136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

bráðabirgðalög.

318. mál
[12:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég svara fyrirspurn sem beint er til mín er varðar setningu bráðabirgðalaga í tíð fyrri ríkisstjórnar þar sem ég gegndi embætti félags- og tryggingamálaráðherra.

Almennt talað er sú sem hér stendur hlynnt því að heimild 22. gr. stjórnarskrárinnar til setningar bráðabirgðalaga sé túlkuð þröngt og hlutverk löggjafarvaldsins sé virt í hvívetna. Varðandi það tilvik sem hér er spurt um þá voru aðstæður auðvitað slíkar að bregðast þurfti við með skjótum hætti. Í jarðskjálftanum sem átti upptök sín á Suðurlandi 29. maí 2008 varð mikið tjón á innbúi þúsunda heimila á Suðurlandi. Það var mat fyrrverandi ríkisstjórnar að nauðsynlegt hefði verið að bregðast við hækkun á vísitölu byggingarkostnaðar sem leiddi til þess að eigin áhætta á innbúi tjónþola þótti óeðlilega há. Setning bráðabirgðalaga að tillögu viðskiptaráðherra fólst í því að tryggja tjónþolendum sanngjarnar bætur við uppgjör þeirra. Aðstæður voru með þeim hætti að náttúruhamfarirnar urðu við þinglok og nokkrum dögum síðar þegar ríkisstjórnin ákvað viðbrögð sín hafði þingi verið frestað.

Menn geta vissulega reiknað út eftir á að fjárhæðirnar sem um var að tefla og leiða af bráðabirgðalögunum hafi ekki verið miklar. Eigi að síður mat ríkisstjórnin það svo á þeim tíma að brýna nauðsyn bæri til, m.a. til að sýna fórnarlömbum jarðskjálftans samhug. Sú sem hér stendur stóð að þeirri ákvörðun og ég tel að hún hafi verið rétt á þeim tíma. Þetta geta virst smáar upphæðir í þessu samhengi en mér er kunnugt um þau skjótu viðbrögð sem gripið var til voru mikils metin af því fólki sem þarna átti um sárt að binda. Margt var til fyrirmyndar í mati á tjónum og uppgjörum á þeim samkvæmt upplýsingum sem mér hafa borist frá íbúum á svæðinu sem verst urðu úti.

Varðandi setningu bráðabirgðalaga almennt má segja að það sé ekki í verkahring forsætisráðherra að leggja mat á það eftir á hvort í tilteknu tilviki eða tilfelli hafi verið uppfyllt skilyrði stjórnarskrár fyrir því að gefa út bráðabirgðalög. Það kemur í hlut Alþingis að ákveða hvort það vill staðfesta bráðabirgðalög þegar þau eru lögð fyrir þingið. Þá getur reynt á gildi bráðabirgðalaga fyrir dómstólum.

Í þessu sambandi vil ég jafnframt vekja athygli á því að eitt af verkefnum stjórnlagaþings í þeim tillögum sem nú eru til umræðu verður væntanlega að skoða nánar hvort ástæða sé til að viðhalda í stjórnarskrá heimild til setningar bráðabirgðalaga.