136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:58]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil strax í upphafi máls míns taka fram að ég styð ekki það frumvarp sem lagt er fram til laga um heimild til samninga um álver í Helguvík, sem byggt er á fjárfestingarsamningi við Century Aluminum, Norðurál. Þetta þarf engum að koma á óvart enda er afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til framkvæmda af þessu tagi þekkt.

Vegna orða sem hafa fallið um að þetta væri ríkisstjórnarfrumvarp og undarlegt að þeir flokkar sem standa saman að þessari minnihlutastjórn hér í þinginu gangi ekki í takt í þessum efnum, vil ég leyfa mér að minna þingheim á að þetta frumvarp er arfur frá fyrri ríkisstjórn. Þetta er arfur frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en á tíma hennar skrifaði hæstv. iðnaðarráðherra, þáverandi og núverandi, Össur Skarphéðinsson undir fjárfestingarsamninginn og með þeirri undirskrift var áskilið að hann legði samninginn hér inn í þingið. Vinstri hreyfingin – grænt framboð tekur ekki ábyrgð á verkum fyrri ríkisstjórnar. Af því tilefni var í þingflokki Vinstri grænna 4. mars gerð svofelld yfirlýsing vegna málsins. Ég vil leyfa mér að lesa hana, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs staðfestir að iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefur heimild til að leggja fram á Alþingi frumvarp til fullnustu skuldbindinga frá tíð fyrrverandi ríkisstjórnar við Norðurál Century Aluminum um skattaleg atriði vegna áforma um álver í Helguvík. Iðnaðarráðherra er kunnug andstaða þingmanna Vinstri grænna við málið og að þeir hafa ekki heitið stuðningi við það á Alþingi.“

Undir þetta bréf ritar fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs Jón Bjarnason, sem er formaður þingflokks okkar.

Ég vil segja almennt um þetta mál að hér er um venjulegt gæluverkefni fortíðar að ræða. Verið er að tala um ríkisstyrki til stóriðju, til álversframkvæmda, upp á 3 til 4 milljarða króna, eftir því hvernig menn reikna. Menn ætla að sækja heimildir til þess til Evrópusambandsins, til ESA, á þeim grundvelli að fyrir örfáum mánuðum hafi þáverandi ríkisstjórn látið breyta stöðu landsvæðisins sem hér um ræðir, þ.e. Suðurnesja og Helguvíkur, á svokölluðu byggðakorti Evrópusambandsins þar sem svæðið í kringum Helguvík er skilgreint sem byggðasvæði sem heimilt er veita ríkisstyrki til. Hér er enn verið að hygla ál- og orkuiðnaðinum, m.a. með beinum skattaívilnunum, sem ég ætla að koma sérstaklega að.

Á bls. 7 í greinargerðinni sem hér liggur frammi er sagt að samningurinn sé að mestu leyti sambærilegur og á bls. 8 að ívilnanirnar séu þó minni en í þeim fordæmum tveimur sem gefin eru, þ.e. frá Grundartanga 1997 og Reyðarfirði 2003. Tíundað er að í þessum samningi séu ekki sambærileg frávik, m.a. vegna gatnagerðargjalda og tekjuskatts á arð sem hafi verið í hinum samningunum, og heldur ekki vegna eignarskatts sem hefur verið afnuminn og er það væntanlega skýringin. Í þessum samningi, herra forseti, er hins vegar tekið skýrt fram að tekjuskattur sem lagður skal á þetta fyrirtæki til allt að 20 ára skal aldrei vera hærri en 15% en í hinum samningunum sem hér um ræðir, um álverksmiðjurnar á Grundartanga og í Reyðarfirði, er hámark tekjuskatts 18% en það er sú skattprósenta sem var við lýði á iðnaðinn þegar samningarnir voru gerðir 1997 og 2003.

Menn hafa rætt um að þetta málefni sé mjög mikilvægt í því árferði og atvinnuleysi sem við búum við og þeim mikla skuldabagga sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins í 18 ár hefur bundið á herðar þjóðinni, en með þessum samningi er verulega verið að takmarka möguleika íslenskra stjórnvalda til að afla tekna af þeim iðnaði sem hér er gælt við. Það er sem sagt heimilað samkvæmt hinum samningunum tveimur að hækka tekjuskattsprósentuna í 18% ef hún yrði hækkuð almennt en það er ekki heimilt samkvæmt þessum samningi. Þetta fyrirtæki, álverksmiðjan í Helguvík, mun út samningstímann vera bundið við hámark 15%, hvað svo sem ella yrði gert í landinu. Þetta, herra forseti, er óskiljanlegt við þær aðstæður sem við búum nú við. Við vitum að nauðsynlegt er að hækka skatta hér á komandi árum og með þessu frumvarpi er í reynd verið að lýsa því yfir að þá skatta verði að sækja annað en til fyrirtækisins sem hér er gælt við. Það er verið að veita þessu fyrirtæki sérstaka tryggingu gegn skattahækkunum í framtíðinni, umfram önnur álfyrirtæki sem hér starfa og gerðir hafa verið sambærilegir samningar um. Ég vil átelja hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að hleypa því ákvæði í gegn án tillits til þess sem gildir um hin fyrirtækin og án tillits til þess mikla vanda sem blasir við í fjármálum ríkissjóðs.

