136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

bráðabirgðalög.

318. mál
[12:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (U):

Virðulegi forseti. Ég ber fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um setningu bráðabirgðalaganna á síðasta ári. Fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hvert er viðhorf forsætisráðherra til setningar bráðabirgðalaga 7. júní 2008, um breytingu ákvæða laga um Viðlagatryggingu Íslands um eigin áhættu vátryggðs, í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í svari viðskiptaráðherra á þingskjali 502 um að bráðabirgðalögin hafi aukið tjónabætur Viðlagatryggingar Íslands vegna lækkunar á sjálfsábyrgð aðeins um 28 millj. kr. í 629 tjónum eða um 45 þús. kr. í hverju tilviki, og með hliðsjón af því að skv. 28. gr. stjórnarskrár lýðveldisins er gert ráð fyrir að bráðabirgðalög verði aðeins gefin út þegar brýna nauðsyn ber til?“

Þetta mál snýst um það að setja bráðabirgðalög en ekki fjárhagslegu áhrifin af þeim. Það er annað mál sem blandast ekki inn í fyrirspurnina sjálfa að öðru leyti en því að fjárhagslegir hagsmunir eru smáir, tjón á lausafjármunum varð nærri 1 milljarður kr. þannig að áhrif bráðabirgðalaganna eru innan við 3% í því tilliti. Þegar núgildandi ákvæði voru sett í stjórnarskrána 1991 var skýrt tekið fram af hálfu þeirra sem töluðu fyrir því fyrir hönd allra stjórnmálaflokka, eins og Ólafs G. Einarssonar sem þá var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, að með þessum nýju ákvæðum um bráðabirgðalög væri ætlunin sú að þing yrði kallað saman ef nauðsyn krefði, t.d. að afgreiða aðkallandi löggjöf að ósk ríkisstjórnarinnar fremur en að setja bráðabirgðalög. Það ætti aðeins að gera ef brýna ástæðu bæri til og þær ástæður þyrftu að vera ríkar.

Ég vil nefna sem dæmi að árið 2003 voru sett bráðabirgðalög og þá var það afstaða minni hluta landbúnaðarnefndar á þeim tíma sem skipuð var fulltrúum Samfylkingarinnar að þau lög hefðu ekki uppfyllt ákvæði stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn vegna þess hve málið var afmarkað, tæki til fárra fyrirtækja og smáir fjárhagslegir hagsmunir væru í húfi. Ég vil leita eftir afstöðu hæstv. ráðherra til beitingar ákvæðis stjórnarskrárinnar um að setja bráðabirgðalög í því ljósi sem nú liggur fyrir um þau lög sem sett voru á síðasta ári og hvert viðhorf ráðherrans er til þess að setja bráðabirgðalög á þessum grundvelli.