136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[18:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er ósköp leitt að heyra hvað allir hafa verið vondir við Sjálfstæðisflokkinn meðan hann réði þessum málum. Ég vil engu að síður taka undir orð síðasta ræðumanns um mikilvægi þess frumvarps sem hér er lagt fram og er til þess fallið að ryðja greinilega burt einhverjum þröskuldum sem hafa orðið á vegi hins sérstaka saksóknara frá því að embættið tók til starfa. Samt er ekki ýkja langt síðan, það var 1. febrúar sl.

Talsvert hefur verið beðið eftir rannsókn á aðdraganda og því sem gerðist við og eftir bankahrunið í byrjun október sl., eiginlegri rannsókn á lögmæti atburða, aðgerða og aðferða í viðskiptalífinu sem menn hafa vissulega rökstuddan grun um að hafi ekki alltaf verið eftir hinum löglegustu leiðum. Menn hafa í rauninni beðið eftir því að þessi rannsókn færi af stað og þegar maður sér þetta frumvarp virðist manni að eitt af því sem hafi kannski komið í veg fyrir að hinn sérstaki saksóknari hafi getað hafist handa af fullum krafti séu þeir þröskuldar sem ég nefndi, að það hafi verið ónógur aðgangur að gögnum eða óvilji aðila til að afhenda gögn og menn hafi þá greinilega getað borið fyrir sig þagnarskyldu eða bankaleynd. Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Björn Bjarnason, sagði varðandi bankaleyndina. Hún er auðvitað einskis virði um atburði sem heyra sögunni til, um fyrirtæki sem þegar eru komin í ríkiseigu, um fyrirtæki sem þegar eru komin til gjaldþrotaskipta og eru komin í eigu almennings.

Ég ætla ekki að fjölyrða mikið um þetta frumvarp. Ég treysti því að það fái mjög skjóta afgreiðslu í hv. allsherjarnefnd og verði fljótlega að lögum frá Alþingi.

Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna sérstaklega þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ráða Evu Joly og þeirri ákvörðun Evu Joly að gerast ráðgjafi ríkisstjórnarinnar við rannsókn á sakhæfum atvikum í kringum þetta bankahrun. Ég held að það skipti verulega miklu máli. Maður hefur orðið var við að fregnir að aðkomu hennar að þessu máli hafa vakið athygli í Evrópu. Við skulum vona að hennar góða orðspor, hennar góði orðstír, verði til þess að auka traust á Íslandi í augum umheimsins. Þar mun ekki veita af. Vonandi skynja menn að hún leggur hér í rauninni orðstír sinn að veði með aðkomu að þessum málum þó að ekki sé nema sem ráðgefandi aðili fyrir ríkisstjórnina. Ég mundi einnig fagna því sem óskað var eftir áðan ef hæstv. dómsmálaráðherra gæti gefið okkur frekari upplýsingar um aðkomu hennar að málinu.

Ég átti þess kost að hlýða á fyrirlestur hjá henni í gær í Háskólanum í Reykjavík. Það var margt mjög athyglisvert sem þar kom fram, auðvitað var erindið ekki um þær séríslensku aðstæður sem við erum að fjalla um í þessu frumvarpi en mannlegt eðli er samt hvar sem menn eru að braska á jarðarkringlunni. Það er greinilegt.

Það vekur athygli mína í viðtali við Evu Joly í Morgunblaðinu í dag að í orðum hennar virðist liggja að hið nýja embætti sérstaks saksóknara sé ekki algerlega óháð, það sé ekki algerlega sjálfstætt að því leyti að hinn sérstaki saksóknari þurfi að bera það undir ríkissaksóknara hvort hann geti höfðað mál eða gefið út ákæru. Þetta kemur mér verulega á óvart og mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort þetta sé virkilega svo.