136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:50]
Horfa

Ásta Möller (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við vorum hér mörg í gær og tókum þátt í umræðu um breytingu á stjórnarskránni. Sú umræða var ítarleg af hálfu okkar sjálfstæðismanna en verulega skorti á að þingmenn annarra flokka tækju þátt í henni og sýndu stjórnarskránni þá virðingu sem henni ber.

Undir miðnætti í gær var komist að samkomulagi um að fresta umræðunni og taka hana aftur upp í dag með þeim hætti sem skipulagt var fyrir fram, þ.e. tveggja tíma umræða sem fulltrúar allar flokka kæmu að og að umræðunni lyki í dagsbirtu, eins og vera ber, og væri sýnd næg virðing.

Við hljótum að fara fram á það að 1. flutningsmaður, hæstv. forsætisráðherra, verði við umræðuna og sitji yfir henni. Hún gerði það ekki í gær og við hljótum að gera þá kröfu að hún hlusti á þá umræðu sem hér fer fram í dag og taki þátt í henni. Þetta er stórt mál, þetta er mikilvægt mál og ekki má kasta til höndunum eins og manni fannst stjórnarliðar gera (Forseti hringir.) í þeirri umræðu sem fór fram í gær og er fram haldið hér í dag.