagði gott til þeirra mála sem hér er verið að ræða. Það er skylda okkar þingmanna að vanda okkur í umræðu um þetta mál, þetta er mikilvægasta mál sem kemur inn til þingsins.

Ég tel jafnframt að komi fram af hálfu ríkisstjórnarinnar einhver þau mál sem kalla á brýna afgreiðslu sem snúa að vanda heimilanna, að vanda atvinnulífsins, til þess að endurreisa íslenskt efnahagslíf, eigum við að gera hlé á umræðu okkar um stjórnarskrána, jafnmikilvæg og hún er, afgreiða þau mál og halda svo áfram með þessa umræðu. Við eigum ekki að kasta til höndunum, við eigum ekki að reyna að flýta okkur í gegnum þetta en við eigum ekki að valda því með umræðum um stjórnarskrána að mikilvæg mál, sem snúa að hag heimila og fyrirtækja í landinu, tefjist. Það er einlægur vilji okkar sjálfstæðismanna. Við viljum vanda okkur við þetta mál en við viljum flýta fyrir afgreiðslu þeirra mála sem skipta máli fyrir heimilin í landinu. Þannig standa þau mál.