136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[18:33]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég taldi sérstaka ástæðu til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson að þessu af því að það er óvenjulegt eftir að ríkisstjórnarsamstarfi er slitið að þá fari menn að upplýsa hver vildi þetta hvenær og hver ekki. En hv. þm. Björn Bjarnason kaus að koma því hér sérstaklega á framfæri að þingflokkur Samfylkingarinnar hefði ekki viljað hleypa þeim heimildum sem við nú fjöllum um í gegnum þingflokkinn.

Ég vil ítreka spurningu mína til hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar: Er þetta rétt? Vegna þess að ef þetta er rétt hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni þá eru einhver sjónarmið þar að baki sem Samfylkingin hefur haft gagnvart því að stöðva þessar heimildir í þingflokknum sem við ætlum núna að veita.

Ég tók eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. utanríkisráðherra lagði smálykkju á leið sína til að koma hér höggi líka á Sjálfstæðisflokkinn og gaf í skyn að Sjálfstæðisflokkurinn hefði í upphafi ekki viljað skipa rannsóknarnefnd yfirleitt. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra að því hvort þetta sé réttur skilningur hjá mér. Ég gat ekki skilið andsvar hæstv. utanríkisráðherra öðruvísi en að þar væru einhverjar meiningar á bak við um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði á fyrstu stigum málsins ekki viljað hafa nokkra rannsóknarnefnd yfirleitt.