136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:23]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nálgast þessa umræðu almennt á þann veg að við ræðum hér um leiðir til þess að auka langtímastöðugleika í efnahag okkar. Við skuldum bæði atvinnustarfseminni í landinu og heimilunum í landinu meiri fyrirsjáanleika í þeirra útgjöldum og langtímastöðugleika í gengismálum. Ég hef margoft sagt að ég efist um að krónan geti til lengri tíma veitt okkur þennan nauðsynlega stöðugleika og verið okkur sú viðspyrna sem gengið þarf ávallt að vera í peningamálastefnunni.

Þess vegna er það að mínu áliti mikilvægast af hagsmunum að við göngum skýrt fram við leit að bestu kostum og í því efni hef ég verið talsmaður þess að við tækjum afstöðu til Evrópusambandsmálanna með því að hafa þjóðina með í ráðum. Ég hef tekið eftir því að hjá öllum flokkum virðist það sjónarmið vera til staðar að við eigum að virkja þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að taka stórar ákvarðanir í Evrópusambandsmálunum. Ég lít á það sem tækifæri, tækifæri fyrir flokkana til þess að koma sér saman um næstu skref, hvort sem það verður að gera eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal mælist hér til, að við leggjum málið undir þjóðina, þ.e. aðildarumsóknina sjálfa, hvort fara eigi í aðildarviðræður eða hvort við förum hina leiðina sem hér hefur líka verið til tals.

Ég spyr, af því að hér hefur hv. þm. Mörður Árnason komið upp og sagt að ég hafi á einhvern hátt skipt um skoðun, sem er auðvitað alrangt: Hefur Samfylkingin skipt um skoðun? Fyrir nokkrum vikum sagði Samfylkingin að það væri sjálfhætt í ríkisstjórn ef hún sæti þar uppi með flokk sem ekki hefði það skýra markmið að sækjast eftir því að ganga inn í Evrópusambandið. Samfylkingin hefur greinilega skipt um skoðun að þessu leyti til vegna þess að hún er einmitt núna í samstarfi með flokki sem hefur ekki þá skýru stefnu. (Forseti hringir.) Verður það þannig eftir kosningarnar, (Forseti hringir.) ætlar Samfylkingin að fara í ríkisstjórnarsamstarf (Forseti hringir.) eða er fyrir hana sjálfhætt í ríkisstjórn (Forseti hringir.) komist hún ekki í stjórn með flokki sem hefur það að markmiði að ganga inn í Evrópusambandið? (Gripið fram í.)