Ég vil líka nefna að í þessum samningi er tekið fyrir heimildir til að skattleggja vaxtatekjur á samningstímanum. Þar er í raun verið að girða fyrir það að Íslendingar geti gripið til sömu aðgerða og þjóðirnar í kringum okkur hafa til að leggja skatt á vaxtatekjur. Þetta, herra forseti, finnst mér gjörsamlega óverjandi og óska eftir því að frumvarpið fái sérstaka umfjöllun í efnahags- og skattanefnd vegna þeirra atriða sem ég hef talið og nákvæmlega verði reiknað út hverju menn afsala ríkissjóði í framtíðinni með þessum tveimur ákvæðum.

Herra forseti. Ég dreg ekki dul á andstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við stóriðjuna og sérstaklega verkefnið sem hér er á ferð. En ég hlýt að benda á að ótrúlegt ábyrgðarleysi kemur fram í orðum hæstv. ráðherra og þeirra tveggja þingmanna Suðurkjördæmis sem hér hafa talað þegar þeir vekja falsvonir, sem ég vil kalla, um að þetta verkefni muni bjarga atvinnuástandi á Suðurlandi og Suðurnesjum og skila allt að 8 til 9 þús. ársverkum á næstu árum, eins og hæstv. iðnaðarráðherra sagði. Að 950 manns muni að jafnaði á ári hverju starfa við byggingu álversins og annar eins fjöldi við byggingu orkuveranna sem eiga að fæða það.

Hvers vegna segi ég þetta, herra forseti? Í fyrsta lagi er þetta verkefni í bullandi óvissu. Ekkert er í raun handfast við það. Ef litið er á það sem talað er um og hvaða áhrif það hefur á þjóðarhag, kemur í ljós að þar stenst ekki neitt. Orkuöflunin er ekki í hendi. Hún er langt frá því. Í umhverfismati er heimild fyrir að reisa þarna 250.000 tonna álver en ekki þau 360.000 tonn sem allir arðsemisútreikningar byggja á. Það var erfitt og niðurstaðan í haust varð að fresta yrði fjármögnun verkefnisins um eitt ár. Eftir það hafa ársreikningar Century Aluminum verið lagðir fram sem sýna bullandi tap. Ekki nokkur maður þarf að ætla að í því árferði sem nú ríkir í heiminum verði auðveldara að afla lánsfjár til að byggja þetta álver eða orkuverin eða leggja línurnar sem hér þarf til en var í haust. Þannig að störfin sem hæstv. iðnaðarráðherra lofar við byggingu orkuveranna, við byggingu álversins og við línulagnirnar eru langt frá því að vera í hendi, einfaldlega vegna þess að fjármögnunarleiðir á þessum markaði eru litlar sem engar.

Hvað varðar orkuflutninginn er ljóst, eins og ég rakti áðan, að sveitarfélagið Ölfus hefur eindregið lagst gegn því að hleypa línunum í gegnum sveitarfélag sitt út til Helguvíkur. Síðast en ekki síst, herra forseti, er ljóst að orkuöflunin í þetta, eins og ég sagði áðan, mun ekki duga. Verið er að binda alla orku sem Orkuveita Reykjavíkur sér fram á að geta framleitt á Hellisheiði í þetta eina verkefni en það er langt frá því að duga til. Hvað er þá næst, herra forseti? Það er þá væntanlega Þjórsá ef ekki gamli Norðlingaöldudraugurinn. Ætla menn að vekja hann upp til að koma þessu álveri á koppinn?

Ég hef, herra forseti, nokkuð staldrað við ástandið innan lands, sem auðvitað skiptir verulegu máli, og fjármálakreppuna í heiminum og þau áhrif sem hún hefur á lánsfjármöguleika eða öflun fyrirtækisins. En sala afurðarinnar, þ.e. álsins, er einnig í bullandi uppnámi. Ljóst er að álver um allan heim eru að tapa verulegum fjárhæðum, eins og Century Aluminum á síðasta ári. Álverð hefur verið í frjálsu falli allt frá því á miðju síðasta ári þegar það komst hæst í 3.300 dollara tonnið en í byrjun mars, 3. mars fyrir tæpum 10 dögum, var það í 1.300 dollurum tonnið. Þetta er auðvitað merki um minnkandi eftirspurn vegna bankahrunsins.

Ég sé, herra forseti, að tími minn er nú að renna út. Þetta er stórt mál og við fáum væntanlega tækifæri til að ræða það ítarlega, bæði í nefndum þingsins og hér aftur, en ég vil aðeins hlaupa á nokkrum atriðum til viðbótar. Það fyrsta varðar orkuverðið. Nauðsynlegt er að aflétta leyndinni sem hvílir á orkuverði til stóriðjufyrirtækjanna og ég skora á hæstv. iðnaðarráðherra að beita sér fyrir því. Þetta gengur ekki lengur, sérstaklega ekki gagnvart garðyrkjunni, gagnvart gróðurhúsabændum. Hvað borga þeir og hvað fá þeir? Það er ekkert leyndarmál hvað þeir borga og það er töluvert mikið meira en hér um ræðir.

Ég vil ítreka að hér er um gríðarlega orkusugu að ræða sem ætlað er að þurrki upp nánast alla orku sem hægt er að framleiða með góðu móti hér á suðvesturhorninu og girði þar með fyrir möguleika á annarri uppbyggingu en álversuppbyggingu. Ég vil líka minna á að álversuppbygging á síðasta áratug hefur skilað miklu minna í þjóðarbúið heldur en forkólfar og talsmenn stóriðjustefnunnar hafa haldið fram. Það hefur verið sýnt fram á að arðurinn af álverum fer ekki inn í íslenskt samfélag í þeim mæli sem ætla mætti af umfangi þessa iðnaðar og ekki síður með tilliti til þeirra ríkisstyrkja sem hann fær nú og hér er gerð tillaga um að auka verulega við.