136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

bráðabirgðalög.

318. mál
[12:43]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur lýst skoðun sinni á því hvernig fyrri ríkisstjórn beitti bráðabirgðalagaákvæðinu í því tilviki sem við ræðum um hér. Ég ítreka að það var sjónarmið og mat allrar ríkisstjórnarinnar á þeim tíma að það væri réttlætanlegt að setja bráðabirgðalög í því tilviki. Hv. þingmaður taldi það vera mikil vonbrigði og vitnaði til þess að það sé ekki eðlilegt að ráðherrar túlki sjálfir hvernig nota eigi þessa heimild. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði að ég tel að fara eigi mjög varlega með þetta ákvæði í stjórnarskránni. Það má vera að það sé full ástæða til að endurskoða það og fara yfir það hvernig bráðabirgðaákvæðinu hefur verið beitt. Hv. þingmaður vísaði til ársins 2003 og hver afstaða Alþingis var þá til beitingu bráðabirgðalaga sem þá voru lögð fyrir þingið, þá hafi niðurstaðan orðið sú að það hefði ekki uppfyllt skilyrði stjórnarskrárinnar að um hefði verið að ræða brýn mál sem réttlættu það beita bráðabirgðalögum.

Ég hygg að það sé alveg við hæfi að stjórnlagaþing, sem vonandi verður sett á laggirnar, fari vel yfir þessi mál og skoði hvernig bráðabirgðalögum hefur verið beitt í gegnum tíðina en ég tel samt nauðsynlegt að heimild til setningar bráðabirgðalaga sé til staðar en þó er auðvitað minni ástæða til þess með þeim breytingum sem orðið hafa á starfi Alþingis, þannig að það má vel vera að það sé réttlætanlegt að skoða einhverjar verulegar breytingar á því.