136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

uppbygging samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.

353. mál
[12:57]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sný mér þá að öðrum spurningum sem hv. þingmaður bar upp með fyrirspurn sinni.

Hvað varðar umferðarmódel eða flæðilíkön á höfuðborgarsvæðinu þá er því til að svara að það er notað en það er auðvitað sífellt í endurskoðun og endurbótum og þannig hefur það verið.

Hv. þingmaður spyr um Miklubraut/Kringlumýrarbraut. Ég svaraði því áðan. Að auka afkastagetuna um þau fjölförnustu gatnamót landsins. Ég svaraði því áðan, við erum að vinna með tillögur sem komu frá Reykjavíkurborg um tveggja hæða gatnamót, það er í gangi.

Svifryksmengunin. Því er til að svara að um þá vegi sem snúa að Vegagerðinni er þjónustusamningur á milli Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborg sem slík sinnir því verki.

Gæðakröfur til styrkleika malbiks. Jú, það er gert. Samvinna Reykjavíkurborgar og Vegagerðar er þar líka. Þetta er auðvitað gert með þeim bestu steinefnum sem völ er á og við fáum hér á Íslandi. Hér var talað um Evrópustaðla, við getum sagt að Evrópustaðlar með íslenskum stöðlum eru notaðir vegna þess að við þurfum að taka tillit til fleiri þátta en gert er annars staðar eins og frost, þíðu, nagladekkja o.s.frv.

Hvað varðar þrif á götum hefur ég svarað því með þjónustusamningnum.

Hvað varðar aftur svo þann mikilvæga þátt sem er tjón af umferðarslysum er mér ánægja að segja frá því að í morgun klukkan 11 var undirritaður samningur um umferðaröryggisáætlun. 367 milljónum er varið til umferðaröryggisáætlunar í ár þar sem við setjum tæpar 80 milljónir í sýnilegt eftirlit lögreglu, áróður og fræðsla upp á tæpar 40 milljónir, endurbætur á vegum hvað varðar svartbletti og annað slíkt, sértækar aðgerðir eru einar 240 millj. kr. Þannig að (Forseti hringir.) þetta hefur verið gert.

Í lokin varðandi framkvæmdir í samgöngumálum á krepputímum. (Forseti hringir.) Árið 2009 verður annað mesta framkvæmdaár í vegamálum á Íslandi. (Forseti hringir.) Árið 2008 var það mesta, þannig að við erum að gera og höfum aldrei gert annað eins í samgöngumálum og einmitt núna.