136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

fjöldi starfsmanna í umhverfisráðuneyti, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun.

377. mál
[13:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Umhverfisráðuneytið er yngst ráðuneyta okkar og var stofnað 1990. Við það færðust málaflokkar til ráðuneytisins sem áður voru á ábyrgð fimm ráðuneyta.

Það var síðan frá og með 1. janúar 1991 sem skipulagsmál og embætti skipulagsstjóra fluttust til ráðuneytisins frá félagsmálaráðuneyti og með gildistöku byggingar- og skipulagslaga árið 1998 var skipulagsstjórn lögð niður og nafni Skipulags ríkisins breytt í Skipulagsstofnun.

Umhverfisstofnun tók til starfa 2003 og tók þá við verkefnum Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins og veiðistjóraembættis. Hlutverk Umhverfisstofnunar er að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, öruggum neysluvörum og verndun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Um síðustu áramót fluttust embætti Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og Vatnamælingar Orkustofnunar til umhverfisráðuneytis í samræmi við breytingar sem gerðar voru á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins með breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Í skýrslu þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, kom fram að við þær breytingar hafi umsvif ráðuneytisins aukist verulega og þannig hafi stofnunum ráðuneytisins fjölgað um þrjár, þær voru níu en urðu tólf, um áramótin þegar þetta gekk í gildi. Einnig kom fram að við breytingarnar fjölgaði starfsmönnum úr 300 í 470 og fjárhagsleg umsvif jukust um 20%. Í þessu er ekki tekið fram hvernig starfsmannafjöldinn skiptist og mér leikur forvitni á að leggja þá fyrirspurn fyrir hæstv. umhverfisráðherra:

„1. Hver var fjöldi starfsmanna hjá umhverfisráðuneyti og Skipulagsstofnun árin 2000, 2005 og 2009?

2. Hver var fjöldi starfsmanna hjá Umhverfisstofnun árin 2003, 2005 og 2009?“