136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

fjöldi starfsmanna í umhverfisráðuneyti, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun.

377. mál
[13:19]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, það hlaut að liggja fiskur undir steini hjá hv. þingmanni varðandi þessa fyrirspurn. Ég verð að segja að mér þykja ræður þessa hv. þingmanns, hvernig hann rekur stöðugt hornin í náttúruvernd og umhverfisvernd, vera ámælisverðar. Ég hefði virkilega talið gagn að því að taka hér almennilega umræðu við hv. þingmann um náttúruverndarpólitíkina. (Gripið fram í.) En þá þurfum við náttúrlega að gera það undir réttum formerkjum.

Varðandi þann meinta vöxt sem hv. þingmaður vill meina að hafi hlaupið í laga- og reglugerðaumhverfi umhverfismála á síðustu árum þá vil ég benda honum á hvaða flokkur það er sem hefur stýrt ríkisstjórnum síðustu 18 ár. Það er flokkur hv. þingmanns sem hefur staðið fyrir þeim vexti og þá getur hv. þingmaður gagnrýnt sinn eigin flokk meðan hann er við stjórnvölinn, (Gripið fram í.) en hann virðist ekkert hafa gert það á þeim tíma. (Gripið fram í.)

Fullyrðingu hv. þingmanns um að vöxtur stjórnsýslu í umhverfis- og náttúruverndarmálum sé hamlandi fyrir atvinnulíf vísa ég til föðurhúsanna og undirstrika frammíkallið í ræðu hv. þingmanns áðan, „er þá verið að tala um bankana?“ Er verið að tala um fjármálastarfsemi? (Gripið fram í.) Hvaða atvinnulíf hefur verið hamlandi? (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ég vil hins vegar leyfa mér að fagna því ef hv. þingmaður kemur hér sem liðsmaður í hóp þeirra sem vilja veg náttúruverndar og umhverfisverndar sem mestan. Hann kvartar undan því að einungis eitt svæði í síðustu náttúruverndaráætlun hafi verið friðlýst. Ég veit ekki betur en að það hafi verið sú sem hér stendur sem oftast kvartaði undan því meðan flokkur hv. þingmanns var í ríkisstjórn og leiddi ríkisstjórnina. Ég tek undir með hv. þingmanni að það hefði mátt standa betur að verki þar og ég er núna að leggja mitt af mörkum í ráðuneyti umhverfismála í þeim efnum.

Varðandi úthýsingu verkefna þá hef ég margar kannanir undir höndum sem sýna mér að þegar til lengri tíma er litið er það dýrara en að framkvæma verkið með þeim hætti sem við gerum í dag.