136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

fjöldi starfsmanna í umhverfisráðuneyti, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun.

377. mál
[13:16]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég dáist að fróðleiksfýsn hv. þm. Jóns Gunnarssonar, sérstaklega vegna þess að þessar tölur er sennilega auðvelt að fá hvar sem er í opinberum skýrslum og hjá stofnunum sem um ræðir, en látum vera. Stundum gerir maður það í þinginu að fá tölur eða svör til að hefja um þær einhverja umræðu. Mér er hins vegar ekki ljóst hvaða umræðu hv. þm. Jón Gunnarsson ætlar að hefja hér.

Ég vil segja þetta: Ég undrast í raun og veru að það skuli ekki vera meiri fjölgun í þessum stofnunum þremur og kannski er það til marks um að við höfum ekki haldið nógu vel á þessum málum vegna þess að í öllum öðrum löndum er hlutfallslega miklu fleira fólk í sambærilegum störfum og hér verður svo að vera í framtíðinni.

Ég vil í öðru lagi segja að eitt af því sem við lærðum hér í haust og í vetur er það að stjórnkerfi okkar er ekki nógu gott. Stjórnmálamennirnir, það er búið að ræða nóg um þá, en við verðum líka að tala um, ekki embættismennina sjálfa eða starfsmennina, heldur stjórnkerfið sjálft og ég tel að eitt af því sem við þurfum að gera í framtíðinni sé að bæta það og ef það kostar fleiri starfsmenn þá verður að hafa það.