136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:08]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Það var þjóðin sjálf sem setti stjórnarskrána á sínum tíma, 1944, og í henni var ákveðið að breytingar á stjórnarskránni þaðan í frá yrðu eftir því sem þar um segir. Í raun er stjórnmálaflokkunum og Alþingi falið það vald að gera breytingar á stjórnarskránni aðeins með óbeinni aðkomu þjóðarinnar í alþingiskosningum á milli.

Flokkarnir hafa ákveðið að fara þannig með það vald að gera ekki breytingar á stjórnarskránni nema í góðu samkomulagi og það hefur verið skynsamlegt ráð að vinna þannig að málunum. Þegar ágreiningur hefur risið um efnisatriði hefur gengið illa að ná fram breytingum eins og við sáum fyrir síðustu alþingiskosningar. Ég tel að meðan það fyrirkomulag er viðhaft eigi stjórnmálaflokkarnir ekki að efna til harðra deilna um efnisatriði um breytingar á stjórnarskránni. Þær deilur og þann ágreining á að útkljá í atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni sjálfri. Þess vegna tel ég að eina breytingin sem skynsamlegt sé að gera núna á stjórnarskránni sé sú að ákveða að breytingar á henni verði framvegis bornar undir þjóðina þannig að þar ráðist úrslitin en ekki í samkomulagi eða samningaviðræðum milli stjórnmálaflokkanna. Þá er líka allt annað upp á teningnum og eðlilegt að ágreiningur komi fram og menn tali hver fyrir sínu sjónarmiði því að það er svo lagt í dóm þjóðarinnar að taka afstöðu til málsins.

Ég held, virðulegur forseti, að frekari breytingar en þessi, þar með talið að gera efnislegar breytingar núna, verði ekki farsælar og menn eigi að láta duga að breyta forminu, aðferðinni við að breyta stjórnarskránni héðan í frá. Ef það tekst hafa menn (Forseti hringir.) skilað góðu dagsverki.