136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:21]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og ekki síst ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Hann segir í lok ræðu sinnar að hann standi við allt það sem segir í Morgunblaðsgreininni og það finnst mér mjög mikilvægt að vita.

Hann nefndi í ræðu sinni að ná þyrfti góðri sátt á milli stjórnmálaflokkanna í þessu máli og það er mikið rétt. Mér heyrist nú, miðað við það sem kom hér fram í umræðunni af hálfu annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að hann eigi fullt í fangi með að ná einhverri sátt í sínum flokki um það sem hann segir í þessari grein og endurtekur hér í ræðustól á hv. Alþingi.

Mér finnst mjög leitt þegar hv. þingmenn setja fram þær skoðanir, og reyndar hefur hv. þm. Geir Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, komi fram með þá skoðun, að ekki verði hlustað á Ísland. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði hér áðan að það væri enginn skilningur á högum Íslands. Svona eigum við ekki að tala. Við erum í samstarfi við aðrar þjóðir og við erum í samstarfi við aðrar þjóðir vegna þess að við höfum eitthvað fram að færa. Mín reynsla er sú og margra annarra að alltaf þegar Ísland hefur eitthvað fram að færa er hlustað á Ísland.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson talar hér um að stefna Sjálfstæðisflokksins sé skýr og hún sé sú að heildarhagsmunum sé betur borgið utan Evrópusambandsins og geri ég mér fulla grein fyrir því. En þegar hv. þingmaður sem er í framboði til formanns í Sjálfstæðisflokknum hefur tekið svo djúpt í árinni sem raun ber vitni í sambandi við það að sækja um aðild að Evrópusambandinu finnst mér það vera mikil gleðitíðindi. Mér finnst að það hljóti að verða það sem litið verður til og tel líkur á því að það geti orðið niðurstaða þess fundar sem fram undan er hjá Sjálfstæðisflokknum.

Hæstv. forseti. Ég held að þetta sé nauðsynleg umræða og það er (Forseti hringir.) um að gera að halda hv. þingmönnum við efnið og ræða hér aðild að Evrópusambandinu.