136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:57]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hlýt að nota tækifærið til að staðfesta að á fundi þingflokksformanna í gær var ekki óskað sérstaklega eftir því að hæstv. forsætisráðherra væri viðstödd. Nú hafa boð verið borin hæstv. forsætisráðherra, eins og hér hefur verið upplýst, og mun hún reyna að verða við þeirri ósk.

Ég er satt best að segja alveg undrandi á því ef sjálfstæðismenn ætla að hefja tafir á því að þessi umsamda umræða geti hafist. Það var skýr ósk frá Sjálfstæðisflokknum í gær að hér yrði rætt í björtu, eins og sagt var, um þessi mál og þá sérstaklega í tilefni einhverra orða hæstv. utanríkisráðherra á bloggsíðum, sem síðan voru rædd hér í gærkvöldi og eru væntanlega úr sögunni. Ég vil bara hvetja til þess að menn snúi sér nú að þeirri umræðu sem þeir sömdu um en haldi ekki áfram að tefja þingstörfin.