136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:10]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli vera komið fram og við þingmenn þingflokks Sjálfstæðisflokksins, ég tala nú ekki um þingmenn Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, fögnum því alveg sérstaklega og styðjum þetta mál heils hugar. Reyndar hefði þetta mál mátt koma á dagskrá þingsins fyrr að mínu mati, enda miklum mun meira knýjandi en það mál sem ríkisstjórnin hefur lagt mesta áherslu á síðasta sólarhringinn eða svo. Ég tel þetta reyndar eitt mikilvægasta málið sem verið hefur á dagskrá þingsins það sem af er þessu vorþingi.

Þetta er reyndar mál frá tíð fyrri ríkisstjórnar. Þennan samning áritaði hæstv. viðskiptaráðherra milli jóla og nýárs á síðasta ári eftir að það hafði verið samþykkt í ríkisstjórn. (Iðnrh.: Á gamlársdag.) Á gamlársdag, rétt, rétt skal vera rétt. Var það vel og um það hafði verið gott samstarf og samráð innan ríkisstjórnarinnar áður en til þessa kom, sérstaklega við hæstv. iðnaðarráðherra.

Það er hins vegar nokkuð sérstakt að þetta skuli vera stjórnarfrumvarp þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, stjórnarfrumvarp sem lagt er fram í andstöðu við annan stjórnarflokkinn og hann hefur opinberlega lýst yfir andstöðu við málið. Ég minnist þess ekki að slíkt hafi gerst áður en það getur vel verið að það hafi gerst þótt ég muni það ekki. Í öllu falli er mjög sérstök staða sem upp er komin hvað málið varðar.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur farið mjög ítarlega yfir þennan samning. Hann er að mörgu leyti líkur samningum um svipuð verkefni sem áður hafa verið gerðir. Reyndar hefur verið minna um slíkt upp síðkastið en vegna þeirra breytinga sem orðið hafa bæði alþjóðlega og innan lands var nauðsynlegt að bregða á það ráð að nýju að gera sérstaka samninga um þessi verkefni. Þetta verkefni er reyndar það eina af sinni gerð og sinni stærð sem mögulegt er að komi til framkvæmda á næstunni, jafnvel þótt önnur geti síðan hugsanlega komið síðar. Þetta verkefni er ólíkt öðrum verkefnum af sama tagi sem ráðist hefur verið í að undanförnu. Það spannar lengri tíma, er í fleiri áföngum og þess vegna ætti að vera auðveldara fyrir aðra hluta hagkerfisins að bregðast við og aðlagast því að svo stór framkvæmd sé í gangi hér á landi.

Það sem gerir samninginn mikilvægan fyrir utan verkefnið sjálft er það að hann er nauðsynlegur vegna fjármögnunar og því hefði verið betra að við hefðum verið búin að taka hann á dagskrá fyrr en auðvitað geta verið eðlilegar skýringar á því, eða óeðlilegar eftir atvikum, frú forseti, sem skýrist kannski af því að þetta er stjórnarfrumvarp sem flutt er í andstöðu við annan stjórnarflokkinn.

Eins og ég sagði áðan fagna ég því að það er komið fram. (Gripið fram í: Var það ekki vasklega gert af iðnaðarráðherra?) Það er vasklega gert af iðnaðarráðherra, það skal tekið undir það, nauðsynlegt að það er komið fram og nauðsynlegt að það komist hratt í gegnum þingið því að áhrif þess geta verið gríðarleg á hagkerfið og efnahagslífið, sérstaklega hvað varðar landsframleiðsluna strax á þessu ári og næstu árum, og síðan það sem er auðvitað mikilvægast en leiðir af öðrum áhrifum, áhrifin á atvinnustigið. Þetta getur á næstu árum veitt 1–2 þús. manns atvinnu á þessu tímabili sem verkið mun standa yfir, allt til ársins 2015. Þetta mun auðvitað líka hafa gríðarlega mikil áhrif á svæðið, Suðurnesin þar sem álverið mun væntanlega rísa. Það er það svæði þar sem er hvað mest atvinnuleysi og því mun það hjálpa gríðarlega til við að halda þar atvinnuleysi í skefjum þó að það hafi auðvitað bein og almenn áhrif alls staðar á landinu.

Frú forseti. Ég fagna því að málið er komið fram. Ég lýsi yfir stuðningi okkar sjálfstæðismanna, þingflokksins, og sérstaklega okkar sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi við að það komist hratt og vel í gegnum þingið. Eins og ég sagði áðan er þetta afrakstur góðs samstarfs við hæstv. iðnaðarráðherra í tíð síðustu ríkisstjórnar og væri vel að núverandi hæstv. ríkisstjórn stæði að fleiri málum af þessu tagi.