136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

sjálfkrafa skráning barna í trúfélag.

374. mál
[13:03]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Árið 1886 voru sett lög sem lögðu það á presta þjóðkirkjunnar að annast skráningu allra barna og nafna þeirra í kirkjubækur. Árið 1956 var tekið upp nýtt fyrirkomulag almannaskráninga með lögum um þjóðskrá og almannaskráningu. Árið 1975 voru síðan sett lög um trúfélög sem tóku upp það fyrirkomulag sem nú ríkir.

Í lögum um trúfélög, nr. 108/1999, segir í 2. mgr. 8. gr. að barn skuli frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélags og móðir þess. Ég bendi á að í 3. mgr. sömu greinar segir að það foreldri sem fari með forsjá barns taki ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi. Ef foreldrar fara saman með forsjá barns taka þeir sameiginlega ákvörðun.

Rétt þykir að taka fram að í mörgum skráðum trúfélögum og í þjóðkirkjunni þarf að fara fram athöfn sem tengist viðkomandi trú, eins og t.d. skírn hjá kristnum söfnuðum, sem er undanfari þess að barn eða einstaklingur sé tekinn inn í söfnuð trúfélagsins. Sú athöfn að merkja við nýfædd börn í þjóðskrá með viðkomandi tákni skráðs trúfélags móður hefur þá í raun ekki gildi hvað trúfélagsaðildina snertir. Eftir hina trúarlegu athöfn geta foreldrar óskað skráningar barnsins í viðkomandi trúfélag en þar með er búið svo um hnútana að sóknargjald fyrir viðkomandi rennur til trúfélagsins á grundvelli laga um sóknargjöld þegar barnið verður 16 ára en þá hefst gjaldskyldan.

Eins og hv. þingmaður benti á hefur Jafnréttisstofa veitt umsögn um ákvæði 8. gr. fyrrnefndra laga um trúfélög frá 1999 og komist að þeirri niðurstöðu að annmarkar séu á því. Eins og þingmaðurinn benti á er það álit Jafnréttisstofu að það sé tæpast í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns að móðerni ráði því alfarið í hvaða trúfélag barn er skráð frá fæðingu. Kveður Jafnréttisstofa löggjafann ekki hafa, eftir því sem best verður séð, fært rök fyrir því af hverju nauðsynlegt sé að barn sé við fæðingu skráð í sama trúfélag og móðir þess.

Í öðru lagi er það sem Jafnréttisstofa telur mikilvægast í þessu máli að ekki sé svo að sjá að neinir hagsmunir séu, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að barn sé sjálfkrafa skráð í trúfélag hvort sem það fylgir skráningu móður eða föður.

Virðulegi forseti. Þetta tel ég að þurfi nánari skoðunar við. Staða barna ræðst að mjög miklu leyti af stöðu móður, föður eða beggja, nefni ég íslenskan ríkisborgararétt sem dæmi. Annað dæmi sem ég nefni er að barn á lögheimili þar sem foreldrar þess eiga heima ella hjá því foreldri sem fer með forsjá þess. Við höfum skuldbundið okkur að alþjóðalögum til að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi og endurspeglast það með ýmsum hætti í íslenskri löggjöf. Þótt jafnréttissjónarmið séu hér afar mikilvæg hljóta hagsmunir barnsins ætíð að vera í fyrirrúmi. Hvort það eru hagsmunir barns að vera t.d. ekki skráð í trúfélag þótt móðir eða faðir séu það tel ég að verði að skoða nánar.

Að þessu sögðu get ég verið því sammála að svo fortakslaus regla sem finna má í 2. mgr. 8. gr. laga um trúfélög geti verið óheppileg, ég tala nú ekki um ef hún þykir brjóta í bága við jafnréttislög. Því mun ég beita mér fyrir að hafin verði endurskoðun á téðu ákvæði en að það verði gert fyrst og fremst með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.