136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:56]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ágæt umræða fór fram um þetta í gær og stóð fram eftir og var gert hlé til að halda henni áfram í dag. Hæstv. forsætisráðherra hefur fengið boð um ósk hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að vera við umræðuna og ég er sannfærður um að hún mun reyna að bregðast við þeirri beiðni eins hratt og hún getur. Ég veit hins vegar að hún er á mikilvægum fundum en mun koma um leið og færi gefst.

Ég held að meginatriðið sé að hefja umræðuna og fá að hlýða á sjónarmiðin. Ef sjálfstæðismenn setja alveg glæný sjónarmið inn í umræðuna sem enginn hefur orðið var við — (Gripið fram í.) ja, við hlýðum hér, þingmenn. Hv. þingmenn greiða atkvæði og taka ákvarðanir hér í þingsal, það er a.m.k. þannig í þessari ríkisstjórn. (Gripið fram í: Jæja.)

Virðulegi forseti, ég held að það sé um að gera að hefja umræðuna og hlýða á þær framúrskarandi ræður sem hér eiga eftir að verða fluttar. Ég held að það sé þinginu til miklu meiri sóma (Forseti hringir.) en að tala um þetta.