136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég var á umræddum fundi í gær og varð ekki var við að hv. þingmaður gerði beinlínis kröfu um að flutningsmennirnir tækju þátt í þeirri umræðu sem hér færi fram í dag. (Gripið fram í.) Ég hef þegar tekið til máls í umræðunni og þrír hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins fóru í andsvar við mig og ég geri ráð fyrir því að fleiri þingmenn Framsóknarflokksins muni taka þátt í umræðunni.

Vegna síendurtekinna ummæla þingmanna Sjálfstæðisflokksins um okkur flutningsmenn að þessu frumvarpi vil ég að fram komi að ég hef verið við alla umræðuna og finnst erfitt að sitja undir því þegar menn láta að því liggja að ég hafi ekki verið viðstaddur. Ég hef hlustað á hverja einustu ræðu og verið hér í húsinu og vildi bara að það kæmi fram í umræðunni, því að við framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á að þetta mál nái fram að ganga og ætlum að fylgja því eftir hér á vettvangi þingsins.