136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:37]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Frú forseti. Eins og ég hef áður bent á í umræðum síðustu daga varð ekki aðeins hrun á bönkum og allri fjármálastarfsemi og efnahagslífi hér á landi, heldur hrundi stjórnkerfið allt. Ég held að þjóðin hafi vaknað til vitundar um að það eru veikleikar í kerfinu sem hafa þróast, kannski óafvitandi, og haft sín áhrif á stjórnsýsluna og störf Alþingis, hægt og bítandi.

Við höfum horft upp á aukið vald ráðherra, framkvæmdarvalds, meiri áhrif sérhagsmuna á flokksræði, vaxandi flokksræði sem náð hefur inn í sali Alþingis. Hér liggur fyrir frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem að mínu mati er afsprengi þess ástands sem Íslendingar hafa upplifað og látið yfir sig ganga.

Frumvarpið skiptist í fjóra liði: Í fyrsta lagi er tekið á því viðfangsefni sem lengi hefur verið bitbein milli flokka og fólks, þ.e. þjóðareign á náttúruauðlindum. Í öðru lagi er verið að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni sjálfri. Í þriðja lagi eru gerðar tillögur um breytingar á tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo er hér tillaga um stjórnlagaþing og reyndar er líka drepið á breytingum varðandi kirkjuskipan en ég geri það ekki að sérstöku umræðuefni.

Ég held að tillögur þær sem felast í frumvarpinu séu allra góðra gjalda verðar. Þarna er verið að gera tilraun til að nálgast kröfu úr þjóðfélaginu um að gerðar verði breytingar á stjórnarskránni sem koma meira til móts við sjónarmið hins almenna borgara og þátttöku hans. Breytingar á þjóðaratkvæðagreiðslu og stjórnlagaþingi eru liður í þeirri viðleitni.

Ég hef litið á breytinguna sem snýr að náttúruauðlindum og þjóðareign sem mjög mikilvægt skref um staðfestingu á því að náttúruauðlindir þær sem upp eru taldar og við öll þekkjum, séu þjóðareign. Um það hefur verið tekist í langan tíma. Það vantaði herslumuninn upp á að það tækist að ná samkomulagi um það fyrir síðustu kosningar. Nú er gerð enn ein tilraun til þess að staðfesta eign þjóðarinnar á þessum auðlindum og er það í þágu okkar allra að það takist og náist niðurstaða í því viðkvæma máli. Ég held að það sé sér í lagi mikilvægt í ljósi þess ef og þegar Íslendingar ganga til viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

Það fer ekkert á milli mála að Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn hans hafa haldið uppi mikilli gagnrýni á frumvarpið. Þeir hafa jafnvel lýst vandlætingu sinni yfir því að ekki skyldi haft samráð við þann ágæta flokk. Ég get að vísu ekki skilið málflutning þeirra á annan hátt en að þeir séu efnislega meira og minna algerlega ósammála því sem fram kemur í þessu frumvarpi. Ég átta mig ekki á því hvernig hægt hefði verið að leggja fram frumvarp í þessa átt í samráði við Sjálfstæðisflokkinn ef hann var á móti meginatriðum þess frá upphafi. Þá hefði ekkert gerst. Ágreiningurinn hefði legið fyrir og ekkert frumvarp verið lagt fram.

Hér bregðast stjórnarflokkarnir ásamt Framsóknarflokki og Frjálslynda flokknum við eðlilegum kröfum þjóðfélagsins og leggja fram frumvarp sem kemur til móts við það sjónarmið að hinn almenni borgari geti verið með milliliðalaust og tekið þátt í ákvörðunum sem skipta máli fyrir þjóðina alla með vísan til stjórnarskrár.

Vegna ummæla hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur áðan vil ég taka fram að ég er þeirrar skoðunar hvað varðar frumvarp um náttúruauðlindirnar, að það gefi ekki sérstakt tilefni til breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það staðfestir hins vegar að þjóðin á fiskinn í sjónum varanlega og er kominn tími til að það sé sett inn í stjórnarskrána. Einkaeignarréttur er varinn svo langt sem hann nær, eftir því hvernig hann er útskýrður. Verður væntanlega tekið tillit til afnotaréttar og þess háttar þegar menn útfæra staðfestinguna sem hér er lögð til, að ekki fari á milli mála að þjóðin eigi náttúruauðlindirnar varanlega og hafi ekki heimild til þess að afsala sér þeim auðlindum.

Frú forseti. Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með störfum þingsins undanfarna daga og mér finnst að málflutningur og málþóf sem haldið er uppi af hálfu Sjálfstæðisflokksins sé þeim flokki ekki til sóma. Mér, sem óbreyttum alþingismanni, hefur liðið illa undir þessari umræðu sem hefur tafið fyrir mjög brýnum málum, afgreiðslu þeirra og umræðunni um þau. Þetta er mjög skrýtið ástand og er engu okkar sæmandi að taka þátt í því. Tíminn rennur frá okkur á hverjum degi. Við þurfum að horfast í augu við hin brýnustu mál, upp á líf og dauða jafnvel. Ég held að Alþingi Íslendinga eigi að horfast í augu við þann veruleika og reyna að komast að einhverri skynsamlegri niðurstöðu um vinnubrögð í þinginu.

Ég geri mér grein fyrir því að að lokinni þessari umræðu fer það mál sem hér er á dagskrá til nefndar og áfram verður karpað um það í nefndinni. Það er spurning hvað það tekur langan tíma og hvort tekst að afgreiða slíkt mál úr nefnd á ekki lengri tíma. Það mun væntanlega tefja fyrir öðrum málum áfram og vera í biðstöðu þar sem menn munu ýmist reyna að tefja fyrir málinu eða reyna að koma því í gegn.

Ég held, hreinskilnislega sagt, að forustumenn þingflokkanna í þessu húsi þurfi að setjast niður og komast að einhverri niðurstöðu um hvað við gerum næstu daga. Þetta getur ekki gengið svona lengur.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn með alla sína þingmenn ætlar að beita sér af svona miklu afli gegn þessu máli og halda uppi þeim málflutningi sem þeir hafa haldið uppi að undanförnu tekst honum sjálfsagt að stöðva þetta mál. En honum tekst því miður líka að bregða fæti fyrir mörg önnur mál sem hér eru á dagskrá og þurfa afgreiðslu á næstu sólarhringum. Við erum að falla á tíma, hv. þingmenn.

Ég mælist eindregið til þess að menn setjist niður og finni lausn á þessu. Annaðhvort verða stjórnarflokkarnir að játa sig sigraða gagnvart því að koma málinu í gegn eða þá að Sjálfstæðisflokkurinn gerir það, ef málinu verður haldið til streitu. En menn verða þá bara að horfast í augu við að það getur enginn kúgað keppinauta sína eða andstæðinga til þess að samþykkja eða hafna þessu máli öðruvísi en að við reynum að finna skynsamlegustu niðurstöðuna. Við vinnum í þágu þjóðarinnar, okkur ber skylda til þess að taka á þeim málum sem snúa að heimilum, fyrirtækjum og þjóðinni allri. Ég geri ekki lítið úr þessu frumvarpi. Ég held að það sé liður í endurreisn þjóðfélagsins og hins nýja Íslands. Lýðræðið skiptir máli og hvernig á því er haldið og almenningur vill taka meiri þátt í ákvarðanatöku á æðstu stigum. En þetta liggur allt undir og það er verkefni okkar á Alþingi að í staðinn fyrir að karpa fram og til baka og bera sakir hver á annan, setjist menn niður og reyni að taka í útréttar hendur, í hvora áttina sem er.