136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:05]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Þetta frumvarp er ekki flókið, það eru fimm greinar þar sem síðasta greinin er gildistökugrein og má segja að fyrstu þrjár greinarnar séu mál sem hafa verið rædd frekar mikið og kannski sérstaklega 1. og 2. gr. Síðan er það 4. gr. sem fjallar um stjórnlagaþingið, sem er þá nýmæli, og mér heyrist að Sjálfstæðisflokkurinn sé kannski helst að gagnrýna stjórnlagaþingið og það kemur mér satt best að segja svolítið á óvart að hann skuli ekki lesa samfélagið betur en svo að ráðast að stjórnlagaþinginu.

Í 1. gr. er fjallað um náttúruauðlindirnar, við viljum að náttúruauðlindirnar séu í þjóðareign og ekki megi selja eða láta þær varanlega af hendi. Þetta er margrætt mál, eins og hér hefur komið fram, og við framsóknarmenn höfum lagt sérstaka áherslu á það og náðum fram að ákvæði um að náttúruauðlindirnar ættu að vera í þjóðareigu færi í stjórnarskrána. Við náðum því fram í stjórnarsáttmála með Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma þannig að enginn ætti að fara í grafgötur um að við styðjum það. Sjálfstæðisflokkurinn dró hins vegar fæturna í því máli og það kom ekki fram fyrr en allt of seint fyrir síðustu kosningar og náðist þess vegna ekki í gegn, því miður. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því ekki reynt að liðka fyrir því máli, þó að það sé mikið rætt.

Ég vil líka benda á að Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, lagði þetta mál fram í byrjun þings síðasta haust, og reyndar allir þingmenn Framsóknarflokksins, nákvæmlega sama mál og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir mælti fyrir í þessum sal ekki fyrir löngu síðan, sem er á þeim nótum að náttúruauðlindirnar eigi að vera í þjóðareigu. Alrangt er að segja að með samþykkt þessa ákvæðis sé verið að breyta fyrirkomulaginu í stjórn fiskveiða. Það er önnur sjálfstæð ákvörðun. Hér er einungis verið að tryggja það að ekki megi framselja kvótann varanlega, hann verði ekki einkaeign og maður veit að þjóðin styður það, þetta hefur verið rætt svo oft. Það kemur því á óvart að sjálfstæðismenn leggjast gegn þessu máli í heild sinni, síendurtekið virðast þeir ekki vilja taka þetta skref.

Varðandi ákvæðið í 2. gr. léttir sú grein undir með því að geta breytt stjórnarskránni. Ekki þarf ekki að fara í gegnum alþingiskosningar og tvö þing þurfa ekki að samþykkja breytingar á stjórnarskrá heldur getur Alþingi með ákveðnu fyrirkomulagi samþykkt frumvarp og svo fer það beint í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki almennar þingkosningar, hvorki fyrir né eftir. Þetta mundi létta mjög mikið aðferðafræðina við að breyta stjórnarskránni og hlýtur að vera jákvætt. Um þetta voru menn orðnir sammála á sínum tíma en náðist ekki fram heldur.

Þriðja ákvæðið er um að þjóðin geti sjálf ákveðið að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu ef 15% af kjósendum krefjast þess. Það er sjálfsprottið vald sem við færum þjóðinni verði þetta samþykkt og má kalla þetta ákvæði beint lýðræði.

Síðan er það 4. gr. sem er um stjórnlagaþingið. Ég ætla ekki að fara náið yfir þá grein en hún gengur í megindráttum út á það að 41 þjóðkjörinn fulltrúi verði valinn inn á stjórnlagaþing sem fær það hlutverk að endurskoða stjórnarskrána. Síðan, þegar búið er að komast að samkomulagi um drög að nýrri stjórnarskrá, fari hún í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að þjóðin samþykki þá nýja, heildstæða stjórnarskrá.

Við framsóknarmenn fluttum hér frumvarp um stjórnlagaþing, ítarlegt frumvarp, fyrir stuttu síðan og ég sé að þessi grein byggir í megindráttum á því frumvarpi. Hugmyndafræðin skilar sér því algjörlega í 4. gr. í frumvarpinu, eins og við framsóknarmenn hugsuðum stjórnlagaþingið. Það verður bara að viðurkennast, virðulegur forseti, að Alþingi Íslendinga hefur ekki verið fært um að breyta stjórnarskránni, það hefur breytt nokkrum ákvæðum en ekki farið í heildarendurskoðun. Í 135 ár höfum við búið við stjórnarskrá sem hefur breyst allt of lítið þannig að hún er orðin algjörlega úrelt. Því er ekkert annað að gera, virðulegur forseti, en að koma þessu valdi, breytingum á stjórnarskránni og undirbúningi þeirra, í hendurnar á stjórnlagaþingi sem svo getur lagt það fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.

Það kemur mér mjög á óvart hvað Sjálfstæðisflokkurinn tefur hér mál og beitir sér mikið gegn stjórnarskrárbreytingum, það kemur mér mjög á óvart. Það að hlusta á hv. þm. Geir H. Haarde reyna að etja flokkunum saman er kostulegt. Þau orð voru notuð að hér væru undirmál á ferðinni og sagt: Já, ætli það sé ekki þannig að Vinstri grænir og Samfylkingin hafi sjálfsagt engan áhuga á þessu stjórnlagaþingi og eru bara að gera þetta fyrir grey framsóknarmennina, eitthvað svoleiðis. Síðan var sagt: Ætli framsóknarmenn hafi nokkurn áhuga á öðru en stjórnlagaþinginu, þeir láta sig svo sem hafa það, kannski upp á einhverja sýndarmennsku, að vera með á þessu máli. Þetta er bara fráleitur málflutningur.

Við viljum gjarnan ná sem flestu í gegn en ég segi að hvert einasta skref er í rétta átt. Ein grein hér í gegn er skref í rétta átt. Auðvitað vill maður helst ná þessu öllu í gegn og til þess er leikurinn gerður. Ég hef fulla trú á að bæði Samfylkingin og Vinstri grænir starfi af miklum heilindum að því að ná þessum málum í gegn.

Við skulum því bara sjá til hvernig þetta mál fer og vonandi sjá sjálfstæðismenn að sér áður en yfir lýkur og koma inn á þetta mál með okkur hinum flokkunum, af því að Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem les samfélagið rangt og leggst gegn því að koma á betri og (Forseti hringir.) lýðræðislegri skipan í samfélaginu.