136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[18:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spurði mig beinlínis út í það sem hv. þm. Björn Bjarnason sagði hér áðan um það að þingflokkur Samfylkingarinnar hefði ekki viljað fallast á þær heimildir sem er að finna í þessu frumvarpi. Hv. þingmaður getur velt því fyrir sér hvort það sé rökrétt að þingflokkurinn hafi á þeim tíma lagst gegn heimildum sem hann hefur nýlega samþykkt. (SF: Hann segir það sjálfur.) Hv. þm. Björn Bjarnason sagði það. Ég hef ekki neinn áhuga á að elta ólar við málflutnings hans í þessum efnum, hvorki sem hann segir hér eða skrifar á sína heimasíðu. Hann má segja það sem hann vill og skrifa það sem hann vill fyrir mér. Það er í sjálfu sér ekki mitt hlutverk að elta það uppi og benda á hvað er rétt eða rangt í því.

Það er hins vegar hárrétt sem hv. þingmaður sagði hér áðan, Björn Bjarnason, að á sínum tíma óskaði Samfylkingin og ég fyrir hennar hönd eftir því persónulega við þáverandi dómsmálaráðherra að þessi frumvörp fylgdust að. Þáverandi dómsmálaráðherra varð mjög góðfúslega við því.

Ég gæti sagt hér sögur af því úr ríkisstjórn, eins og hv. þingmaður gerði áðan, hvernig það gekk t.d. að fá fram í ríkisstjórninni samþykki við því að rannsóknarnefndin yrði sett á laggir en ég hef engan sérstakan áhuga á því að vera með þeim hætti fastur í fortíðinni og fyrrverandi dómsmálaráðherra má túlka hana með nákvæmlega þeim hætti sem hann kýs en ég kannast ekki við þetta sem hann var að segja.