136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:18]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (andsvar):

Frú forseti. Viðbrögð mín eru þau að ef hæstv. ríkisstjórn stendur eðlilega og af heilindum að uppbyggingu á orkufrekum iðnaði í Þorlákshöfn og þeim virkjunum sem til þarf til að svo geti orðið mun örugglega ekki standa á þeim í Þorlákshöfn að heimila línulagnir um landsvæði sitt til að koma raforku á Suðurnesin. Það er alveg örugglega ekki ætlunin hjá þeim að koma í veg fyrir uppbyggingu þar svo fremi sem eðlilega sé staðið að þeim möguleikum sem þar er að finna.

Þannig að hv. þingmaður sem kom fram með þessa spurningu, og er stjórnarþingmaður, hefur þess vegna alla möguleika á að taka þátt í því að Þorlákshöfn og sveitarfélagið Ölfus heimili raforkuflutninga frá Hellisheiðarvirkjun til Suðurnesja.